07.11.1966
Efri deild: 12. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1091 í B-deild Alþingistíðinda. (884)

6. mál, almannavarnir

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að biðja herra forseta og hv. 9. þm. Reykv. afsökunar á því, að ég þurfti að hverfa frá umr., þegar þetta mál var hér síðast á dagskrá, og áður en hv. 9. þm. Reykv. hafði lokið máli sínu, en ég heyrði þó meginefni ræðu hans og hef einnig kynnt mér það, sem hann síðar sagði. Í ræðu hans fólust nokkrar fsp. í minn garð í sambandi við þetta mál, og ég ætla að leitast við að svara þeim nokkuð, ásamt því að víkja dálítið almennt að málinu í heild.

Hv. þm. sagði, að það væri alkunnugt, að lög um almannavarnir hefðu á sínum tíma verið sett af hæstv. ríkisstj. sem eins konar plástur á slæma samvizku. Hann sagði enn fremur, að vitað væri, að meginhættan, sem að okkur Íslendingum steðjaði, ef til ófriðar kæmi, væri frá erlendu herstöðvunum á landinu, og beztu almannavarnirnar hér á landi væru því að leggja herstöðvarnar niður og láta hinn erlenda her fara. Ég ætla nú ekkert að ræða þessi atriði, reynslan staðfestir allt annað en það, að við værum öruggir fyrir átökum í hernaði, ef ekki væru varnir hér, og heilbrigð skynsemi segir okkur allt annað. Ég ætla að láta það nægja um þessa staðhæfingu: En ég vil leiðrétta þann mikla misskilning, sem kemur fram hjá hv. þm, í því, vegna hvers lög um almannavarnir hafi verið sett á sínum tíma. Ég var nokkuð viðriðinn það mál af sérstökum ástæðum, fór þá með dómsmrh.- embættið um þriggja mánaða skeið árið 1961, í vefkindaforföllum þáv. forsrh., Ólafs Thors, og vann að því að undirbúa þetta frv., og var síðan eftir áramótin, þegar ég hafði látið af dómsmrh.-embættinu, falið það af þáv. dómsmálaráðherra, Bjarna Benediktssyni, að undirbúa frv. á grundvelli þess undirbúnings málsins, sem ég hafði beitt mér fyrir áður um haustið. En það kemur allgreinilega fram í aths. um það lagafrv. á sínum tíma, hverjar voru orsakir þess, að þetta mál væri undirbúið, frv. flutt og lögin sett. Þar var m.a. á það bent, að fyrstu ákvæði í íslenzkum lögum um loftvarnaráðstafanir (þá var takmarkað við loftvarnaráðstafanir), væri að finna í brbl. um loftvarnaráðstafanir frá 2. ágúst 1940. Það er ekki fyrr en ófriðurinn er skollinn yfir, sem við förum að gera bráðabirgðaráðstafanir og gefa út brbl.. til varnar almenningi í landinu vegna hættu, sem af ófriðnum kynni að stafa. Síðan fékk Alþ. þessi brbl. til meðferðar, og þau voru svo gefin út sem lög um ráðstafanir til loftvarna og annarra varna, því að þau voru gerð víðtækari í meðferð þingsins, gegn hættum af hernaðaraðgerðum. Það eru 1. nr. 52, 27. júní 1941. Allshn. Nd. beitti sér fyrir þessum breyt. á brbl., þar sem segir m.a., með leyfi hæstv. forseta: „Miðast brtt. n., sem hér fara á eftir, fyrst og fremst við það, að ekki sé einhlítt að einskorða varnir við ráðstafanir gegn loftárásum, þó að þær hljóti að vísu að vera aðalatriðið, heldur verði að hafa í huga hernaðaraðgerðir yfirleitt, hvers eðlis sem eru. Í annan stað þykir n. ekki verða komizt hjá að gera ráð fyrir þeim hörmungum; að fólk neyðist til að flýja heimili sín undan hernaði, ef til vill mjög skyndilega og hópum saman úr þéttbýlinu. Ef slíkt kemur fyrir, er auðsætt, að róttækra aðgerða getur orðið þörf þvílíku flóttafólki til flutnings.“

Það var alger samstaða um afgreiðslu málsins í þinginu þá og það var samþ. í báðum d. með shlj. atkv.

