14.12.1966
Efri deild: 26. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 282 í B-deild Alþingistíðinda. (162)

84. mál, Iðnlánasjóður

Helgi Bergs:

Herra forseti. Ég kemst ekki hjá því að láta hér í ljós undrun mína yfir þeim viðbrögðum, sem hafa orðið við flutningi þessarar brtt. Hv. 10. þm. Reykv. taldi hana flutta til þess að eyðileggja þetta lánsútboð og fullyrti, að samþykkt hennar mundi gera bréfin algerlega óseljanleg. Það hlýtur þá að vakna sú spurning, hverjir hv. þm. gerir ráð fyrir, að kaupi þessi bréf, ef þessi ákvæði, sem við leggjum til að breytt verði, héldust. Það væru þá einhverjir, sem keyptu þau fyrst og fremst til þess að þurfa ekki að telja fram einhvern hluta eigna sinna. Ef þetta atriði ræður úrslitum um það, hvort menn kaupa bréfin eða ekki, gefur það auga leið.

Þessa skoðun hv. 10. þm. Reykv. get ég ekki fallizt á. Ég þekki stéttarbræður hans í iðnaðinum töluvert. Ýmsir þeirra hafa peninga milli handa, og ýmsir þeirra hafa peninga á milli handa, sem þeir hafa engan sérstakan áhuga á að fela fyrir skattayfirvöldum og hæstv. fjmrh. Ég hef trú á því, að þessir menn mundu kaupa þessi bréf og raunar margir, margir fleiri án tillits til þess, hvort þeir þurfa að telja þessar eignir sínar fram eða ekki. En álit hv. 10. þm. Reykv. á þessum stéttarfélögum sínum virðist vera nokkuð annað, og það hlýt ég að harma. Við það bætti hann svo ýmsum setningum, sem mér virtust bera vott um það, að hann hefði í þokkabót misskilið till. okkar á þann veg, að við ætluðumst til þess, að þessi bréf yrðu skattlögð. En það var ekki okkar meining, eins og menn munu sjá, sem lesa till. vandlega. Þessi viðbrögð hv. þm. voru mér vissulega mikil vonbrigði, en þau gáfu um leið nokkrar upplýsingar um hugsunarhátt hv. þm. í þessum efnum, sem við auðvitað verðum að sætta okkur við að hlusta á.

Ég undraðist einnig mjög ræðu hv. 8. þm. Reykv. Hann taldi, að því er mér virtist, að það mundi ekki auðvelda eftirlit skattayfirvalda, að eignir manna væru skráðar, og nú brestur mig skilning. Þetta er auðvitað fjarstæða. Það er grundvallaratriði fyrir öllu eftirliti með skattframtölum og skattlagningu, að eignir manna séu skráðar. Þar að auki taldi hann, að eignaaukning væri svo lítill hluti af tekjum manna, að þó að hún skryppi fram hjá skattheimtumönnum, virtist mér, að það væri skoðun hans, að það sakaði ósköp lítið. Á þetta verður ekki heldur fallizt. Það verður að gera það, sem hægt er, til þess að skattframtöl séu rétt. Það virðist mér vera grundvallaratriði fyrir allri sanngjarnri skattheimtu. Og ég hef raunar trú á því, að hv. 8. þm. Reykv. sé sama sinnis, þó að hann reyndi að taka undir andstöðu gegn till. okkar með þessum einkennilegu viðbrögðum. En í lok ræðu sinnar kom hann með þá mótbáru, sem mér virtist, að ætti alveg að gefa till. okkar dauðahöggið. Og það var sú aths. hans, að það þýddi ekkert að vera með svona ákvæði, vegna þess að það væri ekki hægt að nota þau til refsingar, það væri ekki hægt að meta slíkt brot til refsingar, þar sem engu hefði verið undan stungið af skatti, þó að svikizt væri um að telja þessi bréf fram, ef það væri skylt, en eignin aftur á móti ekki skattskyld. Hér veit hv. þm. auðvitað miklu betur, hvað um er að vera. Þegar um er að ræða að slá föstum eignum manna til skatts, er það ekki fyrst og fremst til þess að ná í eignarskattinn. Það er fyrst og fremst til þess að geta fylgzt með efnahag skattgreiðandans í því augnamiði að sannreyna tekjur hans. Og eignum, sem skotið er undan skatti, mun yfirleitt ekki vera skotið undan til þess að komast hjá eignarskatti í sjálfu sér, heldur til þess að reikningarnir stemmi, þegar tekjum hefur verið skotið undan. Þetta veit hv. 8. þm. Reykv. að sjálfsögðu vel, og þess vegna er slík mótbára eins og þarna var fram flutt næsta veigalítil.

Ég vil til viðbótar því, sem hv. 5. þm. Reykn., sem er frsm. okkar till.-manna, sagði, mæla eindregið með samþykkt þessarar till. Ég vil láta þess getið, að í hliðstæðum tilfellum, eins og t.d. í sambandi við skuldabréfaútboð ríkissjóðs, fluttum við framsóknarmenn svipaða till., og það er skoðun mín og okkar fleiri, að þegar sé of langt gengið á þessari braut og það eigi að snúa við á henni. Ég verð að vísu að harma það, að þetta skuli hafa verið gert í þeim mæli, sem þegar hefur verið gert. Um það skal ég ekki sakast í bili. En ég vil ráða eindregið frá því, að lengra sé gengið á þessari braut.