02.03.1967
Efri deild: 46. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1108 í B-deild Alþingistíðinda. (896)

6. mál, almannavarnir

Frsm. minni hl. (Alfreð Gíslason):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður lét orð falla um það, að ég væri andvígur frv. því, sem hér lægi fyrir. Þetta er ekki alveg nákvæmt. Ég vildi frekar segja, að ég væri andvígur afgreiðslu frv. eða efni þess á þessu stigi. Ég er engan veginn andvígur því, að hafður sé sérstakur viðbúnaður, ef til tjóna kemur eða kæmi af völdum náttúruhamfara. Það er langur vegur frá því. Þvert á móti. Ég vil, að það mál sé sérstaklega vel undirbúið, en það tel ég ekki vera gert nægilega með því frv., sem fyrir liggur. Þetta er mín afstaða til frv. Annars viðurkenni ég það, að mikið af mínum ræðutíma við 2. umr. þessa máls fór í gagnrýni á gildandi l. um almannavarnir, og af því hefði mátt draga þá ályktun, að ég væri neikvæður í þessu máli yfirleitt. En ég er hvorki neikvæður gagnvart almannavörnum né gagnvart viðbúnaði við tjóni af völdum náttúruhamfara. Það er mesti misskilningur. Ég gagnrýndi frv. til l. um almannavarnir harðlega 1962, og hvað hefur ekki komið á daginn? Mín gagnrýni var á rökum reist, það hefur reynslan sýnt. Þessi lög, eins og þau eru í dag, eru óframkvæmanleg. Það er þetta, sem ég legg svo mikla áherzlu á. Ég vil hvorki um þetta efni né önnur hafa lög, sem ekki eru annað en pappírsgagn, sem ekki er hægt að framkvæma. Á þetta hef ég bent rækilega nú og áður, og það er ekki mín sök, ef illa tekst til nú, eins og illa tókst til árið 1962.

Það er stuðningur við hæstv. ríkisstj., að Slysavarnafélagið og Rauði krossinn skuli ekki hafa andmælt þessu, en ég hefði talið skynsamlegra af þessum samtökum, að þau hefðu athugað þetta mál gaumgæfilegar og gert við það þær aths., sem ég tel nauðsynlegt, að gerðar verði. Ég hefði, eins og ég hef áður sagt, vel treyst þessum félögum fyrir almannavörnum og öllum öðrum viðbúnaði í þessum efnum, en ég vantreysti samstarfi þessara aðila við almannavarnir vegna þess, hversu almannavarnir hafa reynzt gagnslausar, algerlega máttlausar, og ég var hræddur um, og er það enn, að þetta komi til með að bitna á þessum ágætu frjálsu samtökum um slysavarnir.