Það næsta, sem gerist svo í þessu máli, er 1951, en þá er með l. nr. 103 gerð breyt. á l. frá 1941, og það er enn sem fyrr, að sú breyt. er staðfesting á brbl., sem höfðu verið gefin út 24. maí 1951. En um ástæðuna til útgáfu þeirra sagði, með leyfi hæstv. forseta, að síðustu mánuðina hafi verið starfað að athugunum um það, hvað gera skyldi, ef til loftárása eða annarra hernaðaraðgerða kynni að koma hér á landi. Og segir síðan, að sú athugun hafi leitt í ljós, að hentugra væri og eðlilegra að hafa skipun loftvarnanefndar með nokkuð öðrum hætti en eldri lög ákvörðuðu, og var það eitt efni þessara brbl. Og enn varð enginn ágreiningur um málið á þinginu og það samþ. í báðum d. með shlj. atkv.

Þá var svo skipuð í júní-mánuði 1951 loftvarnanefnd Reykjavíkur, sem tók þá þegar til starfa, en frá stríðslokum hafði öll þessi starfsemi legið niðri hjá okkur Íslendingum, þegar henni hins vegar var haldið áfram, eftir því sem ég bezt veit, í öllum nágrannalöndum okkar og sérstaklega Norðurlöndum, sem hafa lagt mjög mikla áherzlu á að halda áfram viðbúnaði í þessum málum, þó að beinum hernaðarátökum í álfunni hafi létt.

Það þarf svo ekki mörgum orðum um það að fara, að spennan hefur farið vaxandi og minnkandi, svona eftir atvikum, í heimsmálunum síðan, og stundum hafa menn staðið á öndinni yfir því, að ný átök byrjuðu. Í Kúbudeilunni á sínum tíma, þegar var verið að setja upp eldflaugastöðvar á Kúbu, held ég, að það sé ekki um þáð deilt, að öllum hafi verið ljóst, að allur loftfloti Bandaríkjanna hafi þá í einu verið á lofti, allur flotinn hafi verið viðbúinn, og kafbátaflotinn einnig, þegar síðustu orðsendingarnar fóru milli Kennedy forseta og Krúsjeffs, sem stöðvuðu það, sem menn héldu þá að væri, byrjun á nýrri heimsstyrjöld. Og sennilega hefur þá hurð skollið nærri hælum, að slík átök byrjuðu aftur í stórum stíl, þó að það sé erfitt fyrir okkur Íslendinga að dæma um slíkt. Það er auðvitað á fleiri sviðum, sem ekki hefur byrlega blásið, og hættan getur verið mikil, að slík átök breiðist út. Út í þá sálma skal ég ekki heldur fara, en það er augljóst mál, finnst mér, að reynslan hefur kennt okkur, að við eigum að hafa hér viðbúnað, áður en hættan skellur yfir, og gera einhverjar þær minnstu ráðstafanir, sem krafizt verður af ábyrgum stjórnvöldum á hverjum tíma, til að firra almenning vá og vandræðum. Það var sem sagt haustið 1961, sem umr. hófust; eins og ég sagði áðan, innan ríkisstj. um það, að óverjandi væri að gera ekki gangskör að því að hefja hér rannsóknir og undirbúning almannavarna í víðtækari mæli en áður hafði verið. Þá höfðu verið sprengdar 30 vetnissprengjur á liðlega mánaðartíma við Novaja Semlja, og þ. á m. hinar stærstu sprengjur, 50, 70 og upp í 100 tonna sprengjur. Bæði Sovétríkin og Bandaríkin sprengdu þá mikið af þessum hættulegu vetnissprengjum. Út í þá sálma skal ég ekki fara, en af þeim var augljóst, að stafað gæti gífurlega mikil hætta af geislavirku ryki, sem frá slíkum sprengingum mundi dreifast, og enda þótt við hefðum engan her hér á landi og værum einir og það byrjuðu einhver hernaðarátök, sem væru á þessu sviði, er auðvitað alveg jafnmikil ástæða til þess að hafa viðbúnað hér gegn þeirri hættu, sem af geislavirku ryki gæti stafað, sem getur breiðzt um allan heiminn, þó að átökin séu hvergi nálægt okkur Íslendingum. Hitt er svo annað mál, að Íslendingum er auðvitað mjög framandi allt það, sem að hernaði lýtur og afleiðingum hernaðar, og þess vegna er það ekki nýtt, að maður heyri þessar spurningar: Hvaða ástæða er til þess að hafa almannavarnir? En almannavarnir eru einfaldlega sérhverjar þær ráðstafanir, sem að því lúta að forða frá mann- og eignatjóni, sem af hernaði eða árás kynni að leiða, eða bæta tjón af sömu sökum, líkna og hjúkra þeim, sem eiga um sárt að binda. Almannavarnir stefna m.ö.o. að því að bjarga mannslífum.

