11.04.1967
Neðri deild: 64. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í C-deild Alþingistíðinda. (1704)

10. mál, áfengislög

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Það kom að því, að nál. bærist frá allshn. Ef ég man rétt, er hún búin að hafa málið í sínum höndum frá 1. nóv. Það eru 162 dagar, sem hún er búin að vera að hugsa sig um, hvernig eigi að afgreiða þetta mál. Það er samt betra seint en aldrei að fá álitið, jafnvel þó að það sé svona úr garði gert eins og þetta er frá meiri hl. hv. allshn. Nú vil ég helzt ekki lengja umr. um þetta mál, vegna þess að mér finnst mjög æskilegt, að fram fari atkvgr. um málið, ekki sízt á tíma eins og nú er. Það verður jafnvel enn þá meira tekið eftir því og það yrði enn þá meira að marka það.

6 hv. þm. af þeim, sem hér eiga sæti á hv. Alþ. nú, eru búnir að greiða atkv. um þetta frv., eins og það liggur fyrir, því að mþn. var skipuð eingöngu alþm. Aðeins einn hefur horfið af þingi síðan, en var að sjálfsögðu með frv. í mþn., þar var það samþ. shlj. eins og það er flutt, enda ekkert í frv. nema sem var samþ. shlj. í nefndinni.

Mþn. var ljóst, að ástandið í áfengismálum þjóðarinnar er óviðunandi. Og ég ætla, að hún hafi haft mestar áhyggjur af því, hvernig komið er hjá æskufólki í landinu hvað snertir áfengisneyzlu. Við, sem þessa n. skipuðum, vorum allir sammála um, að við þetta yrði ekki unað lengur, svo alvarlegt væri ástandið orðið. Við vildum leita eftir einhverjum þeim ráðum, sem gætu dregið úr áfengisneyzlu ungmenna. Okkur hugkvæmdist því að leggja til sem bráðabirgðaráðstöfun, að tekið skyldi í lög, að vínveitingahús landsins skyldu vera áfengislaus eitt laugardagskvöld af hverjum fjórum, en halda uppi fullkominni þjónustu að öðru leyti. Hugsunin á bak við þessa till. er sú, að æskufólkið í landinu eigi einhvers staðar friðland á laugardagskvöldum annars staðar en í áfengisflóði vínveitingahúsanna, en þar fara aðallega fram skemmtanir manna, ekki sízt hér í höfuðborginni. Tilgangurinn var aðeins sá, að æskufólk gæti skemmt sér á laugardagskvöldi án þess að verða að bráð því áfengisflóði, sem að því steðjar, komi það þangað inn. Við töldum, að þetta væri eitthvert það allra minnsta spor, sem hægt væri að stíga til þess að sýna viðleitni í þá átt að verða að einhverju gagni í þessum efnum.

En síðan við samþ. þessa till. og síðan þetta frv. var flutt sem stjfrv., hafa gerzt atburðir, eins og oft vill verða, hvað þetta snertir, m. a. atburðir hér í miðborginni, þar sem ölvuð ungmenni mjög fjölmenn sækja að lögreglunni. Um þetta urðu mikil blaðaskrif. Það var mikil hneykslun meðal almennings í bænum út af ástandinu. Nú er ekki við ungmennin að sakast, því að þau hafa ekki lært að neyta áfengis annars staðar en hjá fullorðnum. Það er við hina fullorðnu að sakast. Hver var ástæðan? Unglingarnir komust ekki inn í vínveitingahús þetta kvöld, eins og þeir áður komust. Ég vil ekki vera að lýsa þessu ástandi meira, og ég hef verið svo barnalegur að halda, að hv. alþm. vissu það, hvers konar alvara er á ferðum, og ég held, að þeir viti það. Nú leggur meiri hl. allshn. til, að þetta ákvæði í frv. skuli fellt niður, það skuli þurrkað út. Vínveitingahúsunum megi ekki loka fyrir vínveitingum eitt kvöld af 28. Og forustumenn og eigendur þessara vínveitingahúsa hafa skrifað alþm. eitt mikið sendibréf. Þeir sendu mér það aldrei. Ég hygg, að þeir hafi sent öllum öðrum það. En ég hef fengið að sjá það hjá kunningja mínum. Og í þessu bréfi lýsa þessir eigendur vínveitingahúsanna því, að ef þetta verði samþykkt, séu þeir alveg komnir á hausinn, þetta sé bara til þess að kippa undan þeim fótunum fyrir alvöru, að missa eitt kvöld af 28 til að selja vín. Það dugir ekki!

