19.03.1968
Efri deild: 72. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1236 í B-deild Alþingistíðinda. (1091)

139. mál, íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Brtt. sú, sem hér liggur fyrir, er skrifleg, en hefur að sönnu verið lesin úr ræðustóli einu sinni, og ef ég hef tekið rétt eftir, felur hún það í sér að fella niður úr 10. gr. þessa frv., sem hér er til umræðu, ákvæðið um biskupsbústað í Reykjavík. M.ö.o., að það eigi ekki að vera lögboðið, að ríkið eigi embættisbústað handa biskupinum yfir Íslandi. Ég kvaddi mér hljóðs til þess að vekja athygli hv. dm. á því, að nú liggur hér fyrir þessari hv. d. annað frv., sem kveður svo á, að ríkið skuli selja húseignina Tómasarhaga 14 í Reykjavík, sem mun vera enn eða hafa verið bústaður biskupsins yfir Íslandi, og þess er getið í grg. þessa frv., að ákveðið sé að kaupa aðra húseign hér í bænum í því skyni, að það verði varanlegur biskupsbústaður. Mér sýnist í fljótu bragði, að það sé ekki alls kostar samræmi hér á milli, og ég vil benda á, hvort ekki er ástæða til að athuga þetta mál betur, áður en gengið er til atkvæðagreiðslu um þessa brtt. Ef það er rétt, að það sé búið að festa kaup á húsinu nr. 75 við Bergstaðastræti í Reykjavík í því skyni að hafa þar biskupssetur til frambúðar, eins og segir hér í grg. frv. um sölu Setbergs og fleiri eigna, sýnist vera ástæðulaust a.m.k. að fella niður þetta ákvæði úr frv. um íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins, sem þessi skriflega brtt. fjallar um.