Að tilhlutun ríkisstj. 1961 fóru þeir utan til Norðurlanda til að kynna sér almannavarnir þar, Sigurjón Sigurðsson lögreglustjóri í Reykjavík og dr. Jón Sigurðsson borgarlæknir, og hingað komu svo til landsins fyrir beiðni ríkisstj. Holtermann, hershöfðingi, sem er yfirmaður almannavarna (Sivilforsvar) í Noregi, og Toftemark, yfirlæknir hjá heilbrigðisstjórninni dönsku. Hann veitir forstöðu þeim þætti almannavarna í Danmörku, er fellur þar undir. Og þessir menn veittu ríkisstj. og sérfræðingum hennar aðstoð við undirbúning frv. um almannavarnir, sem síðar um veturinn var lagt fyrir þingið. Það er svo augljóst mál, og reynslu annarra hafði sýnt okkur það, að það má alltaf búast við því, að margvíslegar þær ráðstafanir, sem gerðar eru á sviði almannavarna vegna yfirvofandi hernaðarhættu, geti komið í góðar þarfir til þess að verjast annarri vá, sérstaklega öllum náttúruhamförum, sem við Íslendingar þekkjum helzt í mynd eldgosa og hafísa, aðrar þjóðir í mynd fellibylja o.s.frv., sem ekki þarf að rekja. Og það, sem gert yrði á sviði almannavarna almennt, mundi þess vegna geta verið okkur mikil öryggisráðstöfun á víðtækara sviði en þegar aðeins er um hernað að ræða, og það kemur einmitt fram í því frv. til l. um breyt. á almannavörnum, sem nú liggur fyrir og er flutt eftir framkomnar ábendingar þar um frá sumum hv. þm. á síðasta þingi.

Um þessi mál almennt eru nokkur atriði, sem við verðum að gera okkur ljós, s.s. það að þróun hernaðartækninnar hefur leitt til þess, að bein hernaðaráhrif hafa náð langt út fyrir víglínu óvinaherjanna, og þetta er eitt af því, sem hefur orðið til þess, að t.d. nágrannar okkar Svíar, Norðmenn og Danir hafa lagt miklu meiri áherzlu á almannavarnir en áður. Ég hef nokkrar tölur til fróðleiks í þessu sambandi um mannfall í styrjöldum seinni ára, sem ég vil leyfa mér að gera hv. þd. grein fyrir. Í fyrri heimsstyrjöldinni er talið, að fallið hafi alls 9.8 millj. manna, þar af hermenn 95%, en almennir borgarar 5%. Í Spánarstyrjöldinni, borgarastyrjöldinni, féllu 650 þús. manns. Þar af var talið, að hermenn væru 57%, en borgarar 43%. Í síðari heimsstyrjöldinni eru 52 millj. manna taldir fallnir, þar af hermenn 52%, en almennir borgarar 48%. Og þetta er náttúrlega sá mikli munur frá fyrri heimsstyrjöldinni, þar sem tala hermanna nær 95% og almennra borgara 5%. En í síðari heimsstyrjöldinni tala fallinna hermanna 52% og 48% almennra borgara. Í Kóreustríðinu voru hlutföllin þau, að hermannatalan var talin 16%, en almennir borgarar 84%. Og þær styrjaldir sem hér um ræðir, eru þó háðar án þess, að til kæmu áhrif kjarnorkuvopna að nokkru ráði. En ef til slíkra óskapa kæmi, skapar það auðvitað voða hundruðum km frá skotmarkinu, eins og menn gera sér, held ég, fulla grein fyrir. Við verðum þess vegna að líta á almannavarnir í dag sem almenna félagslega öryggisráðstöfun, og við sjáum, að uppbygging og styrkleiki almannavarna er mestur meðal þeirra þjóða, sem fremst standa um félagslega löggjöf og starfsemi, eins og t.d. Norðurlöndin eru skýrast dæmi um. Ég held þess vegna, að það verði jafnan talinn gífurlega mikill ábyrgðarhluti, ef stjórnvöld landa, og Íslands þá líka, láta algerlega undir höfuð leggjast að hafa hér nokkurn viðbúnað. Þó að löggjöf um almannavarnir og ráðstafanir á grundvelli þeirrar löggjafar mundu ekki verða nema nokkrum mannslífum til bjargar á komandi árum, mundu menn ekki sjá eftir því, að slík löggjöf hefði verið sett og unnið á grundvelli hennar. Þá mundi ekki heldur hv. 9. þm. Reykv. viðhafa orð eins og þau, að slík löggjöf hefði verið sett sem einhver plástur á vonda samvizku. Þetta er alvarleg spurning fyrir stjórnvöld hvers lands, eins og ég sagði, og fyrir hv. alþm. Er einhver þeirra, sem vill taka ábyrgð á því, að ekkert sé gert í þessum málum?

