10.03.1967
Neðri deild: 52. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 445 í C-deild Alþingistíðinda. (1982)

144. mál, Fiskimálaráð

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Hér er hreyft mikilsverðu máli, en varla þó á þann hátt, að það sé hægt að búast við því, að mikill árangur fáist, ef fara ætti eftir því, sem lagt er til í þessu frv. Í frv. er lagt til, að sett verði á fót allfjölmenn ráðgefandi n. til að hafa áhrif á þróun í sjávarútvegsmálum. Það er gert ráð fyrir því, að þessi fjölmenna ráðgjafarnefnd komi saman tvisvar á ári eða þar um bil, hún skal vera ólaunuð, og það er greinilegt á allri upp byggingu frv., að það er ekki ætlazt til þess, að þessi stofnun, ef stofnun skyldi kalla, eigi að hafa nein fjárráð, því að í frv. er ekki gert ráð fyrir því, að n. hafi yfirráð yfir neinu fjármagni. Verkefni þessarar ráðgefandi n, er svo útfært nánar á þann veg í frv., að hún skuli reyna að hafa áhrif á uppbyggingu fiskiskipaflotans og á uppbyggingu fiskiðnaðarins í landinu og reyna að hafa áhrif á stefnu í markaðsmálum.

Þegar það er athugað, hvernig gert er ráð fyrir því, að þessi fjölmenna ráðgjafarnefnd skuli starfa og við hvaða kjör, þá hygg ég, að flestum verði það ljóst strax í upphafi, að það sé varla við því að búast, að árangurinn geti orðið stór í þessum efnum. Því er þannig háttað skv. lögum, sem Alþ. hefur sett, að ákveðnar lánastofnanir, eins og t.d. hinn nýi Fiskveiðasjóður Íslands, sem lög voru sett um á s.l. ári, hafa með uppbyggingu sjávarútvegsins að gera varðandi allar lánveitingar, jafnt í sambandi við kaup á nýjum fiskiskipum sem uppbyggingu nýrra fiskiðnaðarverksmiðja. Það er því vitanlega þessi stjórn, sem þar á að vera að verki, og Alþ. hefur ákveðið, að það skuli vera bankastjórarnir í viðskiptabönkunum ásamt einum fulltrúa frá Seðlabankanum, — það eru þessir aðilar, sem eiga að hafa þessa þræði í sínum höndum, í hvaða fiskiskip fjármagnið skuli fara og í hvaða fiskiðnað á að veita lán. Við höfum á undanförnum árum haft talsverða reynslu af því, hvernig þessir aðilar hafa staðið að þessum málum, þar sem þeir hafa mátt ráða, og útkoman hefur auðvitað orðið þessi, sem kom m.a. fram í framsöguræðu 1. flm. þessa frv., að það vantar alla heildarstefnu í sjávarútvegsmálum nú í dag, og menn finna sárt til þess. Og þá er að leita að því, hvað skuli gera.

Flm. þessa frv. eru 8 þm. Sjálfstfl. hér í Nd. Ég tel, að flutningur þessa frv. beri vitni um það, að svo er nú komið, að í hópi sjálfstæðismanna hér á Alþ. eru menn einnig að verða sannfærðir um, að það er nauðsynlegt að reyna að hafa einhverja heildarstjórn á þróun okkar aðalatvinnuvegar, en eins og kunnugt er, hefur það hreinlega verið yfirlýst stefna þeirra sjálfstæðismanna fram til þessa, að í þessum efnum ættum við að hafa sem minnst fast skipulag, við ættum ekki að vera að gera neinar áætlanir fyrir fram um þróun þessarar atvinnugreinar frekar en annarra, heldur ættu hinir ýmsu framtaksmenn í landinu að ráða því, hvað gert væri á hverjum tíma, svo yrðu hin almennu gróðasjónarmið að ráða því, hvort fjármagnið leitaði fremur í þessa greinina eða hina.

