14.12.1966
Efri deild: 26. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í B-deild Alþingistíðinda. (160)

84. mál, Iðnlánasjóður

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Það eru aðaðeins örfá orð í tilefni af þessari seinni ræðu hv. frsm. nefndarinnar.

Hann fullyrti það með töluverðum þjósti, að þessi brtt. okkar væri fram borin til þess að eyðileggja þetta frv., hvorki meira né minna, og hann staðhæfði einnig, að skuldabréfin mundu verða óseljanleg, ef þessi breyting yrði samþykkt. Svo hélt hann áfram, og ég var að bíða eftir því, að hann rökstyddi með einni setningu, þótt ekki væri meira, þessar fullyrðingar sínar. En ég gat ekki orðið var við, að þar kæmu fram nein rök fyrir því, að þetta breytti neinu stórvægilegu í sambandi við möguleika á sölu slíkra skuldabréfa. En ég vil biðja hv. frsm. að hugleiða það svolítið betur í tómi, og ég vil einnig skjóta því til hæstv. fjmrh. að hugleiða það, sem ég býst við, að hann hafi þegar gert, hvort það er ekki ofurlítið athugandi að fara hægt á þeirri braut að ákveða í stórum stíl, að skuldabréf skuli undanþegin framtalsskyldu. Ég held, eins og ég sagði áðan, að það geti orðið býsna varhugavert, ef þetta verður hin almenna regla.