18.03.1968
Efri deild: 71. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1233 í B-deild Alþingistíðinda. (1086)

139. mál, íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég vil fyrst og fremst þakka hv. n. fyrir það að hafa skjótlega afgreitt frá sér þetta mál og er jafnframt þakklátur fyrir það, að hv. n. er í meginefnum sammála um þá hugsun, sem felst í þessu frv. Í rauninni er eini ágreiningurinn sá, að minni hl. n. telur ekki fært að eiga það undir ákvörðun ráðh. eða ríkisstj., hvar embættisbústaðir skuli byggðir, heldur skuli áfram vera í gildi lög, sem mæla fyrir um skyldu ríkisins í þessu efni. Nú er það að vísu svo, eins og bent hefur verið á, að þessi lagaskylda er ekki brýnni en það, að þetta er að sjálfsögðu takmarkað við það, sem hverju sinni er veitt til embættisbústaða í fjárl., þannig að í rauninni er hægt að hafa það í hendi sinni, hvernig framkvæmd þessara l. er, og jafnframt má gera ráð fyrir því, jafnvel samkv. þeirri brtt., sem hv. minni hl. flytur, að það verði þó alltaf túlkunaratriði og væntanlega reglugerðaratriði hvað telja skuli þá staði, þar sem eðlilegur markaður hafi myndazt fyrir íbúðarhúsnæði. Út af fyrir sig má segja, að efnislega skipti þetta ekki öllu máli, eins og frsm. meiri hl. n. benti á. En á þessu geta þó verið vissir annmarkar, að gera þessa breytingu, sem minni hl. leggur til. Í fyrsta lagi sá annmarki, að hér eftir er ekki gert ráð fyrir því, að það sé frekar einn embættishópur en annar, sem eigi rétt til þess að fá embættisbústaði, ef um það er að ræða, þannig að það mætti vel hugsa sér það, að í strjálbýli kynnu að verða aðrir embættismenn, sem yrði talið nauðsynlegt að láta hafa embættisbústað og kynni að vera mjög þýðingarmikið fyrir viðkomandi héruð að skapa slíkum starfsmönnum ríkisins einnig viðhlítandi starfsaðstöðu. Verði ákvæðinu breytt, svo sem minni hl. leggur til, mundi hér ekki gert ráð fyrir því, að um þann víðtækari skilning yrði að ræða á l., sem frv. gerir ráð fyrir. Þá er enn fremur sá annmarki á brtt., að yrði hún samþ., er einnig úr sögunni heimild til þess að byggja embættisbústaði í þéttbýli, þar sem það kann að vera óumflýjanlegt vegna sérstakra gæzlustarfa, svo sem það er orðað í 2. gr. frv. Það eru viss störf við stofnanir í þéttbýli, sem leiða það af sér, að það er óumflýjanlegt að hafa þar íbúð fyrir gæzlumann eða vissa starfsmenn, sem starfa í viðkomandi stofnun, þar eð þeir verða að vera á staðnum, þannig að yrði brtt. samþ., skilst mér, að það mundi ekki vera heimilt að byggja slíkar íbúðir í þéttbýlinu. Mér sýnist því eftir öllum atvikum málsins og aðstæðum, að það væri ekki til bóta að samþykkja þessar brtt. hv. minni hl., enda þótt eins og ég segi, að þær haggi í rauninni ekki þeirri grundvallarhugsun, sem frv. byggir á.