Aftur á móti hefur það verið yfirlýst stefna okkar Alþb.-manna, að við teldum, að það væri nauðsynlegt að skapa fasta stjórn, sem reyndi að hafa yfirsýn og yfirstjórn um þróun atvinnulífsins í landinu, þar sem gera ætti áætlanir um uppbyggingu hinna ýmsu þátta, jöfnum höndum til langs tíma og einnig til stutts tíma. Við höfum lagt áherzlu á það, að samhliða slíkri áætlunargerð yrði að tryggja það með ráðstöfun fjármagnsins, að þessar áætlanir yrðu framkvæmdar, að þær yrðu að meira en pappírsgagni, þær yrðu framkvæmdar. En það er einmitt þetta, sem þeir sjálfstæðismenn hafa ekki mátt heyra til þessa. Þeir hafa hvorki viljað gera neinar ýtarlegar áætlanir í þessa átt og enn þá síður viljað gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að sjá um það, að þær áætlanir, sem annars væru gerðar, næðu því að verða framkvæmdar. En þetta frv., sem hér kemur, sýnist mér bera vitni um, að það sé að verða nokkur hugarfarsbreyting í þingliði sjálfstæðismanna og a.m.k. ýmsir þar í hópi séu að sannfærast um það, að stefnuleysið, sem er ríkjandi í okkar atvinnulífi, m.a. í sjávarútvegsmálunum, sé ekki viðunandi og það beri að reyna að komast út úr þessum vanda, og þá leggja þeir það til, og það er þeirra fyrsta skref í áttina, og séð frá þeim sjónarhóli ber vitanlega að fagna því skrefi, þó að það sé ekki stórt, að fyrst skuli settur saman málfundaklúbbur til þess að ræða málið og menn skiptist dálitið á um skoðanir á því, hvað skuli gera, jafnvel þó að sá klúbbur hafi ekkert vald til að sjá um framkvæmd á neinu því, sem gera þarf. Fyrst er vitanlega að koma auga á vandann og átta sig á þeim verkefnum, sem þarf að taka á, sannfærast um það, hvað þurfi að gera, næsta skrefið þar á eftir hlýtur vitanlega að verða það, að þessir menn fallast á okkar stefnu og sjá, að það á að gera áætlanir, ýmist til langs tíma eða stutts tíma um þróun atvinnuveganna og þar með sjávarútvegsins, og þar næst á eftir munu þeir sannfærast líka um það, að það er nauðsynlegt að gera ráðstafanir til þess, að áætlanirnar verði framkvæmdar, ekki bara skrifaðar upp, heldur líka framkvæmdar.

Út frá þessu sjónarmiði get ég fagnað þessu frv., vegna þess að það ber vitni um, að það er hér einhver hreyfing á ferðinni í röðum þeirra sjálfstæðismanna. En hitt dettur mér vitanlega ekki í hug, að þó að sett verði upp slík ráðgjafarnefnd, sem fjallað er um í þessu frv., fái hún nokkru áorkað í því skipulagi, sem við búum við annars varðandi þennan atvinnuveg.

Við höfum vitanlega ótal dæmi um það, að hin ýmsu samtök sjávarútvegsmanna á undanförnum árum hafa verið að gera till. um framkvæmdir í sjávarútvegsmálum og verið að benda þar á ýmislegt, sem afvega hefur farið, en þeir hafa ekki tekið það ýkjanærri sér, þeir sem raunverulega hafa ráðið yfir framkvæmdavaldinu, t.d. þeir aðilar, sem hafa haft ráðstöfunarvaldið yfir fjármagninu, þeir hafa ekki farið ýkjamikið eftir slíku. Þegar út í vandann er komið, hrökkva menn stundum við og bregðast þá að vísu við með nokkuð misjöfnum hætti, en þeir reyna þó að gera eitthvað, þegar menn standa nú frammi fyrir því, að togaraútgerð á Íslandi er að líða undir lok. Það er ekki nema tiltölulega stuttur tími, þangað til síðasti togarinn hlýtur að hverfa úr rekstri, ef svo fer fram sem fram hefur farið að undanförnu. Þegar menn standa frammi fyrir þessu, þá sjá vitanlega þeir, sem annars hafa verið á móti því að gera miklar áætlanir, að það þarf að skerast í leikinn af opinberri hálfu og gera ráðstafanir gegn þessari þróun. Og þegar það er einnig að gerast á sama tíma, að menn sjá, að það er að fara svipað fyrir hinum smærri fiskibátum í landinu, bátunum, sem fiskiðnaður landsmanna hefur byggt hvað mest sinn rekstur á, þegar menn sjá, að það er að fara nokkuð svipað fyrir þessum bátaflota eins og fyrir togurunum, þessi floti er að eyðast, eru menn tilbúnir að koma saman á fund og ræða málin.

