14.02.1967
Efri deild: 37. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 591 í B-deild Alþingistíðinda. (362)

83. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis

Frsm. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Frv. þetta er komið frá Nd., og er efni þess það, að reglulegt Alþ. skuli koma saman ár hvert 10. okt. eða næsta virkan dag, ef helgidagur er, hafi forseti Íslands ekki tiltekið annan samkomudag fyrr á árinu. Í 35. gr. stjórnarskrárinnar er sagt, að reglulegt Alþ. skuli koma saman ár hvert 15. febr. eða næsta virkan dag, ef helgidagur er, hafi forseti lýðveldisins ekki tiltekið annan samkomudag fyrr á árinu, en þessu megi þó breyta með lögum. Hins vegar hefur um allmörg undanfarin ár samkomudagur Alþ. verið ákveðinn með sérstökum lögum fyrir eitt ár í senn, oftast 10. okt., en frv. gerir ráð fyrir, að sá dagur verði lögfestur til frambúðar, enda þykir reynslan hafa sýnt, að sá samkomutími sé heppilegur.

Allshn. hefur athugað frv. og mælir einróma með því, að það verði samþ., en einn nm. var fjarstaddur, þegar n. afgreiddi málið, hv. 1. þm. Vestf., Hermann Jónasson.