18.04.1967
Efri deild: 72. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1499 í B-deild Alþingistíðinda. (1304)

159. mál, skólakostnaður

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég tel ástæðu til að segja nokkur orð í tilefni af því, sem hv. síðasti ræðumaður, 4. þm. Austf. (PÞ), gerði að umtalsefni í síðasta hluta ræðu sinnar, þ.e.a.s. það, sem hann sagði um ákvæði frv. um það, að barnaskólar skyldu skoðaðir sameign ríkis og sveitarfélaga.

Fyrir 1946, er fræðslulög, sem höfðu inni að halda ákvæði um greiðslu kostnaðar við skólahald, voru sett, greiddi ríkissjóður aðeins styrk til barnaskóla utan kaupstaða, en engan styrk til barnaskóla í kaupstöðum. Í löggjöfinni 1946 var hins vegar svo kveðið á, að ríkið skyldi styrkja alla barnaskóla, sem og raunar gagnfræðaskóla og fleiri skólategundir, og skyldi kostnaðurinn skiptast í vissum hlutföllum á milli ríkis og sveitarfélaga. Það mun rétt hjá hv. þm., að í þeirri löggjöf var ekki kveðið á um það beinum orðum, að skólarnir skyldu upp frá því skoðast sameign ríkis og sveitarfélaga. Hins vegar var frá upphafi tekið að líta þannig á, að svo væri, og allar götur síðan 1946 hefur ekkert sveitarfélag nokkru sinni hreyft öðrum skilningi á þessu atriði, enda má segja, að það hafi raunar aldrei haft beina þýðingu, haft sérstaka fjárhagsþýðingu, hvort þetta væri svo eða ekki. Þannig hefur verið litið á allar götur síðan 1946. Þegar svo löggjöf um skólakostnað var sett fyrir tæpum 10 árum, hefur af einhverjum ástæðum, sem mér er ekki fullkunnugt um, ekki þótt ástæða til þess að taka bein ákvæði um þetta inn í þau skólakostnaðarlög, lögin frá 1955, þó að allir, bæði embættismenn ríkisins og embættismenn sveitarfélaganna, hafi talið það vera orðið svo í reynd, að þessir skólar eins og aðrir; sem ríki og sveitarfélög byggja og reka sameiginlega, séu sameign ríkis og sveitarfélaga, enda má geta nærri, hversu óeðlilegt það væri, ef það sama gilti ekki um barnaskólana og gildir t. d, um gagnfræðaskóla, húsmæðraskóla og aðrar skólategundir. Þess vegna vildi ég mega líta þannig á, að það hafi í raun og veru verið misgáningur að taka ekki skýr ákvæði um þetta inn í lögin 1955, og úr því er bætt nú í þessu frv. Auðvitað er mönnum það ljóst, þau atriði, sem hv. þm. gat um, að tekin yrðu upp skýr ákvæði um barnaskólana, og það er gert í fullu samráði við fulltrúa Sambands ísl. sveitarfélaga og fulltrúa langstærsta sveitarfélagsins, Reykjavíkurborgar, sem unnu að undirbúningi þessa máls á öllum stigum.

Tvö atriði vildi ég nefna, og gæti þó nefnt fleiri, þeirri skoðun til stuðnings, að undanfarna áratugi, undanfarin 20 ár, hafi verið litið þannig á mótmælalaust, að um sameign hafi verið að ræða, en þau eru eftirfarandi: Þegar kostnaðarhlutdeild ríkisins í rekstrarkostnaði heimavistarskóla í sveitum var breytt úr ¼ upp í 3/4, var það beinlínis gert til samræmis við eignaraðild ríkis og sveitarfélaga að þessum skólum, vegna þess að ríkið hefur lagt til 3/4 stofnkostnaðarins og er þar með talið eigandi að þremur fjórðu að þessum mannvirkjum. Var talið rétt, að viðhald þeirra skyldi skiptast í sama hlutfalli. Þannig var þessu breytt 1955, og síðan hefur ríkissjóður greitt 3/4 hluta viðhaldsins í þessum stofnunum.

Annað atriði, sem einnig tvímælalaust styður það, að þannig hafi verið litið á, að skólarnir séu sameign ríkis og sveitarfélaga, er það, að þegar þessir skólar hafa haft tekjur, sem komið hefur fyrir, hefur þeim verið skipt í því sama hlutfalli, sem talið hefur verið eignaraðild að skólunum, sem sagt annaðhvort hefur ríkið fengið helming og sveitarfélagið helming, ef um þess konar skóla hefur verið að ræða, eða ríkið fengið 3/4 og sveitarfélagið ¼, ef um þess konar skóla hefur verið að ræða. Þessi tvö atriði vildi ég nefna sem dæmi um hið almenna Samkomulag um þann skilning, að í sameigninni um barnaskóla og aðra skóla, sem reknir eru og kostaðir sameiginlega af ríki og sveitarfélögum, sé eignarhlutdeild í þeim í sama hlutfalli og greiðsla til stofnkostnaðar þeirra.