14.04.1967
Neðri deild: 66. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1053 í B-deild Alþingistíðinda. (841)

36. mál, Samábyrgð Íslands á fiskiskipum

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Þetta frv. er komið til hv. d. frá Ed. og fylgir frv., sem var til afgreiðslu áðan um bátaábyrgðarfélög. Gildir í flestum atriðum það sama um þetta frv. og það, sem ég sagði um fyrra frv., og sé ég ekki ástæðu til að endurtaka það. Ég vil aðeins bæta því við, að með þessu frv. er það tryggt betur en áður hefur verið, að þeir aðilar, sem hagsmuna eiga að gæta hjá Samábyrgðinni og bátaábyrgðarfélögunum, fái ríkari aðild að stjórn Samábyrgðarinnar. Er nú gert ráð fyrir, að í stjórn Samábyrgðarinnar verði fimm menn og jafnmargir til vara. Ráðherra skipar þrjá þeirra, einn án tilnefningar og tvo eftir tilnefningu L.Í.Ú., en hinir eru kosnir af bátaábyrgðarfélögunum.

Það er gengið betur frá því í þessu frv. en verið hefur, hvernig að skuli farið, ef skip liggur lengi, án þess að hafa haffærisskírteini. Þá er heimilt að fella það úr tryggingunni, eftir að tvö ár eru liðin frá því að haffærisskírteinið rann út, en fái skipið haffærisskírteini að nýju, skal það tekið í tryggingu, að lokinni fúaskoðun. Þegar þannig stendur á, að tryggingu sé sagt upp, hvílir sú skylda á Samábyrgðinni skv. frv., að tilkynna uppsögnina veðhöfum með 14 daga fyrirvara. Þá er einnig gerð sú breyt., að í stað þess að áður var skylt að fúatryggja súðbyrðinga, þá er það ekki lengur skylt, heldur aðeins heimilt. Einnig hefur verið gerð breyt. á ákvæðum er lúta að skoðun vegna bráðafúa. Um það efni gilda mjög ströng fyrirmæli, og slík skoðun er ákaflega kostnaðarsöm, ef framkvæmd er eftir ýtrustu fyrirmælum. Þess vegna hefur það verið tekið inn í frv. af hv. Ed., eftir ábendingu skipaskoðunarstj., að ef í ljós komi við þá skoðun, að ekki sé um bráðafúaskemmdir að ræða, þá skiptist kostnaður vegna skoðunar að jöfnu milli Samábyrgðar og eiganda skipsins.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að fjölyrða um þetta mál. Þetta frv. var, ásamt frv. um bátaábyrgðarfélögin mjög vandlega athugað í sjútvn. d. á s.l. ári, þegar það lá þar fyrir, og n. mælir öll með samþykkt frv.