Út af því, sem frsm. minni hl. n., hv. 3. þm. Vestf., sagði um hugmynd, sem komið hefur fram frá stjórn Prestafélagsins um lánasjóð, vil ég aðeins láta það koma fram, að það var upphaflega í huga mínum sá möguleiki að setja upp lánasjóð, ekki fyrir presta sérstaklega út af prestssetrum, það þykir mér mjög eðlileg niðurstaða, heldur almennan lánasjóð, er yrði andvirði seldra embættisbústaða og þá eftir atvikum einnig sérstök fjárframlög í fjárl. Það voru hins vegar margar ástæður, sem ollu því, að þetta þótti ekki eðlilegt, ekki hvað sízt sú ástæða, að það var mjög erfitt að rökstyðja það, eftir að almennt væri hætt að byggja embættisbústaði, að þá skyldu engu að síður þeir hópar manna, sem áður hefðu haft embættisbústaði, njóta hér eftir sérstakrar lánafyrirgreiðslu til þess að koma sér upp íbúðarhúsnæði. Það hefði þá orðið í rauninni að útfæra þetta miklu víðar og það leitt til þess, að slík lánastarfsemi hefði í rauninni orðið óviðráðanleg eða þá svo lítilvæg, að hún hefði ekki þjónað neinu sérstöku til þess að bæta úr fyrir hinum opinberu starfsmönnum að þessu leyti.

Ég hef ekki áttað mig til hlítar á þeirri brtt. hv. minni hl. að fella niður ákvæði til bráðabirgða, nema því aðeins að það sé skoðun minni hl., að það séu óeðlileg fríðindi, sem opinberum starfsmönnum eru þar veitt, en þau eru þess eðlis, að gert er ráð fyrir, að þau sérhlunnindi, sem nú gilda um húsaleiguákvarðanir í embættisbústöðum, skuli gilda fyrir viðkomandi embættismenn, sem nú eru í þessum störfum. Byggist þetta á því, að það þykir nokkuð vafasamt, þar eð þessir menn hafa með l. fengið tilgreind fríðindi, að afturkalla þau meðan þeir eru í sínu starfi og því sé eðlilegra, enda er það í samræmi við fordæmi, sem oft hefur verið fylgt við slíka lagasetningu, að slík skerðing fríðinda, sem mundi felast í hækkaðri húsaleigu, taki aðeins til nýrra embættismanna eða ef þessir sömu embættismenn skipta um húsnæði. Ég átta mig ekki til hlítar á því, hvað felst í brtt., nema að þetta sé hugsunin, að hv. minni hl. þyki hér óeðlilega gengið til móts við hagsmuni þessara starfsmanna, og brýtur það að vísu nokkuð í bága við þá skoðun, sem lýst hefur verið af þeirra hálfu, að þeir telji alveg brýna nauðsyn að hlynna sem mest að þeim starfsmönnum ríkisins, sem eiga að fá embættisbústaði, þ.e.a.s. þeim, sem verða við störf í strjálbýlinu. Hjá talsmanni hv. minni hl. kom ekki nákvæmlega fram, hvað þeir meintu í þessu efni. Ég tel það auðvitað vel geta komið til mála, ef fylgi væri fyrir því hér í hv. d., að útfæra þetta þannig að fella niður þetta bráðabirgðaákvæði og láta alla embættismenn, sem embættisbústaði hafa, greiða strax frá gildistöku l. þá endurskoðuðu húsaleigu, sem gert er ráð fyrir í frv. En mér þætti hins vegar fróðlegt að fá að vita, hvort það er það, sem vakir fyrir hv. minni hl., eða hvort það er eitthvað annað, sem ég hef þá ekki áttað mig á. En ég mundi sem sagt álíta, að það væri ekki til bóta að breyta frv. í samræmi við skoðanir hv. minni hl. Í því felst ekki á nokkurn hátt andstaða gegn því sjónarmiði, sem fram kemur hjá minni hl., að það sé nauðsynlegt að stuðla að því að styrkja aðstöðu embættismanna í strjálbýlinu, og ég geri nú ráð fyrir því, og reynslan hefur a.m.k. verið sú, að það er að sjálfsögðu oft á tíðum hið mesta vandamál einmitt fyrir ríkisstj. og viðkomandi ráðh. að tryggja það, að embættismenn þessir fáist til starfa í strjálbýlinu, þannig að það ætti að vera nægilegt aðhald í því, að tryggt yrði, að framkvæmd yrði sú hugsun; sem í frv. felst, að byggja yfir embættismennina, sem eru í strjálbýlinu.