08.03.1967
Sameinað þing: 28. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 373 í D-deild Alþingistíðinda. (2469)

71. mál, skipan heilbrigðismála

Flm. (Alfreð Gíslason):

Herra forseti. Á þskj. 83 flyt ég till., er svo hljóðar:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að láta rannsaka frá grunni meðferð heilbrigðismála í landinu og endurskoða gildandi lagaákvæði um stjórn þeirra. Sérstaklega verði kannað, hvort ekki sé hagkvæmt að koma á fót sérstöku heilbrigðismálaráðuneyti, endurskipuleggja landlæknisembættið og sameina þætti heilbrigðisþjónustunnar undir eina yfirstjórn. Athugun þessari skal hraðað. Að henni lokinni skal álitsgerð og till. lagðar fyrir Alþingi.“

Í grg., er fylgir þessari till., er þeirri skoðun haldið fram, að hið mesta öngþveiti ríki raunverulega í allri meðferð heilbrigðismála í landinu og yfirstjórn þessara mála sé í raun og veru engin til. Ég get ýmissa atriða í grg. til stuðnings þessari skoðun og skal ekki endurtaka margt af því, sem þar er sagt. Hins vegar vil ég drepa á örfá atriði, er sýna mætavel að mínum dómi, hvernig ástandíð er í þeim efnum, og ég hygg, að segja megi, að þannig sé ástandið í öllum efnum á sviði heilbrigðismálanna

Að sjálfsögðu má marka stöðu heilbrigðismála af mörgu. Eitt af því er löggjöf landsins. Hún sýnir nokkuð vel, að ég hygg, hverja rækt hinir vísu feður, löggjafarnir, leggja við þessi mál. En eftir höfðinu dansa limirnir. Nú er það til, að góð lög séu illa framkvæmd. Það þekkjum við og er alls ekki óalgengt. En hitt ber víst nokkuð sjaldan við, að léleg löggjöf skili góðum árangri. Íslenzka löggjöfin um heilbrigðismál er ekki mikil að vöxtum, en sá sem rennir augum yfir hana, hlýtur að staldra við víða í lestrinum, því að margt er þar harla furðulegt. Ég skal drepa á örfá atriði. Það er þá fyrst, að flest lögin eru áratugagömul, og það eitt út af fyrir sig er athyglisvert á tímaskeiði mikilla og skjótra breytinga á sviði heilbrigðismála. Ýmsir sjúkdómar, sem áður voru mannskæðir, eru nú horfnir með öllu úr landinu eða orðnir meinlitlir. En aðrir sjúkdómar halda velli eða færast jafnvel í aukana. En löggjöfin okkar er ekki að fást um slíka smámuni. Þannig eru nú í gildi hvorki meira né minna en þrenn lög um sjúkdóm, sem löngu er horfinn, en um einn alvarlegasta sjúkdóm nútímans, geðveikina, eigum við alls enga löggjöf, og er hennar þó knýjandi þörf

Það skal viðurkennt, að farsóttir eru hinn mesti vágestur, enda eru til um þær tvenn lög. Ég er ekki að finna að því, en hitt finnst mér öllu lakara, að nokkur mikilvægustu ákvæði þeirra stangast algerlega á og gæti af hlotizt tjón, ef til alvörunnar kæmi. Um sanngildi þessara orða minna geta menn sannfært sig með því að lesa og bera saman farsóttalög og sóttvarnalög. Hið daglega heilbrigðiseftirlit í landinu er að sjálfsögðu mjög stórt hlutverk og brýnt. Um það gilda lög, sem að meginstofni til eru um 30 ára gömul og löngu orðin á eftir tímanum. Auk þess hafa þessi lög þann ágalla, sem frá upphafi hefur torveldað farsæla framkvæmd þeirra. Á þetta hafa kunnugir menn margsinnis bent opinberlega, og skal ég því ekki fara nánar út í það nú. Síðast var það gert af einum fulltrúa borgarlæknisins í Reykjavík. Það er þessum lögum að kenna, að um reglubundið heilbrigðiseftirlit er ekki að ræða í fjölmörgum byggðarlögum landsins.

