23.11.1966
Sameinað þing: 11. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í D-deild Alþingistíðinda. (2314)

24. mál, endurnýjun strandferðaskipaflotans og skipulagning strandferða

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Þar sem hæstv. sjútvmrh. er ekki hér viðstaddur, finnst mér rétt að segja hér nokkur orð um þessa till. og þá ræðu, sem hér var flutt áðan, enda snertir þetta mál einmitt að vissu leyti mitt ráðuneyti, því að það hefur fallið í þess hlut að greiða þann geysilega halla, sem hefur orðið á Skipaútgerð ríkisins, og í sameiningu hlutuðust þessi tvö ráðuneyti til um það, að settir voru tveir meðráðamenn með forstjóra útgerðarinnar á s.l. ári til þess að íhuga úrræði til að koma þessum málum á heilbrigðari grundvöll en verið hefur að undanförnu og draga úr hinum stórkostlega halla, sem hefur verið á rekstri Skipaútgerðarinnar, en á þann hátt, eins og hæstv. sjútvmrh. lýsti hér yfir í fyrra, að stefnt væri að því, að Skipaútgerðin eða strandferðirnar gætu áfram veitt viðunandi þjónustu fyrir landsmenn víðsvegar um landið. Það hefur því verið stefnan í þessu máli, sem hv. 1. flm. þessarar till. einnig vék að í sínu máli, að reyna að reka þessa starfsemi með sem mestri hagsýni og eyða ekki í hana meira af fé þjóðfélagsborgaranna en brýn nauðsyn krefði og hins vegar að tryggja, að þessi þjónusta gæti orðið með viðhlítandi hætti.

Hv. þm. sagði, að í þessu efni hefði verið sýnt dæmalaust fyrirhyggjuleysi og stefnuleysi og það væri í rauninni örþrifaráð að flytja þá till., sem hér er flutt, til þess að reyna að kippa þessu í lag. Hann hafði miklar áhyggjur af því, hvað þessi till. hefði þvælzt hér lengi í þingi, og kynnu að verða einhver óhöpp, ef ekki væri hægt að gera sérstakar ráðstafanir til að koma þessari n. á laggirnar. Sannast sagna skil ég ekki, að jafnglöggur maður og hv. þm. skuli ekki hafa gert sér betri grein fyrir eðli þessa máls og því, sem í því hefur gerzt, en svo, að hann haldi þessu hér fram. Till. hans hefur vitanlega ekki nokkur áhrif á, hvað gerist í þau máli. Og það hafa verið gerðar alveg ákveðnar ráðstafanir til að marka stefnuna í málinu. Af hálfu ríkisstj. hefur verið starfandi nefnd til þess að gera till. um framtíð Skipaútgerðar ríkisina, og tillagna þessarar nefndar er að vænta nú alveg á næstunni, og raunar hefur hún þegar lokið störfum. Í sambandi við fjárlagafrv., þegar það var lagt fyrir Alþingi, var jafnframt mörkuð slík stefna í málinu, enda þótt till. millilm. lægi þá ekki endanlega fyrir, en þar er beinlínis heimilað að verja andvirði hinna seldu skipa Skipaútgerðarinnar og að taka lán eða leggja fram viðbótarfé úr ríkissjóði til þess að endurnýja annars vegar skipakost útgerðarinnar og hins vegar að bæta aðstöðu hennar við Reykjavíkurhöfn, sem er hin bágbornasta og m.a. kemur fram í því, að hallinn á vöruafgreiðslu félagsins hér skuli vera um 7 millj. kr., sem sýnir, hvað það er bágborin skipulagning á þessu. Og það er sannarlega ekkert nýtt mál. Það er gamalt vandamál, áratugagamalt. Skal ég ekki út í það frekar fara, þó að freistandi væri hér að ræða skipulagsmál Skipaútgerðarinnar í þessu sambandi.

Það var því þegar áður en till. hv. þm. og meðreiðaraveina hans var flutt ákveðið af hálfu ríkisstj. að undirbúa vissar aðgerðir í þessu efni og þær aðgerðir, sem hefur komið í ljós að eru í nánu samræmi við þær hugmyndir, sem uppi eru hjá þeim mönnum, sem hafa endurskoðað þessi mál, að nauðsynlegt sé að endurnýja alveg skipakost útgerðarinnar og taka til nota skip, sem eru á allt annan veg en þau skip, sem notuð hafa verið. Það er því engin ástæða til að halda, að neitt frekar gerist í þessu efni, hvað sem verður um till. þá, sem hv. þm. hér mælti fyrir, vegna þess að allt þetta mái er í fullum gangi og með eðlilegum hraða og á þann veg, að einmitt er hugsað fyrir því tvennu, að það verði auðið að veita viðhlítandi þjónustu og jafnframt að kostnaðinum við hana verði haldið innan hóflegra marka.

Varðandi þá sölu skipa, sem hefur átt sér stað, á það ekki að þurfa að hafa nein úrslitaáhrif á að skapa vanda í þessum efnum þann tíma, sem kann að líða, áður en hægt er að endurnýja þennan skipakost. Hv. þm. gat um, að það hefði þegar verið leigt eitt skip, sem að mörgu leyti er hagkvæmt. Það er rétt, að það hentar ekki fyrir allar smáhafnir, en það er mun hagkvæmara í rekstri en bæði Esja og Hekla, þannig að miklu munar. áhappið með Herðubreið varð að sjálfsögðu ekki séð fyrir, og það hefur hingað til ekki verið neinn varaskipakostur til reiðu, þó að einhver slík óhöpp hafi orðið. En það er auðvitað opið mál að leigja skip um stundarsakir til þess að koma í skörðin, ef eitthvert slíkt vandamál skapast tímabundið, og einmitt um það hefur verið hugsað. Og það er ljóst, að það er miklum mun hagkvæmara en að starfrækja þessi skip, eins og gert hefur verið.

