02.03.1967
Efri deild: 46. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1107 í B-deild Alþingistíðinda. (895)

6. mál, almannavarnir

Frsm. meiri hl. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls lét ég þess getið, að allshn. hefði á sínum tíma sent þetta frv. til umsagnar Slysavarnafélagi Íslands og Rauða krossi Íslands. Slysavarnafélagið hefði sent jákvæða umsögn, en Rauði krossinn hefði engu svarað bréfi allshn. Hv. 9. þm. Reykv., sem var andvígur frv., lét þá skoðun í ljós, að Rauða krossinum, eða forstöðumönnum hans, mundi e.t.v. ekki hafa getizt að frv. og jafnvel óttazt, að það yrði til þess að veikja og rýra starfsemi Rauða krossins og þar sé að leita orsakanna til þess, að hann léti ekki til sín heyra um frv. Auk þess kynni að vera, að forstöðumenn Rauða krossins hefðu ekki viljað styggja meiri hl. þann, sem var frv. fylgjandi. Þetta kom fram í ræðu hv. 9. þm. Reykv. við 2. umr. málsins.

Nú vill svo til, að umsögn Rauða krossins hefur borizt, eftir að 2. umr. um málið fór fram. Kemur þar fram, að stjórn Rauða krossins hefur fjallað um málið á fundi hinn 11. jan. s.l., og þá samið um það ályktun og umsögn. Skýringin á því, að þessi umsögn hefur ekki fyrr borizt til allshn., er einfaldlega sú, að orðið hafa á mistök starfsmanns á skrifstofu Rauða krossins, það gleymdist einfaldlega að sendar allshn. umsögnina. Ég vil nú, með leyfi hæstv. forseta, lesa þessa umsögn, hún er stutt og laggóð. Hún er dags. 27. febr. 1967 og er á þessa leið:

„Á fundi stjórnar Rauða kross Íslands hinn 11. jan. s.l. var tekið til umræðu hv. bréf yðar, dags. hinn 15. nóv. s.l.; þar sem óskað er umsagnar um frv. til l. um breyt. á l. um almannavarnir. Rauði kross Íslands hefur ekkert við breytinguna að athuga, stjórn R.K.Í. getur því af sinni hálfu mælt með framangreindri breytingu. Varðandi atriði næstneðstu mgr. á 4. bls. frv., sem sérstaklega var óskað umsagnar um, vill stjórn R.K.Í. lýsa ánægju sinni yfir væntanlegu samstarfi við almannavarnir á sviði kennslu í slysahjálp fyrir hjálparog björgunarsveitir og almenning. Stjórn R.K.Í. vill í því sambandi benda hv. allshn. sérstaklega á samstarf Rauða krossins og almannavarna við skipulagningu í kennslustarfi í slysahjálp, sem R.K.Í. hyggst gefa út innan skamms.

Virðingarfyllst,

f.h. Rauða kross Íslands,

Ólafur Stephensen, framkvstj.

Til allshn. Ed. Alþingis.“

Skv. þessari umsögn, sem ég nú hef lesið, eru áhyggjur hv. 9. þm. Reykv. af afstöðu Rauða krossins með öllu ástæðulausar.