Þá eru til lög, sem mismuna borgurum landsins á herfilegasta hátt, og hef ég þá sérstaklega í huga lög um ríkisframfærslu sjúkra manna og örkumla. Í þeim er sjúklingum gert mishátt undir höfði eftir heiti þess sjúkdóms, sem örkumlun veldur, og einnig eftir því, hvort þeir neyðast til dvalar á þessu hælinu eða hinu. Þyngst bitnar þetta ranglæti á sjúkum gamalmennum og er eitt dæmi af mörgum um meðferðina á þeim. Sjúkrahúsalögin hafa það sér til ágætis, að þau eru ný af nálinni. Í þeim er því slegið föstu, að á Íslandi beri engum skylda til að reisa og reka sjúkrahús, og finnst ýmsum það harla merkilegt og það merkilegasta við þessi lög. Leyfi má að vísu veita að uppfylltum vissum skilyrðum, en um skyldu nokkurs aðila er ekki að ræða. Þá má benda á, að í heilbrigðismálalöggjöfinni úir og grúir af ákvæðum, sem aldrei eru framkvæmd. Sum eru að vísu úrelt og ómerkileg, og er þá bættur skaðinn, en um hirðuleysi vitna þau samt sem áður. Önnur eru mikilvæg í heilbrigðislegu tilliti og mannúðarlegu, og eru mér þar efst í huga ýmis þörf ákvæði, er snerta velferð fávita og aldrei hafa verið framkvæmd, svo og ákvæði um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra.

Þannig er fjöldi lagaákvæða á þessu sviði sniðgenginn með öllu. Önnur lög eru að vísu framkvæmd, en svo gamaldags orðin, að helzt minnir á 18. öldina. Þar til nefni ég ákvæði um, að lögreglustjórar skuli stjórna eftirliti með hollustuháttum, að þeir hafi vald til að hindra embættislækni í farsóttarvörn og tollstjóri og bæjarfógetar skuli fara með framkvæmdastjórn sóttvarna. Í þessum tilvikum skipa héraðslæknarnir í hvívetna hinn óæðri sess, og þó bera þeir alla ábyrgðina. Það mun vera fágætt, að heil lög um heilbrigðismál komi ekki til framkvæmda, en þó er dæmi þess og get ég þar nefnt lög um manneldisráð frá 1945.

Ég skal láta þetta nægja um löggjöfina og er þó freistandi að ræða hana nánar. Ég lít á löggjöfina sem spegilmynd þess ástands, sem ríkir í heild á sviði heilbrigðismálanna. Löggjöfin er sem gamalt, slitið og götótt fat, bætt á stöku stað og af handahófi. Þannig staðfestir löggjöfin fyrir sitt leyti þá kenningu, að yfirsýn og heildarstefna sé engin til á sviði heilbrigðismálanna.

Þá vil ég fara örfáum orðum um landlæknisembættið. Landlæknir er ráðunautur ráðh. um allt það, er varðar heilbrigðismál, og annast framkvæmd þeirra mála fyrir hönd ráðh. samkv. lögum, venjum og reglum, sem þar um gilda. Þannig segir í lögum um verksvið landlæknis: Hann er ráðgjafi og hann er framkvæmdastjóri og getur því bæði haft frumkvæði að nýmælum og fylgt eftir því, sem gera skal. Þetta lítur ekki ólaglega út á pappírnum, en veruleikinn er bara allur annar og miklu lakari. Landlæknisembættið minnir mig einna helzt á eyðisker, leifar lands, er eitt sinn var og hét. Það stendur eitt sér og einangrað án tengsla við umheiminn. Ástæðan til niðurlægingar þessa embættis er fyrst og fremst sú að mínum dómi, að ráðh. hefur aldrei haft áhuga á heilbrigðismálum. Þau hafa verið honum framandi og því ógeðfelld, og með þeim hætti hefur hann ætíð reynzt dragbítur á þessu sviði. Viðleitni landlæknis er, þegar þannig er í pottinn búið, mætt með tómlæti og ráða hans sjaldan leitað. Ef ráðh. felur honum verkefni, er eins líklegt, að úrlausn hans verði að engu höfð. Ég minnist lagafrumv., er landlæknir samdi fyrir hæstv. ríkisstj., þá er nú situr. Í nokkur ár lá það og rykféll í dómsmrn., unz því var fleygt og annað frv. sama efnis, en mun lakara, lagt fyrir Alþ. Þetta er aðeins eitt dæmi af mýmörgum hliðstæðum.

