27.02.1967
Neðri deild: 46. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 996 í B-deild Alþingistíðinda. (730)

94. mál, jarðeignasjóður ríkisins

Frsm. (Jónas Pétursson):

Herra forseti. Frv. þetta á þskj. 189 um Jarðeignasjóð ríkisins, efni þess og ástæður, var skýrt hér við 1. umr. af hæstv. landbrh., og landbn. hv. d. hefur haft það til athugunar á fundi sínum, svo sem álit hennar á þskj. 262 ber með sér. Hún hefur orðið ásátt um afgreiðslu þess og leggur einróma til, að á því verði gerðar nokkrar breyt., sem fluttar eru sem brtt. á sama þskj. Það er fyrst og fremst um orðalagsbreytingar að ræða. Þó vil ég aðeins benda á það, að í 6. gr. frv., þar sem fjallað er um jarðir, sem gert er ráð fyrir að megi m.a. selja sveitarfélögunum, segir, að í sölusamningnum eigi að taka það fram, að jarðirnar megi ekki byggja til búrekstrar. N. hefur orðið sammála um að leggja til að þetta ákvæði falli niður og má raunar segja, að það sé helzt til mikil stjórnsemi af hálfu Alþ. að leggja þannig fyrir um ráðstöfun jarða, sem sveitarfélög kynnu að vilja fá umráð yfir. En sem sagt, ég vænti, að þessar brtt. skýri sig nokkuð sjálfar. Ég geri ráð fyrir því, að það kunni að fara svo með þessi lög, þegar til framkvæmda kemur, að ýmis ákvæði þeirra þurfi endurskoðunar við. Það fer oft svo, þegar verið er að setja í lög það, sem er kannske að nokkru leyti nýmæli, að þegar til framkvæmdanna kemur, kemur eitt og annað í ljós, sem þyrfti að vera á annan veg, og ég skal játa það, að það eru ýmis fleiri ákvæði hér, sem kannske orka tvímælis. En sem sagt, n. hefur orðið ásátt um að standa að þeim brtt., sem liggja fyrir á þskj., og leggur til, að frv. verði samþ. með þeim breytingum.