Það er nákvæmlega það sama að segja viðvíkjandi hinum þýðingarmiklu markaðsmálum sjávarútvegsins. Nú er a.m.k. lagt til að skipa þetta fjölmenna fiskimálaráð til þess að ræða um ástandið í markaðsmálunum og um það, hvað væri æskilegast að gera í þeim efnum. En hefur það ekki verið allt fram til þessa yfirlýst stefna Sjálfstfl., að þar ætti að gilda hið fullkomna frjálsræði athafnamannanna, þar skyldu engar hömlur og engin yfirstjórn vera, og að það ætti að sveigja okkar markaðsmál sem allra mest undir hin frjálsu lögmál viðskiptalífsins, einkum og sérstaklega í Vestur-Evrópu? Ég veit ekki annað betur en að núv. ríkisstj. hafi verið að hæla sér fyrir það nokkrum sinnum á hverju ári á undanförnum árum, að hún hafi verið að þoka okkar erlendu viðskiptamálum í það horf, að þar ríkti sem allra mest frjálsræði, og að hún hafi verið að losa okkur undan þeim vanda að eiga allmikið af okkar fiskmörkuðum t.d. í AusturEvrópu. Í sambandi við markaði þá, sem við höfum unnið okkur upp fyrir íslenzkar sjávarafurðir m.a. í Austur-Evrópu, höfðu þeir markaðir verið unnir upp þannig, að þeir höfðu reynzt okkur mjög traustir og sífellt vaxandi, á meðan við lögðum einhverja rækt við þá. Við sömdum við flestar þessar þjóðir um viðskipti til þriggja og upp í fimm ár í einu og vissum því alveg, að hverju við gengum í öllum meginatriðum. En það var talið alveg nauðsynlegt og stefnumál núv. ríkisstj. að breyta til í þessum efnum og hverfa sem mest frá samningum á þessum grundvelli varðandi okkar markaðsmál og færa viðskiptin sem allra mest m.a. til frjálsu viðskiptalandanna í Vestur-Evrópu. Og hver hefur svo orðið reynslan? Allir, sem eitthvað hafa fylgzt með þessum málum, vita, að afleiðingin hefur orðið sú, að nú ríkir meiri óvissa í okkar markaðsmálum en gert hefur um langan tíma. Jú, það hefur t.d. tekizt með þessari stefnu að losa okkur nokkurn veginn að fullu við markað á hraðfrystum fiski í Tékkóslóvakíu, þar sem við vorum búnir að vinna okkur upp markað, sem var á milli 7 og 8 þús. tonn af flökum á hverju ári og gaf okkur langhæsta verð, sem við fengum fyrir útfluttan hraðfrystan fisk nokkurs staðar í heiminum. Nú er svo komið, að við erum búnir að tapa þessum markaði svo til að fullu. Í staðinn hurfum við að því að reyna eftir frjálsa skipulaginu með sölu á okkar sjávarafurðum að taka þátt í brezka markaðinum. En hver hefur reynslan orðið? Reynslan hefur orðið m.a. sú, að við höfum orðið að flýja þaðan aftur að mestu, vegna þess að hann borgaði lakar en allir aðrir markaðir og hann var svo ótryggur, hann sveiflaðist þannig frá ári til árs, að við treystum okkur ekki að búa við hann.

Það er rétt, að þeir hv. þm., sem standa nú að þessu frv. og tala nú um að setja upp heilmikið ráð til að ræða um stefnu í markaðsmálum, geri sér grein fyrir því, að sú stefna, sem þeir hafa stutt á undanförnum árum í markaðsmálum okkar, hefur leitt þessi vandræði yfir okkur.

Stefna ríkisstj. varðandi þessi mál hefur verið sú, og í rauninni ekkert dregið það undan, að innflutningsverzlunin hefur verið látin ganga fyrir, hún hefur orðið að fá þann gjaldeyri, sem hún hefur óskað eftir, hún hefur mátt kaupa vörur til landsins, þar sem hún hefur viljað kaupa þær, og útflutningurinn hefur svo orðið að dansa eftir þessu og orðið að reyna að selja inn á þá markaði, sem veittu þann gjaldeyri, sem innflutningurinn heimtaði til sín. Þetta hefur vitanlega orðið talsvert aukaálag á útflutninginn.

Það er út af fyrir sig gott, þegar þetta margir þm. úr liði Sjálfstf1. koma nú auga á það, að sú stefna, sem var mörkuð m.a. af viðreisnarpólitíkinni í þessum efnum, fær ekki staðizt, það þurfi að setja einhvern klúbb til að ræða um það, hvað skuli koma í staðinn. En það er ekki ráð af þeirri tegund, sem fjallað er um í þessu frv., sem okkur liggur nú fyrst og fremst á að fá. Við þurfum að fá varðandi þessi mál upp tekna nýja stefnu, sem miðar við það, að það séu gerðar áætlanir um vöxt og viðgang sjávarútvegsins og það séu jafnhliða gerðar ráðstafanir til þess, að framkvæmdaaflið sé fyrir hendi til að sjá um það, að áætlanirnar verði framkvæmdar, eða í stuttu máli: við þurfum að yfirgefa happa- og glappastefnuna, sem hefur verið ríkjandi í þessum málum að undanförnu, og taka hér upp nýja stefnu, sem miðast fyrst og fremst við heildarskipulag, þar sem við ætlum að reyna að hafa yfirstjórn á þessum málum.