Landlæknir hefur eftirlit með embættisfærslu lækna, safnar saman skýrslum og gefur þær út. Auk þess á hann sæti í ótal stjórnum og nefndum, og hljóta þau störf að taka mikinn tóma. Fleira mun honum á hendur falið, en þó sízt það, sem helzt skyldi, en það er áætlanagerð og önnur skipulagning heilbrigðismála ásamt forsögn um tilhögun þeirra og meðferð í stórum dráttum. Það er víst og áreiðanlegt, að landlæknisembættið hefur ekki fengið að þróast í samræmi við kröfur tímanna og því orðið utanveltu. Hver ágætismaðurinn af öðrum í þessu embætti fær ekki notið sín að því er virðist, og er engu líkara en á þá leggist farg, þegar í embættið er komið. Landslæknir er áhrifalítill, svo að furðu gegnir. Það getur tæpast svo lítinn karl í dóms- og kirkjumrn., að hann megi sín ekki meira til neikvæðra hluta á sviði heilbrigðismála en landlæknir til jákvæðra. Skipan embættisins er löngu úrelt. Guðmundur Hannesson, síðar prófessor, benti þegar á það 1903 og lagði þá til, að skipað væri fast læknaráð, sem í ættu sæti auk landlæknis tveir Reykjavíkurlæknar og tveir sveitalæknar. Síðan eru liðin 64 ár og sams konar gagnrýni oft verið uppi höfð, en árangur enginn til þessa dags. Ástæðan er áreiðanlega ekki þarfleysi breytingar, heldur er hér eingöngu um skeytingarleysi að ræða, sinnuleysi um mikilvægt vandamál. Ég lít svo á, að staða landlæknis sé talandi tákn um þá óreiðu, sem ríkir hvarvetna á sviði þessara mála.

Sjúkrahúsmálin eru að sjálfsögðu snar þáttur í heilbrigðisþjónustunni og því girnileg til fróðleiks, þegar dæma skal um ástandið. Þeim málum eru flestir meira eða minna kunnugir, og því get ég þar stiklað á stóru. Skortur sjúkrahúsa er hér tilfinnanlegur og hefur háð mjög allri læknisþjónustu frá upphafi vega. Er víst um það, að margur maðurinn hefur misst lífið fyrir þennan skort. Engum aðila í landinu ber skylda til að reisa sjúkrahús, og engar athuganir eða áætlanir eru gerðar um þarfir landsmanna í þessu efni. En skorturinn blasir hvarvetna við. Það vantar hæli handa geðveiku fólki og fávitum, og spítaladeildir handa langlegusjúklingum eru tæpast til. Í sjúkrahúsunum eru möguleikar mjög takmarkaðir til þess að veita slösuðum viðeigandi hjálp og aðstaða til endurhæfingar fatlaðra engin. Fjöldi sérgreina á ýmist hvergi inni í spítölum eða býr þar við mjög frumstæð kjör, og nefni ég sem dæmi augnasjúkdóma, eyrnasjúkdóma, húðsjúkdóma og kvensjúkdóma. Bygging sjúkrahúsanna í Reykjavík á síðari árum hefur mörgum orðið umhugsunar- og umtalsefni og það að vonum. Á því máli eru ýmsar hliðar, en allt sýnir það eins og í stækkunargleri handahófið og óreiðuna, sem allsráðandi er. Fyrirhyggja er engin né skipulag og fjármunum varið eins og verkast vill.

Ég skal í þetta sinn í sambandi við þetta mál rétt minnast á eina hlið þess, af því að hennar hefur hvergi verið getið áður. Hér á landi er ekki til sjúkrahús, sem nálgast það að vera 1. flokks á mælikvarða t.d. frændþjóða okkar. Það er í sjálfu sér mjög slæmt, en verra er þó hitt, að við eigum þess engan kost, við munum engan kost eiga þess að eignast slíkan spítala í fyrirsjáanlegri framtíð, og verst af öllu er, að þetta skuli vera sjálfskaparvíti. Fyrsta flokks sjúkrahús verður að hafa vissa lágmarksstærð og fjölþætta deildaskiptingu með náinni innbyrðis samvinnu. Það er og skilyrði, að byggðin, sem sjúkrahúsið þjónar, sé nægilega fjölmenn, og mega íbúarnir vart vera undir 200 þús. Einn spítali af þessari gerð nægir þannig öllu landinu. Fyrir 15—20 árum var þess kostur að reisa fullkomið sjúkrahús af þessu tagi. En um það var ekki hirt. Þess í stað var ráðizt í byggingu þriggja spítala, sem allir áttu að verða 1. flokks, en geta aldrei orðið það eðli málsins samkv. Í stað eins stórs spítala þeirrar tegundar, sem við þörfnumst, fáum við þrjá og hlutskipti þeirra verður óhjákvæmilega 3. eða 4. gæðaflokkur.