Hv. þm. varpaði fram ýmsum spurningum um það, hvað gert hefði verið á grundvelli löggjafarinnar, og það verður að viðurkennast, að það hefur gengið hægt með framkvæmd laganna, eins og ég gerði grein fyrir í minni fyrstu ræðu, og ég ætla ekki að afsaka mig neitt í þeim efnum. Það má vel vera, að ég hefði átt að ganga rösklegar fram í því, að hraðað yrði framkvæmd ýmissa atriða, sem fjallað er um í þessari löggjöf, og því vék hv. þm. að, hvort ég hefði sett hin og þessi reglugerðarákvæði, en þau eru flest þess eðlis, að það er einmitt á grundvelli þegar fenginnar samstöðu við sveitarstjórnir, sem fyrst er hægt að setja ýmis af þessum ákvæðum. En því miður er það svo, að það er bara hér í Reykjavík, sem stofnuð hefur verið almannavarnanefnd, sem er eðlilega frumskilyrði þess, að nokkuð geti gengið í þessum efnum, svo að um muni, til viðbúnaðar og framkvæmda. Mér er það mesta áhyggjuefni, eins og ég lét getið hér við 1. umr., að sveitarstjórnirnar hér í okkar næsta nágrenni, í hinu mikla þéttbýli Kópavogs, Garðahrepps, Hafnarfjarðar og Keflavíkur, skuli ekki hafa talið neina ástæðu til þess að setja á laggirnar almannavarnanefndir hjá sér til samráðs við ráðuneytið og stjórn almannavarna lögum samkvæmt.

Þetta var svona almennt um þessa fyrstu spurningu.

Varðandi aðra spurningu, hvort gefnar hafi verið út eða í ráði sé að gefa út reglugerð um nánari ákvæði um einkavarnir, sem fyrirmæli eru um, gegnir nokkuð sama máli. Í lögunum er kveðið svo á, að einkavarnirnar séu framkvæmdar undir eftirliti almannavarnanefnda, og á meðan slíkar nefndir hafa ekki hafið starf, skortir eðlilega grundvöll fyrir reglugerð um þetta atriði, a.m.k. af hálfu ráðh.

