07.11.1966
Efri deild: 12. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1098 í B-deild Alþingistíðinda. (885)

6. mál, almannavarnir

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. dómsmrh. fyrir þau svör, sem hann hefur gefið við fsp. mínum um daginn. Af svörunum má ráða það, sem mig raunar grunaði, að lítið sem ekkert hafi verið gert af hendi hæstv. ríkisstj. til framkvæmda l. um almannavarnir frá 1962, og er líkt um hæstv. ríkisstj. að segja í þessu efni og um sveitarstjórnir og einstaklinga. Enginn virðist hafa áhuga á að framkvæma þessi lög.

Nú er það alveg rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að það þarf að hafa viðbúnað, áður en hörmungar af hvaða tagi sem eru dynja yfir. Þetta er rétt. Ekki vil ég frekar en aðrir taka á mig ábyrgð á því, að ekkert sé gert í þessu efni. En það, sem ég finn að, er, að ekkert er gert, það er staðreyndin, hvorki af hálfu hins opinbera né af hálfu einstaklinga. Það er þetta, sem ég sá ástæðu til þess að gagnrýna um daginn og geri enn.

Hafi ég verið allneikvæður eða virzt það í minni ræðu um daginn, vil ég nú gera bragarbót og reyna í þeim fáu orðum, sem ég segi hér til viðbótar, að vera jákvæður. Ef við lítum á almannavarnirnar, verðum við þess varir, að almannavarnir hæstv. ríkisstj. eru býsna vinafáar í landinu eða virðast vera svo. Það eru ekki vinsæl ákvæði þessara laga, og þess vegna koma þau ekki til framkvæmda. Hins vegar höfum við nokkur félög, sem starfa að líku markmiði, koma í veg fyrir slys og hjálpa, þegar hörmungar dynja yfir. Það er sérstaklega Slysavarnafélag Íslands og Rauði krossinn. Þetta eru vinsæl félög. Lög um almannavarnir leggja á borgarana miklar kvaðir. Í þeim er að finna ákvæði um eins konar herskyldu. Þetta hygg ég, að sé ekki vinsælt og verði ekki vinsælt hjá áhorfendum. Félögin, sem ég nefndi áðan, virðast fá nóga starfskrafta af fúsum og frjálsum vilja. Menn vilja starfa hjá þessum félögum. Hér virðist vera reginmunur á. Þetta hafa þeir, sem standa að almannavörnunum, fundið og það kemur fram í þessu frv. og sérstaklega grg., að almannavarnir finna það, að þær standa uppi vinafáar með þjóðinni, en hins vegar eru til vinsæl félög, sem sinna líku hlutverki. Hæstv. ráðh. las upp setningu úr grg. hér áðan, sem sýnir þetta glögglega. Með leyfi hæstv. forseta segir þar: „Nefndirnar, — þ.e.a.s. almannavarnanefndirnar, — leiti samstarfs við starfandi félagssamtök, sem hafa slysahjálpar- og björgunarsveitir innan sinna vébanda. Þessar sveitir geta myndað kjarna almannavarnasveitanna, þótt þær séu hluti slysavarna-, Rauðakrossdeilda eða annarrar skyldrar starfsemi.“ Hér er blátt áfram farið inn á það, að þessi vinsælu félög og almannavarnirnar ættu að rugla saman reytunum.

Þá vaknar sú spurning, a.m.k. fyrir mér: kemur ekki til mála að leggja almannavarnir niður, eins og þær eru hugsaðar í lögunum? Afnema lögin og fela þessum mannúðarfélögum það, sem hér þarf að gera, og styrkja þau fjárhagslega rækilega til þess? Yrði viðbúnaðurinn ekki meiri, yrði starfið ekki lífrænna með því móti? Ég vil stinga upp á þessu og óska eftir, að þetta verði tekið til athugunar. Við erum búin að hafa lög um almannavarnir, sem ekki hafa komið til framkvæmda, nú í 4 ár. Við höfum miklu lengur, eins og hæstv. ráðh. tók fram, eða síðan 1941, haft almannavarnir, en þær hafa aldrei verið framkvæmdar í landinu utan Reykjavíkur a.m.k. Ég held, að það sé mjög athyglisvert að fela Rauða krossi Íslands og Slysavarnafélagi Íslands það, sem hér er um að ræða, og styrkja félögin til þess af opinberum fjármunum. Til vara vil ég fara fram á það, að þetta frv. verði sent stjórn Rauða krossins og stjórn Slysavarnafélagsins og þeirra umsagna óskað um efni frv. Mér finnst ekki minna mega gera gagnvart þessum ágætu félögum, þar sem löggjafinn er að bollaleggja að blanda þarna saman starfsemi þessara félaga og starfsemi hins opinbera aðila, almannavarna. Ég teldi það mjög illa farið, ef einhver ákvörðun yrði tekin hér á Alþ., sem fæli það í sér, að ruðzt væri inn á svið þessara félaga, án þess að haft væri samráð við þau um það og hlustað á þeirra álit um það efni.