Við getum harmað mistök eins og þessi, en sökin er okkar sjálfra og engra annarra. Þau eru ásamt öðrum skyldum yfirsjónum afleiðing þess, að heildarstjórn sjúkrahúsmála er engin til og hefur aldrei verið. Það er einn ljóðurinn á ráði okkar, einn ljóðurinn af mörgum á ráði okkar í heilbrigðismálunum.

Um læknisþjónustuna innan sjúkrahúsa og utan hefur allmikið verið rætt og ritað að undanförnu. Löngum hafa læknar hér unnið við frumstæð skilyrði án þess að mögla. En nú fá þeir ekki lengur orða bundizt. Læknafélögin hafa tekið þessi vandamál til nákvæmrar athugunar og gert till. um úrbætur, en að jafnaði átt litlum skilningi yfirvalda að fagna. Fyrir tæpum 8 árum hugðust starfandi læknar í Reykjavík þannig knýja fram endurbætur á starfsskipan. Viðleitni þeirra var svarað með nauðungarlögum, er félmrh. setti í skyndingu að kröfu sjúkrasamlagsins. Vitanlega hafði þessi ráðh. enga raunrétta hugmynd um, hvað hann var að gera. Hann var aðeins leiksoppur þeirra stjórnleysisafla, sem heilbrigðismálin hrjá til þessa dags.

Nokkru betur vegnaði landsspítalalæknum, þegar þeir á s.l. ári háðu harða baráttu fyrir bættum starfskjörum og starfsaðstöðu. Einhverra hluta vegna treysti ríkisstj. sér ekki til nauðungarráðstafana í það sinn, en sárt sveið henni. Um það vitnað:i ræða hæstv. fjmrh. í haust sem leið.

Það er í rauninni alveg nýtt fyrirbæri, að læknar hér á landi gagnrýni hástöfum heilbrigðisstjórnina, en þetta hefur nú loksins gerzt. Einnig það segir sína sögu um ástandið. Það er stuggað við sofandi yfirvöldum, og í svefnrofunum láta þau illa. Ég vona samt; að viðbrögð þeirra séu aðeins svefnrof. Ég vona, að þau hætti fljótlega þeim gráa leik að gera læknastéttina tortryggilega og óvinsæla í augum almennings, því að það getur aldrei leitt til neins góðs fyrir þjóðina. Hitt yrði heilladrýgra, að ríkisstj. landsins vaknaði til fullrar meðvitundar um vandamálið og léti taka það til athugunar, en geymdi sér brigzlin þar til niðurstöður lægju fyrir.

Á s.l. hausti flutti einn af forustumönnum lækna ræðu um heilbrigðismál og komst m.a. svo að orði, að allt læknisþjónustu- og heilbrigðismálakerfi okkar væri í mikilli upplausn og hreint öngþveiti ríkti við lausn ýmissa aðkallandi vandamála. Svipuð eru ummæli annarra lækna, sem gerst þekkja til þessara mála. Á síðasta aðalfundi Læknafélags Íslands voru heilbrigðismál sérstakur liður á dagskránni. Þar var gerð einróma samþykkt um að fela félagsstjórninni að beita sér hið fyrsta fyrir því, að hafinn verði undirbúningur að heildarskipulagi heilbrigðismála í landinu. Ég þekki Læknafélagið og veit, að þegar það gerir slíka samþykkt, er það sízt að tilefnislausu. Sjálfsagt má sitt hvað að samtökum lækna finna, en um framhleypni verða þau ekki vænd.

Hvernig sem á þetta stóra mál er litið og þá frá hvaða hlið sem það er skoðað, blasir sama staðreynd við augum. Hún er þessi: Í heilbrigðismálum örlar hvergi á heildarstjórn, er hafi frumkvæði og forsögn um þarfir og geri samræmdar áætlanir um framkvæmdir.