Spurningum 3 og 4, sem voru um það, hvað mörgum atvinnufyrirtækjum hafi borizt fyrirmæli frá almannavarnanefnd um öryggisráðstafanir, og hvað er ákveðið af almannavarnanefnd um skyldur húseigenda til að hafa í húsi sínu nauðsynleg björgunartæki o.s.frv., er að nokkru leyti svarað með því, sem sagt hefur verið í sambandi við spurningu 1 og 2, og ber hér enn að sama brunni um framkvæmd laganna og þátt almannavarnan. í því samstarfi, en þó er á það að líta, að þegar hefur farið fram töluvert mikil athugun á skýlingarhæfni húsa í Reykjavík, þeim eina stað, þar sem almannavarnan, er starfandi, og það er einmitt nokkur undanfari að því, hvaða ráðstafanir sé rétt að gera í húsum manna, ef hættu ber að höndum af hernaðarástæðum og einkum þó af geislavirkum efnum. Og í framhaldi af þessu, og nokkuð tengd þessu, er spurningin um, hvort eitthvað hafi verið gert í sambandi við brottflutning manna af hættusvæðum, en þar gegnir nokkuð öðru máli að því leyti, að skipulagning brottflutnings fellur undir skrifstofu almannavarna. Skipulag brottflutnings er eitt af þeim málum, sem skrifstofan hefur nú til athugunar og hefur reyndar haft áður til athugunar, og í árslok 1964 var gerð stutt yfirlitsathugun þar að lútandi, en þá lá ekki fyrir vitneskja um ýmsa þætti, sem sköpuðu vissan grundvöll fyrir slíka áætlun. Það er m.a. skýlingarhæfni húsanna, sem segir mjög mikið til um það og skýlingarrými í Reykjavík, hvað gera þarf ráð fyrir, að þurfi að flytja margt fólk í burtu með þeim hætti, að það verði þá til öruggari staða en þar, sem það þegar er. En eins og ég sagði áðan, er nú í smíðum áætlun um brottflutning, ef hættu bæri að höndum.

Hv. þm. vék að starfsemi áhugamannafélaga og sveita, sem unnið hafa og vinna mikið starf og gott. Starfsemi almannavarna miðast við það eitt að hafa tiltækan viðbúnað til að mæta stærri hættum og meiri ógnvaldi en því sem vænta má yfirleitt í daglegu lífi, og slíkur búnaður gæti um leið, eins og ég sagði áðan, bætt starfsaðstöðu félaga áhugamanna til að takast á við erfiðari og stærri verkefni en þeir almennt búast við. Við getum tæplega vænzt þess, að áhugamannasamtökin geti tekið á sínar herðar allt það starf og viðbúnað, sem félagslegt öryggi okkar krefst að haft sé til reiðu og við getum að mínum dómi og eigum að hafa til reiðu í þjóðfélaginu. Í grg. skrifstofu almannavarna, sem fylgir frv., var fjallað um þetta mál, og ég held þess vegna, að það ætti ekki að valda neinum misskilningi, eða að það geti orðið neinir árekstrar á milli áhugamannasveitanna og almannavarna, en þar segir, með leyfi hæstv. forseta: „Slysa-, hjálpar- og björgunarsveitir, sem starfandi eru innan félagasamtaka áhugamanna, geta skapað kjarna almannavarnasveita, og starfsemi þeirra myndi styrkjast almennt við aðstoð, sem almannavarnir geta látið í té, að því er varðar búnað og þjálfun.“ Það er, held ég, misskilningur að halda því fram, að lög um almannávarnir og framkvæmd þeirra skerði á nokkurn hátt starfsemi áhugamannasamtakanna, þvert á móti sýnist mér augljóst, að lögin styrkja aðstöðu þeirra til starfa og geta, með milligöngu almannavarnanefnda, tryggt samræmingu í starfsemi þeirra, bætt búnað þeirra og aukið þjálfun, og það hefur beinlínis verið leitað eftir slíku af hálfu þessara samtaka og taldir vankantar á að veita þá aðstoð, sem almannavarnir gjarnan hefðu viljað veita, vegna þess hvernig lögin hafa verið. Gagnkvæmur skilningur milli skrifstofu almannavarna annars vegar og Rauða kross Íslands, sem sérstaklega var vikið að, og Slysavarnafélags Íslands, sem einnig var vikið að, mun örugglega vera fyrir hendi. Það lýsir sér m.a. í þátttöku Slysavarnafélagsins í námskeiði á danska almannavarnaskólanum fyrir milligöngu skrifstofu almannavarna, og að því er varðar Rauða kross Íslands í samvinnu um fast kerfi til notkunar við kennslu í slysahjálp. Ræðumaður ræddi kennslu í slysahjálp sérstaklega, og það er ekki nema gott um það að segja. Kennsla þessi hefur um langa hríð hvílt að mestu á einum manni, sem hefur á því sviði unnið merkilegt brautryðjandastarf. Þar á ég við Jón Oddgeir Jónsson, en hér þurfa fleiri til að koma. Skrifstofa almannavarna hefur í samræmi við þau ákvæði 4. gr. l. um almannavarnir, að forstöðumaður annist kennslu yfirmanna og leiðbeinenda, tekið þjálfun manna til að kenna slysahjálp inn á skrá um þau námskeið, sem skrifstofan hefur staðið fyrir og ég hef áður minnzt á. Þannig munu, held ég, fljótlega fást allmargir menn, sem munu geta veitt leiðsögn og kennt slysahjálp, og þeir menn verða að sjálfsögðu ekki bundnir við að sinna slíkri kennslu aðeins fyrir skrifstofu almannavarna, heldur væntanlega miklu fremur fyrir félög áhugamanna, enda eru þessir menn flestir tengdir slíkum áhugamannasamtökum. Almannavarnakerfið mun og þarf að þróast þannig, að efling þess byggist á eflingu áhugamannasamtaka þeirra, sem fyrir eru, alls ekki með því, og það hefur aldrei fyrir mér eða öðrum vakað í þessu sambandi, að sundra fylkingu þeirra, heldur á þann hátt, að gagnkvæmur skilningur ríki, sem leiði að því marki að koma í veg fyrir slys, hafa þjálfun og viðbúnað gegn vá og hafa hreinan skjöld gegn vandanum mesta, tortímingarkrafti atómhernaðar.

