08.04.1967
Efri deild: 59. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1052 í B-deild Alþingistíðinda. (831)

36. mál, Samábyrgð Íslands á fiskiskipum

Frsm. minni hl. (Helgi Bergs):

Herra forseti. Ég þarf í sjálfu sér ekki að hafa mörg orð til þess að tala fyrir nál. okkar í minni hl. sjútvn., hv. 3. þm. Norðurl. v. og mín, því að afstaða okkar til þessa máls hlýtur að mótast af till. okkar í því máli, sem var til umr. hér næst á undan á dagskrá þessa fundar. Ef farið yrði að till. okkar í því máli, liggur það í hlutarins eðli, að staða Samábyrgðarinnar hlýtur að koma þar til athugunar um leið, og því hljóta frv. að fylgjast að. Það er því till. okkar, að einnig þessu frv. verði vísað til hæstv. ríkisstj. í trausti þess, að ný skoðun og athugun verði látin fara fram á þessum málum öllum. En mér þykir þó rétt að láta þess getið um leið, eins og ég sagði áðan í sambandi við bátaábyrgðarfélögin, að þau geta átt veigamiklu hlutverki að gegna, þó að skyldutryggingarákvæðin sjálf væru afnumin og sama máli gegnir um Samábyrgðina. Hennar hlutverki þarf ekki að vera lokið, þó að þessi mál yrðu framkvæmd í samræmi við þær skoðanir og hugmyndir, sem ég lýsti hér áðan, heldur gæti Samábyrgðin að sjálfsögðu einnig gegnt veigamiklu hlutverki í frjálsum samtökum um þessi efni og í samkeppni við aðra tryggingaaðila. Með tilliti til þessa leggjum við í minni hl. það til, að einnig þessu frv. verði vísað til hæstv. ríkisstj.