14.12.1966
Efri deild: 26. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í B-deild Alþingistíðinda. (158)

84. mál, Iðnlánasjóður

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Eins og nál. á þskj. 151 ber með sér og frsm. iðnn. hefur gert grein fyrir, var nefndin sammála um stuðning við þetta frv. Hins vegar komu þær raddir fram í nefndinni, að það væri eðlilegt að breyta einu ákvæði í frv., og við þrír nm., fulltrúar Framsfl. í nefndinni og ég, höfum í framhaldi af þeim umr. flutt á þskj. 149 eina brtt. við frv., sem ég skal fara um örfáum orðum.

Þessi brtt. felur það í sér, að skuldabréfalán þau, sem gert er ráð fyrir að iðnlánasjóður bjóði út samkv. þessu frv., ef að lögum verður, að þá skuli skuldabréfin og vextir af þeim undanþegin skattlagningu, en ekki undanþegin framtalsskyldu. Brtt. okkar er sú ein, að undanþága frá framtalsskyldu skuli falla niður, og rökin fyrir því eru einföld. Það gefur auga leið, að eftir því sem meira verður að því gert að heimila eða ákveða í lögum, að ekki þurfi að telja fram verðmæti eins og handhafaskuldabréf, sem ganga kaupum og sölum, eftir því verður torveldara að hafa eftirlit með framtölum manna. Það er enginn efi á því, að það er mjög varhugavert að fara langt út á þessa braut, og það hafa ekki komið fram rök fyrir því, að það sé nein sérstök ástæða til þess. Ég fæ ekki séð, að það eigi að torvelda sölu á þessum skuldabréfum, þó að ákvæðið um framtalsskyldu þeirra sé í lögum, ef þau eru undanþegin tekju- og eignarskatti. Rökin fyrir því að halda framtalsskyldunni í lögum eru að mínu viti og okkar flm. þessarar till. einföld og augljós, og ég vil leggja áherzlu á, að það er verið að hverfa inn á býsna varbugaverða braut, ef það á að verða regla, að fleiri og fleiri slík skuldabréfalán verði boðin út með því ákvæði, að handhafaskuldabréf verði undanþegin framtalsskyldu.