Mér er alveg ljóst, að það, sem kemur fram í grg. frv., að Íslendingum sé fjarstætt, að það sé nokkur hætta á hernaði eða hætta af völdum hernaðar, er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt. Við, sem ólumst upp á milli stríðsáranna, héldum, að það mundi aldrei verða stríð aftur, og þeirrar skoðunar voru miklu fleiri en við. Jafnvel Bretar voru svo óviðbúnir styrjöld, að þegar ég kom til Bretlands í septembermánuði 1938, þegar stóð yfir Súdetadeilan svokallaða, sem ég veit, að hv. þm. muna eftir, sá maður, að þeir voru að hlaupa um göturnar í London með einhverjar gamlar gasgrímur, sem var verið að afhenda á hinum og þessum stöðum, og grafa skotgrafir í Hyde Park til varnar í hugsanlegri styrjöld, sem gæti komið upp í framhaldi af Súdetastríðinu. Og ég minnist þess einnig, að veturinn 1939 hlýddi ég á fyrirlestur í University of London, þar sem einn af mjög kunnum prófessorum þess háskóla, Smith, var að tala yfir ungum Bretum, og aðalefni ræðunnar var það, að það væri eiginlega leitt fyrir þessa ungu menn, að þeir skyldu ekki lifa á tímum meiri tækifæra brezka heimsveldisins en þeir gerðu. Það hefði verið munur að vera uppi á Viktoríutímanum og Elísabetartímanum, þegar verið var að leggja grundvöllinn að heimsveldinu og yfirráðum brezka ljónsins á hafinu. Og það var ekki nema rúmu ári eftir þessi ummæli, sem hin unga kynslóð Bretlands fékk það stærsta og mesta tækífæri, sem hún nokkru sinni í sögu þjóðar sinnar hefur fengið, og lögð var á hana meiri ábyrgð en nokkru sinni áður. Og það var loftorrustan yfir Bretlandi, sem gat brugðizt til beggja vona, en þar sem hin brezka æska sigraði, sem hinn mikli foringi Breta í stríðinu, Churchill, hafði um þau eftirminnilegu orð „never have so many owed so much to so few“. Við vitum sem sagt ekki, hvenær kallið kemur. Menn vita líka lítið um það, hvenær tækifærin eru mest, en það hvílir á okkur öllum almenn skylda til þess að hafa skynsamlegan viðbúnað á hverjum tíma til varnar almenningi, til hjúkrunar og hjálpar gegn almennri vá af völdum hernaðar og annarra hamfara.

Ég vona og vil ljúka máli mínu með því, að um þetta mál þurfi ekki að ríkja ágreiningur í þessari hv. d. og það verði hins vegar góð samstaða um að gera þær endurbætur á almannavarnalöggjöfinni, sem í þessu frv. felst.