14.04.1967
Neðri deild: 66. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1333 í B-deild Alþingistíðinda. (1183)

190. mál, girðingalög

Jónas Pétursson:

Herra forseti. Því miður er ég nú aðeins staðgengill í þessari formannsstöðu í landbn. núna, þar sem aðalformaður er fjarverandi af þingi, en ég vil bara upplýsa það hér, að það liggja nokkur fleiri jarðasölumál fyrir hv. landbn. heldur en það, sem hv. þm. var að nefna, sem ýmist hafa ekki fengið jákvæð meðmæli í þeim umsögnum, sem leitað hefur verið eftir, eða ekki hefur verið samstaða um í n., en þar er alls staðar um að ræða sölu jarða til einstaklinga, og það hefur verið samkomulag um það, að láta þau mál liggja, sem þannig er ástatt með. Nú vil ég ekkert segja um það, út af því frv., sem fyrir n. liggur og hv. síðasti ræðumaður er flm. að, hvort það er endanlega dæmt til dauða, það kemur væntanlega Alþingi eftir þetta þing og e. t. v. hafa mál eitthvað skýrzt í millitíðinni, þannig að ég vildi nú vænta, að hann gæfi ekki upp alla von í dag um að þetta mál kynni einhvern tíma að ná fram að ganga, en þessar ástæður liggja fyrir því, að áliti hefur ekki verið skilað um þetta mál, ásamt nokkrum öðrum jarðasölumálum sem fyrir n. liggja.