En var þá ekkert gagn í þessari ráðstöfun, sem mþn. hugsaði sér til þess að afstýra áfengisneyzlu barna og unglinga? Jú, ég held, að það efist enginn um, að það sé nokkurt gagn í þessu, ekki fullnægjandi og er langt frá því, en nokkurt gagn að því. Og eftir hvern atburð, sem gerist í málum ungmennanna af þessu tagi, fyllist fólk hálfgerðum hrolli, allt samvizkusamt fólk a. m. k., yfir því að eiga börnin sín í því umhverfi, sem sogar þau inn í þessa hringiðu. Ég fullyrði, að hundruð, ef ekki þúsundir foreldra hér í bænum hafa áhyggjur af því, að börnin þeirra geta hvergi óhult skemmt sér, að þau séu háð því áfengisflóði, sem alls staðar er. Undan þessu vildum við reyna að forða unglingunum, þó að ekki væri nema eitt kvöld, eitt laugardagskvöld í hverju vínveitingahúsi af fjórum. Við vildum láta þessa unglinga fá friðland til þess að skemmta sér á sæmilega heilbrigðan hátt við fullkomna þjónustu þessara skemmtistaða, án þess að um áfengi væri að ræða. En meiri hl. allshn. er annarrar skoðunar. Hann hefur tekið til greina sendibréfið frá vínveitingahúseigendum. Meiri hl. hefur gert það upp við sig, hvort sé meira virði að gefa unglingunum þarna kost á áfengislausum skemmtunum, þótt mjög takmarkað sé, annars vegar, en hins vegar, að vínveitingahúseigendur geti grætt á áfengissölu líka þetta eina laugardagskvöld af fjórum, sem um væri að ræða. Þetta hefur sjálfsagt hv. meiri hl. allshn. gert upp við sig, og niðurstöðuna sjáum við. Niðurstöðuna sjáum við í þessu nál., sem nú liggur hér fyrir. Meiri hl. nefnir það ekki einu orði, að það sé neitt gagn að þessari ráðstöfun, sem þessir 7 þm. töldu vera gagn að, — nei, ekki einu orði. Þegjandi og hljóðalaust vilja þeir þurrka þetta burt. Því síður nefna þeir nokkrar aðrar ráðstafanir, sem geti orðið betri. Ég vil þó minna á, að fyrir þessari hv. d. liggur frv., sem þeir flytja, hv. 11. þm. Reykv. og hv. 5. þm. Reykv., um ungmennahús, sérstakan skemmtistað, áfengislausan, vandaðan, með fjölhæfum möguleikum til skemmtunar börnum og unglingum. Hvað hefur orðið um þetta mál hér á hv. Alþ.? Það er búið að svæfa það, svæfa það til fullnustu á þessu þingi. Nei, það á ekki upp á pallborðið hjá þessum mönnum að vera að flytja slíkar till. Ungmennahús, áfengislausar veitingar, — þetta telja þeir auðsjáanlega fjarstæðu eina.

Það gerist eiginlega tvennt eftirtektarvert í þessum málum á þessu Alþ. Annars vegar, að till. um áfengislaust og vel útbúið ungmennahús handa æskulýðnum er svæfð. Hins vegar að þurrka út úr frv. ákvæðin, að vínveitingahús skuli vera áfengislaus eitt laugardagskvöld af hverjum 4. Þetta er í stíl við annað, nákvæmlega í stíl. Hvað er það, sem hér er að gerast? Það er ekkert annað en það, að þarna rekast á tvenns konar sjónarmið: annars vegar uppeldislegt sjónarmið vegna æskulýðs þjóðarinnar, hins vegar gróðasjónarmið vínveitingahúsa. Þessi tvö sjónarmið rekast þarna á. Og við sjáum, hvort sjónarmiðið hefur yfirhöndina. Það er hagsmunasjónarmið vínveitingahúsanna, sem ræður. Hitt sjónarmiðið skal lúta í lægra haldi hjá þessum mönnum.

Eins og ég sagði áðan, ætla ég ekki að fjölyrða um þetta mál, af því að ég vil fá atkvgr. um það. Ég vil ekki, að þetta dagi uppi. Ég vil, að alþm. greiði atkv. um þetta mál, og skal ég því stytta mál mitt. Ég vil segja það, að ég öfunda þá ekkert, þessa 4 stjórnarsinna, sem gefa út meirihlutaálitið. Nei, ég öfunda þá ekki að hafa tekið undir verndarvæng sinn gróðasjónarmið vínveitingahúsanna á kostnað æskulýðsins í landinu. Það er þetta, sem verið er að gera. Og ég harma það ekki, að alþm. fái nú tækifæri til þess með atkvgr. að sýna það, hvort sjónarmiðið þeir meta meira.

Ég vil ljúka máli mínu í því trausti, að það verði ekki langar umr. um þetta mál, svo að atkvgr. geti farið fram.

Hvað snertir brtt. hv. 1. þm. Norðurl. v. er það að segja, að ég álít hana alveg réttmæta og sjálfsagða, og við, sem áttum sæti í mþn., höfum að sjálfsögðu áskilið okkur rétt til þess að flytja brtt. við þetta mál eða fylgja till., sem fram koma, þrátt fyrir það að ekki yrði niðurstaðan í mþn. önnur en sú að flytja það eitt, sem allir eru sammála um.