18.04.1967
Efri deild: 72. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1505 í B-deild Alþingistíðinda. (1307)

159. mál, skólakostnaður

Unnar Stefánsson:

Herra forseti. Það er aðeins örstutt ábending, sem var tilefni þess, að ég kvaddi mér hljóðs. Í umr. um þetta mál hafa komið fram tilmæli um, að staða héraðsskólanna verði tekin til athugunar milli þinga, staða skólanna og fjárhagslegur stuðningur ríkisins við þá. Ég vil leyfa mér að beina því til hæstv. menntmrh., hvort ekki mætti taka til athugunar í sambandi við þessa endurskoðun, að ríkissjóður styddi að einhverju leyti kennslu, sem haldið er uppi fyrir nemendur á unglingafræðslustigi í skólum, sem reknir eru af öðrum en ríki og sveitarfélögum. Ég á hér sérstaklega við einn skóla, heimavistarskólann í Hlíðardal í Ölfusi, sem rekinn er af samtökum aðventista og hefur verið rekinn um nokkurra ára bil, að því er ég ætla, af mikilli fyrirmynd að dómi þeirra, sem til þekkja. Þennan skóla hefur sótt mikill fjöldi nemenda, bæði úr nágrannasveitarfélögum og eins úr Reykjavíkurborg, og ég hygg, að meðal þeirra nemenda séu unglingar, sem eiga nú e. t. v. við erfiðar heimilisástæður að búa eða af öðrum ástæðum þykir heppilegt, að dveljist á heimavistarskólum.

Það má færa viss rök fyrir því, að rétt væri, ef tök væru á, að finna form fyrir því, að ríkið veitti til rekstrar slíks skóla einhvern stuðning og í sambandi við ákvæði, sem hafa verið tekin út úr þessu frv., hygg ég eðlilegt, að heimasveitarfélagi hvers nemanda í slíkum skóla verði gert að greiða einhvern hlut í rekstri skólans, og þannig mætti t.d. koma til móts við þær sanngjörnu kröfur, sem ég veit, að komið hafa frá forráðamönnum skólans um það, að þeir hljóti einhvern stuðning.

Fyrst ég á annað borð kom hingað, vil ég aðeins láta þess getið, að mér þykir þetta frv. stórt skref í rétta átt og má til með að lýsa furðu minni yfir því orðalagi, sem notað er í nál. hv. minni hl. menntmn., þar sem hann telur, að sum ákvæðin séu að vísu til bóta miðað við gildandi lög, önnur aftur á móti varhugaverð eða jafnvel spor aftur á bak. Hv. frsm. minni hl. hafði á orði þann mismun, sem er á aðstöðu unglinga í dreifbýli og þéttbýli til skólanáms, og í sambandi við það hugðarefni, sem margir bera fyrir brjósti, þá brýnu nauðsyn að skapa unglingum í sveitum sömu aðstöðu til að njóta skólagöngu og unglingar í þéttbýli hafa, verð ég að segja, að þetta frv. er mjög stórt skref í rétta átt, með því að ríkissjóður tekur á sig, í þeim tilvikum, þar sem sveitarfélög, tvö eða fleiri, sameinast um rekstur skóla, bókstaflega allan stofnkostnað. Um þessar mundir er ástandið þannig í sveitum landsins, að af 220 barnaskólum landsins eru um 40 farskólar með um 700 nemendur. Þetta ástand er náttúrlega ekki viðunandi til frambúðar, og ég hygg, að þetta frv. marki mjög stór spor í að koma fræðslumálum dreifbýlisins í viðunandi horf. Þetta vildi ég, að kæmi fram og hygg, að kostir þessa frv. séu svo veigamiklir, að fyllsta ástæða sé til, enda þótt málsmeðferð sé ekki eins og æskilegt væri, að leggja áherzlu á, að það verði afgreitt.