19.03.1968
Efri deild: 72. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1238 í B-deild Alþingistíðinda. (1094)

139. mál, íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það hefur verið lýst hér tveimur brtt. við þetta frv. Önnur er þess efnis, að það skuli tekið fram í frv., að undanþegið sé aðeins forsetasetrið á Bessastöðum. Ekki veit ég, hvort það er af sérstökum kjördæmisáhuga hjá hv. 4. þm. Reykn., að hann vill tryggja það, að hann örugglega sitji í hans kjördæmi svo lengi sem embættið verður við lýði. En ég hef ekkert á móti því, að menn hugsi um kjördæmi sitt og vil taka það fram, að það hefur ekki komið upp í minn huga sú hugmynd, þó að hún kunni að hafa verið látin í ljós að vísu á einum stað, að það yrði farið að byggja hér sérstakt hús fyrir forseta Íslands í Reykjavík, þannig að ég get fúslega fallizt á það sjónarmið, að það sé rétt að styðja Reykjaneskjördæmi í því, að forseti sitji þar, þannig að ég er síður en svo á móti þessari till.

Varðandi biskupsbústaðinn skal ég fúslega játa það, að þetta getur verið álitamál, og fjarri mér sé það að gera tilraun til þess að halda því máli til streitu. Það verður hv. þd. að gera upp við sig, hvort hún telur eðlilegt, að biskupsbústaður sé undanþeginn l. eða ekki. Ég skal játa það, að mér finnst nokkur sérstaða vera varðandi biskupsbústað og því hef ég talið rétt, að þetta væri í frv., en ef hv. dm. skoða það mál frá öðrum sjónarhóli, er það algerlega meinfangalaust af minni hendi. Varðandi það, sem hv. 2. þm. Austf. sagði, held ég, að ef það yrði ofan á, að biskupsbústaður skyldi heldur ekki vera hér í Reykjavík, þurfi sú ákvörðun ekki að vera til hindrunar ákvörðun í því efni, þótt hér sé til meðferðar annað frv. um biskupsbústað, vegna þess, svo sem hér hefur verið fram tekið af öðrum, að gert er ráð fyrir því í frv. um embættisbústaði, eins og það liggur fyrir, að embættisbústaðir þeirra, sem nú hafa embættisbústaði, verði ekki seldir fyrr en þeir víkja úr þeim. Og það er að vísu svo, að biskup er ekki fluttur úr Tómasarhaga, þannig að þá má segja, að strangt tekið yrði að gera kröfu til, að hann væri þá fluttur, áður en frv. yrði að l. En ég held, að það sé nú óeðlilega mikil formfesta. Hinn bústaðurinn hefur verið keyptur, og hér er því aðeins um skipti á bústað að ræða, þar sem biskupsbústaðurinn, sem var, verður seldur í stað þess, sem keyptur hefur verið, þannig að ég mundi álíta, að það lægi nú nokkurn veginn í augum uppi, að í framkvæmd yrði það skilið svo, að núverandi biskup hefði þennan bústað til umráða, nema því aðeins að það yrði niðurstaðan, sem ég skal heldur ekkert um segja og hef ekki nokkurn hlut á móti, að biskupssetrið yrði á einhverju stigi málsins flutt í Skálholt. Þá auðvitað kæmi að því, að þessi biskupsbústaður yrði seldur af öðrum ástæðum. En sem sagt, ég álít ekki, að það mál út af fyrir sig þurfi að hagga því, að efnisleg afstaða sé tekin til þeirrar till., sem hér liggur fyrir, þannig að ekki þurfi að seinka meðferð þessa máls í hv. d. af þeim sökum.