Það er rétt að taka það fram, og raunar liggur það í hlutarins eðli, að engin ein ríkisstj. verður sökuð um allt, sem aflaga fer í stjórn heilbrigðismála. Áhugaleysið er þeim öllum sameiginlegt, og engin þeirra hefur getað komið auga á eða skilið vandamálið, sem þó vex jafnt og þétt. Þannig ber hæstv. ríkisstj., sú er nú situr, ábyrgðina aðeins að sínum hluta og mun í því tilliti almennt talað hvorki verri né betri en fyrri ríkisstj. Þó tel ég, að hæstv. ríkisstj. hafi nokkra sérstöðu, — sérstöðu, sem leggur henni á herðar aukna ábyrgð. Vandi heilbrigðismálanna hefur aldrei orðið meiri en hann er nú, og valdhöfum hefur aldrei verið jafnrækilega bent á þennan vanda sem nú. Sú stétt, sem bezt þekkir til mála, hefur risið upp, gagnrýnt og krafizt endurbóta. Fyrri ríkisstj. fengu að sofa á heilbrigðismálunum meira og minna í friði, en hæstv. núv. ríkisstj. fær ekki frið til þess. Þetta er sérstaða hennar, hvernig sem hún kann nú að bregðast við. Hún getur að sjálfsögðu tekið þann kost að berjast til þrautar fyrir óbreyttu ástandi eða valið þá leið að fylgja hollum ábendingum um nýskipan þjóðinni til gagns og sjálfri sér til vegsauka, Hún á tveggja kosta völ, en hvorn ætlar hún að taka? Ég verð að segja, þótt mér þyki það leitt, að byrjunin lofar því miður ekki góðu. Hæstv. ríkisstj. rís öndverð gegn læknastéttinni, þegar hún krefst aukinnar og endurbættrar heilbrigðisþjónustu. Hún úthrópar lækna meðal almennings, beitir þá þvingun með lagaboði og nærri tryllist, ef læknar fá einhverju framgengt, sbr. áðurnefnda ræðu hæstv. fjmrh. Slík hafa viðbrögð hæstv. ríkisstj. verið til þessa, og þó er ótalið síðasta afrekið, þegar hópur lækna var sviptur málfrelsi. Það gerðist hinn 2. marz 1967 fyrir tilverknað dóms-, kirkju- og heilbrmrh. landsins. Er atburðurinn að mínu áliti sannarlega þess verður, að þingsagan geymi hann.

Stjórnandi útvarpsþáttar, en nefnist Þjóðlíf, hafði gert sér ferð í Slysavarðstofuna í Reykjavík og átt þar til við þrjá lækna. Síðan hafði hann talað við tvo lækna Landsspítalans, en sjötti maðurinn í samtalsþættinum var fulltrúi í stjórnarráðinu, Gunnlaugur Þórðarson dr. juris. Þátturinn var hljóðritaður og skyldi fluttur í ríkisútvarpinu að kvöldi hins 2. marz, en það fór á aðra leið. Hæstv. dómsmrh. skarst í leikinn og fékk því til vegar komið, að meiri hl. útvarpsráðs lagði blátt bann við flutningi þáttarins. Ástæðan til þessa einkennilega uppátækis hæstv. ráðh. virðist vera röng hugmynd hans um viðræðuefnið, og er það von mín sannarlega, að annað verra hafi ekki legið að baki. Samkv. grg. hæstv. ráðh. í Morgunblaðinu 4. marz frétti hann á skotspónum, að ræða ætti í útvarpinu um kjaramál lækna. Og hann bætir við orðrétt: „Ég var strax þeirrar skoðunar, að kjaramál lækna væru viðkvæmari en svo, að þau ættu að ræðast í slíkum útvarpsþáttum.“ Hæstv. ráðh. tekur það m.ö.o. þegar gilt, sem hann fréttir á skotspónum. Óstaðfest lausafregn nægir honum til að varna mönnum máls á opinberum vettvangi. Ekki sýnist það bera vott um mikla virðingu fyrir málfrelsi né ást á lýðræðinu.