Esja og Hekla eru skip, sem er algerlega útilokað að starfrækja lengur. Kostnaðurinn við útgerð þeirra skipa og allt skipulag þeirra, mannahald og annað er með þeim hætti, að það er óviðunandi að starfrækja þessi skip, og þarf því að endurnýja þau. Ástæðan til þess, að Hekla var fremur seld en Esja, er vitanlega sú, að það er miklum efa bundið, að það sé nokkur leið að selja Esju, vegna þess, hve gömul hún er orðin, og það sé því í rauninni betra að láta hana ganga sér til húðar heldur en að missa það tækifæri, sem bauðst til að selja Heklu á mjög skaplegu verði, miðað við það verð, sem er á gömlum skipum.

Með því, sem þegar hefur verið gert í þeim efnum, hefur skipaútgerðarþjónustan ekki verið neitt rýrð. Hins vegar liggur það ljóst fyrir, að hún er nú þegar orðin með miklu hagkvæmari hætti en áður var, þannig að það eru miklar líkur til, að hallinn á henni lækki mjög verulega, og tel ég það mikinn ávinning.

Við vitum allir, að aðstaða Skipaútgerðarinnar hefur breytzt geysilega mikið á síðustu árum. Hinar bættu samgöngur á landi og í lofti hafa valdið því, að Skipaútgerðin hefur búið við sífellt lakari rekstraraðstöðu, og á hana eru vissulega lagðar miklar kvaðir, sem er eðlilegt að hafi sinn kostnað í för með sér. En það er líka nauðsynlegt að endurskoða þessar kvaðir, því að þótt það sé brýn nauðsyn að halda uppi sem fullkomnastri þjónustu, eru því auðvitað takmörk sett, hvað er hægt að halda uppi skipakosti fyrir einstaka staði, þar sem kemur í ljós við rannsókn, að er í rauninni ekki um nokkurn flutning að ræða, þannig að það má telja farþegana á fingrum sér, jafnvel yfir árið, og flutningar eru sáralitlir eða næstum engir. Þetta vitanlega verður að athuga með hliðsjón af breyttum aðstæðum.

Það er sama vandamálið, sem við stöndum andspænis með flóabátans. Þetta allt saman þarf að athuga í samhengi. Bættar samgöngur hafa valdið því, að notkun þeirra fer síminnkandi, þannig að suma mánuðina hafa sumir þeirra ekki nokkurt verkefni. Bilflutningar með vörur hafa vaxið stórlega, ekki aðeins að sumarlagi, heldur meginhluta vetrar eða allan tímann, sem bílfært er, og sömuleiðis er, eins og mönnum er kunnugt, mjög vaxandi skipakostur annarra skipafélaga, sem ganga á hafnir víðs vegar um landið, og allt þetta hefur leitt til þess, að starfsskilyrði Skipaútgerðarinnar hafa stórum minnkað.

Ég held, að það geti ekki talizt nein goðgá og það sé ekki sæmandi að blása það upp sem eitthvert fjandskaparmál við strjálbýlið, þó að ríkisstj. hlutist til um að endurskoða þennan rekstur og reyna að koma honum í hagkvæmara horf. Og í sambandi við það finnst mér það ekki sérstaklega stórmannlegt að reyna að efna til ástæðulausra æsinga í því efni. Stefnan er sú að halda uppi viðhlítandi þjónustu við landsbyggðina með sem hagkvæmustum hætti, og þeirri stefnu verður fylgt í þeirri uppbyggingu Skipaútgerðarinnar, sem væntanleg er. Menn hafa ekki talið það mögulegt, þó að þær raddir hafi stundum heyrzt frá forstjóra Skipaútgerðarinnar, sem ég er ekkert að lasta, að Skipaútgerðinni væri beinlínis veittur einkaréttur á flutningum. Þetta hafa menn ekki treyst sér til að gera, og ég býst ekki við, að það séu ýkjamargir talsmenn raunverulega fyrir því. En ef á að láta þróunina ganga eins og hún hefur gert, með síminnkandi flutningum, sífækkandi farþegum, þó að það að vísu hafi verið alveg sérstakt mál, sem gerðist á þessu ári, sem hv. þm. vék að, þá held ég, að það sé ekki annað en raunveruleg skylda ríkisstj. að stokka spilin upp og gera sér grein fyrir, hvort ekki er hægt að leysa þetta viðfangsefni með happasælla hætti.

n., sem hér er lagt til að skipa, hefur sem sagt ekki nokkur áhrif í þá átt. Það hefur þegar verið hafizt handa — og ekki aðeins hafizt handa, heldur er nú þegar lokið till. um framtíðarskipan Skipaútgerðarinnar, sem væntanlega verða lagðar fyrir Alþingi nú innan skamms, og í annan stað hefur þegar verið hafizt handa, eins og hv. 1. flm. till. vék að, um það að undirbúa smíði nýrra skipa, og á meðan millibilsástand kann að vera í því efni, er það áreiðanlega engum vandkvæðum bundið að leysa tímabundna erfiðleika, sem kunna að rísa upp vegna þess, að við sérstök samgönguvandamál verður að stríða um einhvern tíma. Það hefur stjórnarnefnd Skipaútgerðarinnar fullkomlega haft í huga og miðar sínar till. við, að þeim vanda verði hægt að mæta með viðhlítandi hætti.