14.12.1966
Efri deild: 26. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í B-deild Alþingistíðinda. (159)

84. mál, Iðnlánasjóður

Frsm. (Sveinn Guðmundsson):

Hv. 5. þm. Reykn. hefur lýst brtt. á þskj. 149 um, að undanþága frá framtalsskyldu falli niður. Það fer ekki milli mála, að hverju hv. tillögumenn stefna með brtt. sinni. Þeir stefna að því að eyðileggja þessa lántöku, gera skuldabréfin óseljanleg. Ég undrast þessa afstöðu, sérstaklega hv. 6, þm. Sunnl., sem er tamt að tala um hagræðingu, en þessi lántaka, sem hér er ráðgerð með skuldabréfaútboði fyrir iðnlánasjóð, er einmitt til hagræðingarlána fyrir iðnaðinn. Ef þessar hv. alþm. meina nokkuð annað en spilla fyrir lántökum iðnlánasjóðs, þá ættu þeir að flytja till. hér almenns eðlis um lagabreyt., þannig að ríkisskuldabréf, skuldabréf húsnæðismálastjórnar og önnur slík skuli framtalsskyld. Þeir skyldu þá einnig hafa það í huga, að samkv. skattalögum ber að skattleggja framtalsskyld skuldabréf, skuldi viðkomandi skattþegn yfir 200 þús. kr. í fasteignalánum.

Þessi brtt. á þskj. 149 hittir því fyrst og fremst þá, sem hlífa skyldi, launþega, sem skulda í íbúðum sínum, en hafa með skotsilfri áhuga á að styrkja lánsútboð iðnlánasjóðs.

Segjum nú svo, að eigendur slíkra vaxtabréfa hefðu áhuga á að breyta þessum verðmætum sínum í áþreifanlega hluti, bíla, bæta við íbúðarhúsbyggingar sínar eða annað slíkt, þá kemur það eðlilega fram til skattskyldra eigna viðkomandi. Það er sannarlega ástæða til þess, eins og þróunin hefur verið undanfarna áratugi, að örva menn til sparnaðar með öllu móti. Sparifé fólksins í einu eða öðru formi er það fjármagn, sem gefur atvinnuvegunum möguleika til rekstrar. Fólkið, sem hefur sparað saman, er sannarlega ekki ofsælt af sinni fjáreign, en það gerir með þjóðhollu starfi sínu atvinnuvegunum mögulegt að starfa.

Samkv. gildandi lögum er sparifé það, sem liggur í peningastofnunum landsins, skatt- og framtalsfrjálst. Auk þess hafa svo verið gefin út verðbréf til langs tíma, sem bera sömu undanþágu skattfrelsis. Þegar löggjafanum hefur þótt eðlilegt, að fjármagn, sem liggur í bönkum landsins og kemur atvinnuvegunum að gagni, sé undanþegið skattlagningu, því skyldi þá ekki það fjármagn eða sparifé, sem viðkomandi kann að eiga í verðbréfum til langs tíma, vera undanþegið á sama hátt, nema frekar sé. Viðkomandi sparifjáreigandi er að afhenda þjóðfélaginu peninga sína til langs tíma með kaupum á slíkum verðbréfum, sem hér um ræðir. Hann er að stuðla að minnkun verðþenslunnar og leggja atvinnuvegunum til fjármagn sitt.

Ég legg til, að þessi brtt. á þskj. 149 verði felld.