Nú er skemmst af því að segja, að kjaramál, þ.e.a.s. launamál, voru ekki á dagskrá þessa þáttar, nema hvað lögfræðidoktorinn, fulltrúinn úr stjórnarráðinu, spurðist fyrir um laun lækna og fékk þau svör, að launin væru nú viðunanleg. Ekkert annað um þau mál. Í gær, 7. marz, birtist í dagblöðunum yfirlýsing vegna stöðvunar þáttarins Þjóðlífs 2. marz, undirrituð af læknunum 5, þeim Árna Björnssyni, Frosta Sigurjónssyni, Helga Þ. Valdimarssyni, Snorra P. Snorrasyni og Sverri Bergmann, ásamt stjórnarráðsfulltrúanum, Gunnlaugi Þórðarsyni. Vil ég nú, með leyfi hæstv. forseta, lesa stutta kafla úr þessari yfirlýsingu til skýringar málstað læknanna, sem múlbundnir voru, svo og til stuðnings máli mínu í heild. Í þessari yfirlýsingu segir svo m.a.:

„Í þættinum lýstum við á hlutlausan hátt því ástandi, sem nú ríkir í heilbrigðismálum þjóðarinnar, hvaða hættum það býður heim, hversu áríðandi það er, að úr verði bætt tafarlaust, og með hverjum hætti það skuli gert. Við teljum okkur hafa nokkra raunsanna þekkingu á þessum málum, og ef staðreyndir þessara mála eru árásir á þá aðila, sem áður eru upp taldir, eru heilbrigðismál þjóðarinnar greinilega og því miður í enn alvarlegra ástandi en við höfðum þó haldið. Við lýstum viðhorfum ungra lækna. Okkur er legið á hálsi fyrir vanrækslu og vanþakklæti gagnvart eigin þjóð. Við lýstum á faglegan hátt og með áróðurslausum rökum þeim raunverulegu ástæðum, er til þess liggja, að ungir læknar fást ekki heim, vilja ekki fara út í héruð o.s.frv. Hér er ekki um óleysanlegt vandamál að ræða, og við bentum á lausn þess, sem byggist á aðstöðu lækna til að nýta þekkingu sína og fylgjast með hinum öru framförum á sviði læknisfræðinnar. Þetta varðar alla þjóðina og er hvorki harkaleg gagnrýni né árás. Andsvör yrðu væntanlega fá af hálfu leikmanna, enda óþörf og yrðu af vanþekkingu einni framsett. Við fórum vitanlega ekki dult með það, að einhver hlyti að vera ábyrgur fyrir því vandræðaástandi, sem skapazt hefur. Við viljum ekki líta svo á, að þjóðinni sé svo vanstjórnað, að enginn sé ábyrgur. Við viljum vekja athygli á því að allir þeir aðilar, sem við erum taldir gagnrýna svo harkalega, hafa haft aðstöðu til að koma sjónarmiðum sínum í þessum málum á framfæri á opinberum vettvangi og hafa gert það og hreint ekki hirt um, þó að enginn væri til andsvara af hálfu lækna. Læknar hafa svo sannarlega mátt þola óvægilegar yfirlýsingar og túlkanir af hálfu þessara aðila, og nægir þar að benda á síðustu fjárlagaræðu hæstv. fjmrh. Fullyrðingar misstórra spámanna um heilbrigðismál á opinberum vettvangi eru orðnar æðimargar og sumar hæpnar. Það er vanrækslusynd læknanna að hafa ekki sjálfir fyrir löngu tekið af skarið og sagt frá hlutunum eins og þeir eru, en þegar það gerist, er skrúfað fyrir þá.“

Þetta segir í yfirlýsingu þeirra sexmenninganna, og í henni er einnig að vissu marki farið viðurkenningarorðum um hæstv. núv. heilbrmrh., og undir þau ummæli vildi ég taka, þó að ég lesi þau ekki upp hér. En yfirlýsingunni lýkur með þessum orðum, með leyfi hæstv. forseta, en þau orð vil ég um leið gera að mínum lokaorðum að þessu sinni, — yfirlýsingunni lýkur þannig:

„Við erum ekki þeirrar skoðunar, að alger þögn um heilbrigðismálin, aðstöðu og viðhorf, muni hjálpa ráðamönnum bezt. Miklu fremur mætti ætla, að umræður þeirra, sem gerst þekkja af eigin raun, yrðu þeim vopn í baráttunni. Við teljum því, að frestun þáttarins, vegna þess að enginn var til andsvara, sé misskilinn greiði við þá, sem verja átti, og heilbrigðismálum þjóðarinnar sízt til gagns.“

Herra forseti. Ég legg til, að umr. um till. verði frestað og henni vísað til hv. allshn.