06.12.1966
Neðri deild: 22. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í B-deild Alþingistíðinda. (142)

84. mál, Iðnlánasjóður

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það var aðeins eitt atriði í ræðu hæstv. iðnmrh., sem ég vildi, fyrst hann var að tilkynna okkur hér um þá iðnþróunarnefnd, sem hann hefði skipað, gera aths. við. Hann sagði, eftir því sem mér heyrðist, að þetta ætti að vera framhald af þeirri gömlu stóriðjunefnd, sem forðum var skipuð. Og nú, eins og menn muna, voru gerðar nokkrar aths. við það aðalverk, sem komið hefur frá stóriðjunefndinni, till. um alúminíumverksmiðjuna, að einmitt þingið og þingflokkarnir hefðu ekki haft aðstöðu til þess að skipa í þá n. eða undirbúa hennar starf eða fylgjast með hennar verkum. Nú skildist mér á því, sem hæstv. ráðh. las upp af þeim stofnunum, sem hann hefði falið að tilnefna þarna, þarna væri Seðlabankinn, þarna væri Iðnaðarmálastofnunin og þarna væru ýmsar deildir úr ríkisapparatinu, — mér skilst, að sú n., sem með þessu móti mundi verða skipuð af hæstv. ráðh., væri eiginlega eins konar n. úr sjálfu skriffinnskuapparati ríkisvaldsins. Nú skal ég ekki neita því, og það er kannske það, sem hefur vakað fyrir hæstv. ráðh. að reyna að samræma að einhverju leyti aðgerðir og skoðanir hinna ýmsu deilda innan ríkisvaldsapparatsins. En ég held, að við verðum að gá mjög vel að okkur, hvert þessi þróun fer að leiða, þessi þróun, að sérfræðingar, að embættismenn og aðrir slíkir eigi að ráða um og undirbúa þær till., sem síðan að lokum séu lagðar fyrir Alþ. svo að segja sem þær endanlegu till. ríkisstj. Þetta þýðir, að það er smám saman verið að grafa undan þingræðinu og valdi þings sem aðalvalds í landinu. Er nauðsynlegt, að menn geri sér þetta ljóst. Þetta er vandamál, sem er rætt nú sem stendur í öllum þingræðislöndum Evrópu, ekki sízt einmitt vegna þess, hve gífurlega vald sérfræðinga hefur aukizt við þá stórkostlegu tæknilegu þróun, sem nú á sér stað í heiminum.

Það er út af fyrir sig mjög eðlilegt, að vald þessara sérfræðinga aukist á ýmsan máta, vegna þess að þeir sitja oft inni, hvað þau hreinu tæknimál snertir, með þekkingu, sem þeir almennu kosnu fulltrúar af fólkinu hafa fæstir. En þetta felur í sér þá hættu, að smátt og smátt sé verið að þurrka út það lýðræði og þingræði, sem við ætlumst til, að ráði í löndunum. Og ég held, að við eigum að gæta okkar nokkuð vel í þessum efnum. Nú er hér að því leyti ekki eins mikil hætta á ferðum og víða erlendis, að það er alls ekki um það að ræða, að það sé svo mikið af tæknilega, vísindalega hámenntuðum mönnum, sem þarna eru settir í, og hafi þess vegna vissa yfirburði yfir alla aðra í krafti sinnar þekkingar. Það er miklu meira hitt, að það sé verið að setja einhverja og einhverja embættismenn, sem hafi enga sérþekkingu í þessum málum, en skipa einhverjar valdastöður í einhverjum bönkum þjóðfélagsins og einhverju slíku, og trúa þeim fyrir málum, sem þeir hafa alls ekkert sérstakt vit á fram yfir aðra menn. En það að velja yfirleitt þessa aðila úr sjálfu ríkisapparatinu þýðir smátt og smátt að setja þingið til hliðar.

Ég er ekki að segja þetta endilega vegna hæstv. núv. ríkisstj. Hvaða ríkisstj. sem er hefur þessar tilhneigingar. Og á móti þessum tilhneigingum þarf að standa, og við þeim þarf að vara. Ég vil mjög skírskota til hæstv. ráðh., ég veit, að hann er oft mjög samningalipur maður í þessum málum, að hann endurskoðaði mjög vel þessar till. sínar eða þessa ákvörðun sína, hvort honum fyndist ekki hentara að hafa annan máta á og taka meira tillit til Alþ. í þessu sambandi. Jafnframt vil ég líka benda á, að það er ekki sízt af hæstv. ríkisstj. talað um það allmikið nú, að hún vilji reyna að hafa góða samvinnu við verkalýðssamtökin. Ég sá ekki eða heyrði ekki, það kann að hafa farið fram hjá mér, — ég heyrði ekki í þessum ákvörðunum um neina fulltrúa frá hálfu þeirra samtaka verkalýðsins, sem sérstaklega hafa með iðnaðinn eða stóriðjuna að gera. Ég held, að það væri mjög misráðið að ræða um iðnþróunina á Íslandi í einhverjum ákveðnum hóp, sem ætti að undirbúa slíkt, án þess að taka tillit til þessarar stéttar, því að sjálft vinnuaflið, sjálfir verkamennirnir, sem í þessu eru, eru ekki hvað sízt ein höfuðforsenda fyrir því, bæði lært og ólært, að það verði hægt að þróa þennan iðnað, sem við gjarnan viljum þróa á Íslandi, svo að vel fari. Án þess að ég ætli að fara að gera þetta að nokkru umræðuefni núna, en fyrst ég heyrði, hvað hæstv. ráðh. sagði, vildi ég skjóta þessu fram honum til athugunar.