27.02.1967
Efri deild: 44. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1105 í B-deild Alþingistíðinda. (892)

6. mál, almannavarnir

Frsm. minni hl. (Alfreð Gíslason):

Herra forseti. Hv. frsm. meiri hl. heilbr.- og félmn. gat þess, að leitað hefði verið álits Slysavarnafélagsins og Rauða krossins, um þetta frv., og svar hefði borizt frá Slysavarnafélaginu, en ekki frá Rauða krossinum. Svar Slysavarnafélagsins er jákvætt. Það er rétt. Það mælir með samþykkt frv. En ég hef sterkan grun um, að það svar sé gefið að lítt athuguðu máli. En nú er mér spurn: Hvers vegna svarar ekki stjórn Rauða kross Íslands? Hver er ástæðan til þess, að Rauði krossinn svarar ekki? Mér er ekki fullkunnugt um það, en ég vildi mjög skora á form. hv. heilbr.- og félmn. að kanna ástæður til þess, að ekkert svar berst frá því virðulega félagi. Lausnin á þeirri gátu gæti vel verið sú, að þeir hefðu ekki viljað styggja meiri hl. hér á þingi, en litist ekki á fyrirhugað samkrull almannavarna við Rauða krossinn. En það væri gott, ef áreiðanleg upplýsing gæti einmitt fengizt um þetta efni, áður en málið færi úr þessari hv. d.

Hv. talsmaður meiri hl. n. ræddi um það, að það væri ekki rétt að vera með ástæðulausar tafir í sambandi við þetta mál hér á þingi. Nákvæmlega sama höfðu talsmenn frv. til l. um almannavarnir uppi árið 1962. Það lá heil ósköpin á, og mátti ekki tefja málið. Það var ekki tafið hér á Alþ. þá. En hvað hefur skeð síðan, nú á fimmta ár? Lögin hafa ekki komið til framkvæmda. Hæstv. dómsmrh. taldi upp ýmislegt, sem gert hefur verið, og það er rétt, og ég hef viðurkennt það. Ég viðurkenni það í mínu nál., þar sem ég tala um, að komið hafi verið upp skrifstofubákni og nokkrum millj. kr. árlega sé varið í þessu skyni. En hvað er gert? Það er undirbúningur undir framkvæmdir, sem ekki eru hafnar á þeim 4–3 árum, sem síðan eru liðin (Gripið fram í.) Það heitir skrifstofa almannavarna. Er það ekki stofnun? Ég kalla það bákn, en um það má nú kannske deila, hvað sé bákn? Og hvenær er skrifstofa bákn og hvenær er hún ekki bákn? Það skal ég ekki ræða nú. En fyrst þetta er nú af talsmönnum þessa frv. og fyrirsvarsmönnum laganna svona mikið alvörumál og þetta mál megi ekki tefja að ástæðulausu og enginn viti, hvenær ógn geti dunið yfir, er mér spurn, og þeirri spurningu vil ég beina til hæsta aðila þessa máls, hæstv. dómsmrh., hvers vegna hefur hann vanrækt að framkvæma sinn þátt í þessum lögum? Hann gaf greið og góð svör og hreinskilin við 1. umr. þessa máls og viðurkenndi, að allt það, sem lögin leggja honum sérstaklega á herðar um framkvæmd l., hefur verið vanrækt. Hvers vegna var það vanrækt? Hvers vegna hefur hæstv. ráðh. ekki sett allar þær reglur og reglugerðir, sem eru undirstaða undir framkvæmd fjölmargra atriða laganna? Hvers vegna hefur hann ekki sett þessa reglugerð og reglur?

Hæstv. ráðh. gerði mikið úr minni fávizku (Dómsmrh.: Gerði ég mikið úr henni?), mjög mikið úr minni fávizku og taldi, að hvergi á byggðu bóli mundi finnast læknir með slíkar skoðanir sem ég hef. Ég skal ekki segja um það, en hitt veit ég, að það er ekkert einsdæmi, þótt hér á landi gangi illa að framkvæma almannavarnir. Það gengur alls staðar illa á Vesturlöndum a.m.k. Það gengur líka illa í Bandaríkjunum að framkvæma þær og hvers vegna? Af því að aðgerðirnar eru yfirleitt óvinsælar (Gripið fram í.). Það hefur ekki verið farið inn á réttar brautir í þessum efnum, og við, eins og vant er, gleypum hrátt það, sem erlent er, og ætlum að heimfæra það upp á okkur. Það tekst engu fremur hér en víða erlendis. En hvarvetna á Norðurlöndum, í Bretlandi, í Bandaríkjunum, þessi lönd veit ég um, þar gengur illa að framkvæma almannavarnir.