1. flm. þessa frv. flutti hér á margan hátt fróðlega ræðu um sjávarútvegsmál og vék þar að ýmsu, sem hefði verið full ástæða til að víkja að, en það skal ég ekki fara langt út í að ræða nú. Flest af því, sem hann sagði hér um almennar upplýsingar, var að mínum dómi rétt í öllum aðalatriðum, en nokkur atriði voru það þó, sem ég tel að hafi verið ýmist á misskilningi byggð eða að hans mat á þeim sé rangt. Það er einkum eitt atriði, sem mig langar að víkja að, vegna þess að það er svo algengt, að menn endurtaki það, og það kannske að vonum, miðað víð þær upplýsingar, sem menn ganga þar út frá.

Eitt af því, sem hv. þm. sagði, þegar hann ræddi um stöðuna í sjávarútvegsmálum, var varðandi minnkandi aflamagn á undanförnum árum hjá okkur á þorskveiðum og skyldum veiðum, og sérstaklega þær tölur, sem hann nefndi varðandi stóraukna sókn á fiskstofnana hér við landið, sem hefði verið að undanförnu, á sama tíma sem aflamagnið hefði minnkað. Ég veit, að hv. þm. styðst í þessum efnum við tölur er komu frá forstöðumanni fiskideildarinnar fyrir nokkru, sem voru ályktanir hans dregnar út af skýrslu, sem gerð var um fiskveiðar á Íslandsmiðum á árunum 1960—1964. En þar dró einmitt forstöðumaður fiskideildarinnar þessar ályktanir, sem ég fyrir mitt leyti og fleiri, sem hafa reynt að kynna sér þessi mál, telja, að séu alveg fráleitlega vitlausar. En í aðalatriðum er þetta mál þannig, að því er haldið fram, að skv. þessari skýrslu, miðað við aflamagnið á Íslandsmiðum á árunum 1960—1964, hafi sókn Englendinga á fiskimiðin við Ísland stóraukizt, nærri tvöfaldazt, en hins vegar sýni löndunarskýrslur brezkra togara, að afli þeirra á þessu tímabili hefur farið minnkandi. Nú kom þetta mér og ýmsum fleiri mjög spánskt fyrir sjónir, þegar því var haldið fram, að sókn Breta á Íslandsmið á þessu tímabili hefði meira en tvöfaldazt, og ég fann það fljótlega, að þeir fiskiskipstjórar, sem ég ræddi við, þverneituðu því, að nokkuð slíkt hefði getað átt sér stað. Enda lá það fyrir opinberlega frá Breta hálfu, að sérstaklega á árinu 1960 og reyndar einnig framan af 1961 var sókn þeirra miklu minni á Íslandsmið en hafði áður verið. En nú komu sem sagt skýrslur, sem héldu því fram, að sókn þeirra á fiskstofnana við Ísland hefði á þessu tímabili stóraukizt, en aflinn gengið nokkuð niður. Og þegar farið var að kanna það nánar, hvernig í þessu lægi, kom í Ijós, að öll þessi aukna sókn Breta var byggð á því, að skip þeirra höfðu stækkað, einvörðungu þannig, m.ö.o. að í staðinn fyrir 350—400 tonna skip voru nú komin 600—800 tonna skip, og það var talið, að sóknareiningarnar væru orðnar helmingi fleiri en þær voru áður. Nú er þetta út af fyrir sig alveg fráleitt, þegar þess er gætt, að stækkun skipanna var í þessum efnum að mjög verulegu leyti vegna aðbúðar fólks og annars slíks og gat vitanlega engan veginn komið fram í afkastagetu til fulls. Og einnig var það upplýst, að ekkert tillit var tekið til þess, að í fyrra viðmiðunartilvikinu höfðu brezku togararnir stundað sínar veiðar innan 12 mílnanna við Ísland eða upp að 4 mílum, eins og leyfilegt var þá, og því yfirleitt togað á miklu grynnra vatni en í síðara tilfellinu, og nokkurn veginn vitað, að aflamagnið hlaut að fara niður, þegar þeir misstu af þessum miðum, sem þeir voru reknir út af. En hér var ekkert tillit tekið til þess, en aðeins sagt: Sóknaraukning hefur orðið stórkostleg, en aflinn hefur gengið niður. — Þar með er dregin sú ályktun, að afli miðað við sóknareiningu hafi farið stórkostlega minnkandi á Íslandsmiðum. En látum nú þetta vera út af fyrir sig, svo rangt sem það er að mínum dómi. En þá kom næsta spurning, og hún var: En hvernig er þá sóknaraukning Íslendinga á þessu tímabili í fiskstofninn fundin ? Þegar menn halda því fram, að á undanförnum árum hafi verið um sóknaraukningu upp á 87% að ræða af hálfu Íslendinga í þennan stofn, hvernig er sú tala fundin, og um aflamagnið á sóknareiningu af hálfu Íslendinga ? Þá gera menn sér lítið fyrir og taka enska dæmið, sem svona var uppbyggt, eins og ég sagði, og segja: Þar sem Englendingar þurftu helmingi fleiri sóknareiningar til þess að fá þetta aflamagn, sem var dálítið minna en það hafði verið áður, hafa Íslendingar, sem hafa minnkað líka sitt aflamagn dálítið í tonnatali, þá hafa þeir líka aukið sína sóknareiningu í sama hlutfalli, við gátum ekki miðað við neitt annað. — M.ö.o. á að segja okkur þá fjarstæðu, að á þessu tímabili, þegar floti okkar var að sveigjast stórkostlega yfir til annarra veiða og jafnvel kraftmesti fiskiskipafloti okkar úr þorskveiðunum var að hverfa af þorskveiðum og leita á aðrar veíðar, hafi verið um stórkostlega sóknaraukningu að ræða hjá okkur Íslendingum.

