07.03.1967
Efri deild: 48. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 922 í B-deild Alþingistíðinda. (614)

7. mál, veiting ríkisborgararéttar

Frsm. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Frv. þetta fjallar um veitingu ríkisborgararéttar til handa 49 einstaklingum með 17 mismunandi þjóðerni, þ.e.a.s. sem fæddir eru í 17 mismunandi löndum: frá Þýzkalandi 13, Danmörku 8, Íslandi 6, Færeyjum 5, Finnlandi 3, Bandaríkjunum 2 og Lýbíu 2. Auk þess 1 frá hverju eftirtalinna landa: Kenýa, Rússlandi, Indlandi, Póllandi, Skotlandi, Palestínu, Noregi, Spáni, Tékkóslóvakíu og Egyptalandi.

Frv. er komið frá Nd., og var meðferð þess þar á sama veg og tíðkazt hefur undanfarið, þannig að fulltrúi frá allshn. þessarar hv. d. sat á fundum með nm. úr allshn. Nd., meðan skilríki og gögn umsækjenda voru rannsökuð.

Allshn. þessarar deildar hefur síðan fjallað um frv. og leggur til, að það verði samþykkt með einni breytingu, þannig að einum einstaklingi fæddum í Noregi verði bætt við í stafrófsröð, eins og fram kemur í nál. allshn. Þessi umsókn barst ekki fyrr en eftir að Nd. hafði afgreitt frv.

2. gr. frv. kveður svo á, að þeir, sem heita erlendum nöfnum, skuli þó ekki öðlast ríkisborgararétt, fyrr en þeir hafa fengið íslenzk nöfn skv. lögum um mannanöfn. Samsvarandi ákvæði hefur verið í lögum um veitingu ríkisborgararéttar um margra ára skeið. Ég hef jafnan verið andvígur þessu ákvæði, eins og það er, en hef þó ekki flutt um það brtt., þar sem ég hygg, að það sé ekki tímabært sökum þess, hve margir hv. þm. munu vera því fylgjandi. Ég vona þó, að ekki liði mjög mörg ár, þar til þingvilji verði fyrir því að breyta þessu, t.d. á þá leið, að þeir, sem öðlast íslenzkan ríkisborgararétt, megi halda nöfnum sínum, en ófædd börn þeirra skuli bera íslenzk nöfn.