28.04.1966
Neðri deild: 80. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1011 í B-deild Alþingistíðinda. (938)

176. mál, Atvinnujöfnunarsjóður

Unnar Stefánsson:

Herra forseti. Það var aðeins örstutt aths. vegna ummæla og ræðu og reyndar grg. hv. 5. þm. Austf., Lúðvíks Jósefssonar. Hann segir í sinni grg. og sinni ræðu, að ófullnægjandi sé með öllu að veita fjármagn til atvinnuaukningar í hinum dreifðu byggðum, nema til komi skipulagning og heildarstjórn á veitingu fjárframlaga, lána og styrkja til slíkra framkvæmda. Ég hygg, að það sé einmitt svo ráð fyrir gert í frv., að ráðstöfun fjármagnsins skuli fara fram með hliðsjón af slíkum áætlunum. Í grg. frá 1. minni hl. fjhn. segir á þá leið, að það þurfi m.ö.o. að efna til framkvæmda samkv. áætlunum, sem beinlínis eru við það miðaðar að tryggja atvinnujafnvægi og eðlilega búsetu í landinu. í 6. gr. frv. til l. um atvinnujöfnunarsjóð segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta, að stjórn sjóðsins „lætur gera áætlanir og undirbýr lánsákvarðanir með aðstoð Efnahagsstofnunarinnar“, og síðan orðrétt: „Skal láta fram fara skipulegar rannsóknir á atvinnuástandi, samgöngum og menningarmálum einstakra byggðarlaga og landshluta. Á þessum rannsóknum skal reisa áætlanir um framkvæmdir, er að dómi sjóðsstjórnar beri helzt að styðja með lánveitingum eða styrkjum í samræmi við ákvæði 1. gr. áætlanir þessar skulu jafnan gerðar í samráði við hlutaðeigandi sýslunefndir, bæjarstjórnir og hreppsnefndir og aðra þá aðila, er sérstakra hagsmuna hafa að gæta í þessu efni.“ Ég leit svo á, að undir þetta félli áætlunargerð, sem þegar er hafin, sbr. Vestfjarðaáætlun og þann undirbúning, sem nú er hafinn í Efnahagsstofnuninni að Norðurlandsáætlun. Og þó að mér fyndist persónulega eðlilegra, að um slíka áætlunargerð hefðu jafnvel verið sett sérstök lög, er það þó svo í ýmsum löndum, að það eru einmitt í ákvæðum um sjóði, af því hve fjármagnið er talið mikilsvert, ákvæði um slíka áætlunargerð og rannsóknir og ég tel, að í þessari 6. gr. sé fyllilega svo um hnútana búið, að tryggt sé, að fjármagnsveiting til eflingar atvinnulífi fari fram með hliðsjón og í samræmi við skipulagða áætlunargerð.