Ég vildi aðeins skjóta þessu inn í til þess að benda á, að menn séu ekki að endurtaka í sífellu þessar tölur sem sönnunargagn um það, að hér hafi verið um að ræða á undanförnum árum verulega aflarýrnun miðað við sóknareiningu, þegar engir slíkir útreikningar liggja fyrir á þeim grundvelli, að hægt sé við þá að styðjast. En minnkandi afli okkar á þorskveiðum og skyldum veiðum á undanförnum árum hefur skiljanlega átt sér stað, eins og skýrslur sýna, vegna þess að við höfum notað meira og meira af okkar fiskiskipastól til annarra veiða, og svo hefur það einnig gengið yfir á þessum sama tíma, að verulegur hluti af okkar fiskiskipastól, eins og togararnir, hefur orðið afkastaminni en þeir voru áður. En þetta var nú aðeins innskot út af þessu atriði, sem hér kom fram.

Mig langar svo aðeins í leiðinni að skjóta því hér inn í sambandi við þær upplýsingar, sem komu fram líka í ræðu 1. flm. þessa frv. og koma fram í grg. frv., að það er út af fyrir sig, miðað við það, sem sagt hefur verið að undanförnu, m.a. hér á Alþ., um þróunina í síldariðnaði okkar, býsna athyglisvert fyrir þm. að sjá, þegar skýrslur liggja hér fyrir um það, að þegar talin eru saman afköstin í síldarverksmiðjum í landinu, á Norðurlandi, Suðurlandi og Austurlandi, þá eru afköstin minnst á Austurlandi, þar sem aðalaflamagnið er þó unnið. Hér á Alþ. hefur það ekki verið ótítt, að menn hafa talið, að það skipti meira máli en flest annað að koma í veg fyrir byggingu síldarverksmiðja á Austurlandi, en minna hefur verið talað um það, þó að margar síldarverksmiðjur hafi á undanförnum árum verið byggðar hér suðvestanlands, en það er annað og aukaatriði í þessu.

Ég skal svo ekki ræða frekar um þetta mál hér að sinni. Ég læt aðeins í ljós þá skoðun mína, að það þurfi að taka á þessum miklu vandamálum, sem þetta frv. fjallar um, á allt annan hátt er gert er í þessu frv. En út af fyrir sig fagna ég þeirri stefnubreyt., sem ég þykist verða var víð, að komi fram með flutningi þessa frv. hjá þeim sjálfstæðismönnum, sem að því standa, því að það er ekkert um það að villast, að hér er á óbeinan hátt um að ræða vantraustsyfirlýsingu á þá stefnu, sem þeir hafa haldið uppi í sjávarútvegsmálum og atvinnumálum okkar á undanförnum árum.