13.12.1966
Neðri deild: 27. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 297 í B-deild Alþingistíðinda. (183)

88. mál, Framleiðnisjóður landbúnaðarins

Björn Pálsson:

Herra forseti. Í landbn. var rætt um þetta atriði í 4, gr., hvernig bæri að skilja það. Ég spurði formann n. um það, hvort það væri meiningin með þessar 20 millj., að það yrði lán, sem væri innheimt, eða hvort það væri óendurkræft framlag, og fékk ekki svar við því. Ég gerði ráð fyrir, að þeir stjórnarliðar vissu meira um það en við. En hæstv. landbrh. hefur upplýst það nú. Við biðum með það að leggja fram brtt., við hv. 3. þm. Norðurl. e., þar til þetta mál yrði upplýst. Sannleikurinn er sá, að ef þetta á að vera þannig, að þetta sé óendurkræft framlag, þá kemur ekkert fé í þennan sjóð á þessu ári, verður ekkert til að lána út á næsta ári heldur, fyrsta fjárveitingin kemur ekki fyrr en á árinu 1968, 10 millj., þannig að miðað við það virðist ekki liggja ákaflega mikið á að ákveða þetta á þessu þingi. Nú er það ekki ólíklegt, að einhverjar breytingar verði á ríkisstj., þannig að persónulega álít ég, að það væri ekki nein heimska að geyma þetta þangað til eftir kosningar. Það er ekki að vita, að næsta ríkisstj. verði ánægð með það, sem þessi gerir, ef einhverjar breyt. verða á henni, sem ómögulegt er að segja um, en maður veit, að alltaf styttist það tímabil, sem hver ríkisstj. situr að völdum, því að engin ríkisstj. er eilíf. Við viljum samt ekki gera þetta að neinu sérstöku ágreiningsefni.

Hitt er svo annað mál, að það gefur auga leið, að ef 20 millj. kr. eru óendurkræft framlag, eru ekki nema 30 millj. eftir. Það má um það deila, hvort það er svo há fjárhæð, að það taki því að mynda sérstakan framleiðnisjóð úr því. Jafnvel þótt ekki sé meiningin, að sá sjóður miði að því að auka framleiðsluna, heldur gera þetta léttara fyrir bændurna, eins og tekið er fram í grg., þá er náttúrlega ekkert stórvirki hægt að gera. Við komum okkur saman um það, hv. 3. þm. Norðurl. e., að leggja fram brtt. um það, að þetta verði 10 millj. kr. í 5 ár, þannig að það yrðu 50 millj., og virðist það vera mjög hóflega af stað farið, úr því að við komum með hækkunartill. hvort sem er.

En það virðist ákaflega mikill áhugi hjá meiri hl. n. að flýta málinu. Satt að segja sé ég ekki, að það sé ekki möguleiki að greiða þessar 20 millj., því að þær eru teknar inn á fjárl., þó að þessi lög séu ekki samþ., og væri í sjálfu sér miklu æskilegra að ganga betur frá þessu frv., ef þetta er hugsað sem gildur liður í landbúnaðarlöggjöf okkar, heldur en gert er hér. En þeir ráða nú stjórnarliðar og vildu hraða þessu sem mest. Við munum við 3. umr. leggja fram brtt. um það, að þetta verði 10 millj. kr. á ári og tímabilið nái 2 árum lengra aftur, þannig að þetta verði alls 50 millj. Hér var boðuð önnur brtt. af 5. þm. Vestf. og nær aðeins skemur með 65 millj. Ég sé ekki, að það liggi á að koma með þessa brtt. fyrr en við 3. umr., því að hún er í prentun núna. Ég vildi bara skýra d. frá því, að það er von á þeirri brtt., áður en þessi er borin upp, þó að ég játi, að þessi till. er í rétta átt. Það var yfirleitt ekki tími til að ræða þetta mái ýtarlega eða gera brtt., og mér skildist á meiri hl. n., að það mundu ekki verða teknar til greina brtt., þó að við vildum eitthvað breyta þessu frv., þetta væri ákveðið mál og málinu yrði bara hraðað.