14.04.1967
Neðri deild: 66. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1333 í B-deild Alþingistíðinda. (1182)

190. mál, girðingalög

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Þetta frv. var hér til 1. umr. í gær, og nú hefur frsm. landbn. mælt með samþykkt þess. Ég verð að segja það að mér finnst hv. landbn. vera mjög rösk í afgreiðslu á þessu máli. Hún er í raun og veru búin að afgreiða það, án formlegs fundar í n., nokkrum tímum eða mínútum eftir að málið er afgr. til n., en hins vegar ætla ég ekki að hæla hv. landbn. fyrir afgreiðslu á ýmsum öðrum málum, því að einu smámáli, sem ég flutti hér um sölu á eyðijörð í Snæfjallahreppi í N.-Ís., var vísað til n. 16. febrúar, og nú vantar 2 daga upp á 2 mánuði, sem n. hefur haft þetta stórmál til athugunar, en hefur ekki enn þá klárað að skila áliti um það. Ég vil leyfa mér að spyrja form. landbn. að því, í þessu sambandi, hvað dvelji afgreiðslu á jafnlítilfjörlegum málum og þessum, þegar n. getur sýnt annan eins röskleika og hún sýnir í þessu máli, sem hér er til umr. Hvað liggur á bak við þennan seinagang? Ég tel, að form. n. beri tvímælalaust skylda til þess að upplýsa það, hvernig á því standi. Ef það er einhver andstaða við frv. í n., þá á n. að skila áliti um frv., og ég tel það ekkert ofverk þessarar hv. n. að skila áliti um jafnlítilfjörlegt mál á tveimur mánuðum.