16.04.1968
Neðri deild: 98. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1246 í B-deild Alþingistíðinda. (1104)

139. mál, íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það er fyrst og fremst í tilefni af þeirri rökst. dagskrá, sem hér hefur verið flutt og felur það í sér, að þessu máli verði vísað frá, sem ég vildi segja fáein orð.

Ég vil fyrst láta það koma skýrt fram hér til staðfestingar því, sem frsm. hv. fjhn. sagði, að það er rétt, að það er ekki ætlunin með þeirri breytingu, sem frv. gerir ráð fyrir, að afnema byggingu embættisbústaða út um land, þar sem þeir hafa nú til þessa verið byggðir, heldur að frv. taki til aðalþéttbýlissvæða landsins, þar sem eftirspurn og framboð íbúðarhúsnæðis er með eðlilegum hætti. Það kann auðvitað að vera svo á fleiri stöðum á landinu, að slíkt sé eða hafi verið um eitthvert skeið vegna óvenjulegs atvinnuástands. Við skulum taka t.d., að á vissum stöðum á Austfjörðum kann þetta að vera svo, að það uppfylli þau skilyrði frv., að íbúðarhúsnæði gangi þar kaupum og sölum með eðlilegum hætti, en bæði er, að slíkt getur verið tímabundin aðstaða og eins hitt, að þar kemur til einmitt það, sem vikið hefur verið að af ýmsum, að á hinum afskekktari svæðum eru oft miklir erfiðleikar á að fá embættismenn til þess að setjast að og af þeim sökum óumflýjanlegt að hafa fyrir þá embættishúsnæði. Það er því, eins og sakir standa í dag, ekki nema þéttbýlissvæðin hér, Reykjavík og nágrenni og Akureyri, sem gera má ráð fyrir, að yrðu talin geta fallið undir þessi lög, þar sem hætt yrði að byggja embættisbústaði.

Ástæðan til þess, að það þykir hins vegar rétt að fella úr gildi þessi lög, sem gilda um embættisbústaði, er m.a, sú, að vel getur verið hugsanlegt, að það væru aðrir embættismenn, sem væri ástæða til að byggja yfir. Þessi ákvæði um hina ýmsu embættismannahópa eru úrelt, eins og hér var sagt áðan, og af þeim sökum óeðlilegt að hafa öll þau sérlög í gildi. Þess vegna mundi ég telja, að í almennum lögum, eins og hér er gert ráð fyrir að setja, sé eðlilegast, að settar séu meginreglur, sem þeim aðilum ber svo að setja aðrar reglur eftir, sem það er falið eftir lögunum. Þar er um tvo öryggisventla að ræða; annars vegar þurfa viðkomandi rn. að meta það svo, að þetta sé nauðsynlegt út frá þeim sjónarmiðum, sem ég hef hér lýst, og í annan stað kemur það til, sem eru aukin áhrif Alþ. að vissu leyti frá því, sem nú er, að það er ekki hægt að ráðast í kaup á íbúðarhúsnæði fyrir embættismenn eða byggingu þess, án þess að samþykki Alþ. komi til, þ.e.a.s. fjárveiting hverju sinni. Þó þetta hafi verið í lögum hingað til, að gert sé ráð fyrir, að tilteknir embættismenn hafi embættisbústaði, þá hefur það ekki verið ákveðið af Alþ., hvar slíka bústaði eigi að byggja. Það hefur að vísu verið háð fjárveitingum hverju sinni, en hins vegar hefur Alþ. ekki ákveðið það, hvar skuli byggt, heldur viðkomandi rn. algjörlega upp á eigin spýtur.

Nú er því haldið fram í sambandi við þá rökst. dagskrá, sem hér er flutt, að út af fyrir sig sé góð og nytsamleg hugsun í þessu frv., en það sé laklega undirbúið. Þetta get ég ekki fallizt á, því þó það séu starfsmenn stjórnardeildar, sem hafa undirbúið það, þá hefur málið verið mjög rækilega kannað frá öllum hliðum, og ég hygg, að fáir þekki það betur en einmitt þeir menn í stjórnardeildunum, sem sérstaklega hafa haft með að gera vandamál embættisbústaðanna, hver í sínu rn., hvernig þarfirnar eru í þessum efnum, því að kröfur embættismanna um embættisbústaði mæða að sjálfsögðu mest á ráðuneytunum þannig, að ég held ekki að það sé hægt að undirbúa málið betur heldur en með þessum hætti. Ég sé því ekki rökin fyrir því að vísa þessu máli frá. Ég álít, að það sé mikilvægt mál til þess að leiðrétta óeðlilega þróun, það skipti veigamiklu máli varðandi sparnað í ríkisbúskapnum á næstunni og það sé þess vegna mál, sem hv. Alþ. eigi að ljá liðsinni sitt til að hægt sé að koma í eðlilegt horf. Af þessum sökum hlýt ég að leggja á það áherzlu, að frv. verði samþ. og vænti þess, að hv d. geti fallizt á till. meiri hl. fjhn. um það efni.

Varðandi till. hv. 6. þm. Reykv., sem hann flytur hér, til þess að laga smíðagalla á frv., verð ég því miður að segja, að á till. er dálítill smíðagalli líka, þannig að mér finnst dálítið erfitt að fallast á hana, hvað sem líður hugsuninni, sem á bak við er. Ég skal ekki hafa á móti því, að biskup sitji í Skálholti, síður en svo, en eins og hv. flm. sagði sjálfur, er ekki hlutverk þessa frv. að ákveða, að hann skuli sitja í Skálholti, heldur vill hann gera það ljóst, að ef kirkjunni þóknaðist að flytja hann til Skálholts, þá skuli hann eiga þar húsakost. Þessi smíðagalli er í því fólginn, að frv., eins og það er, gerir beinlínis ráð fyrir því, að bannið við íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins til handa embættismönnum nái ekki til strjálbýlissvæða. Árnessýsla er tvímælalaust á því svæði, þar sem embættismenn mundu fá bústað samkv. lögum, og af því leiðir, að það er alveg óeðlilegt að segja það, að lögin skuli ekki ná til embættisbústaðar í Skálholti, því þau ná ekki til þess samkv. hljóðan 2. gr., það er alveg ótvírætt, og af þessum sökum skilst mér, að það sé ekki eðlilegt — hvaða efnislega skoðun sem menn hafa á biskupssetri — að taka inn brtt. með þessum hætti. Hitt er allt annað mál, að ef það er sú hugsun, sem vakir fyrir hv. þm., að biskupssetur í Reykjavík eigi ekki að vera áfram í eigu ríkisins, þá er auðvitað eðlilegt að flytja sams konar till. um það eins og gert var í Ed., af því að ég hygg nú, að hv. Nd.-menn séu ekki það skyni skroppnir, að þeir sjái ekki, hvað liggur í þessari till., enda tók hv, flm. það fram, að náttúrlega fælist það í till., að það ætti að leggja niður biskupsbústaðinn í Reykjavík, en það er auðvitað fullkomlega eðlileg meðferð að flytja slíka till., ef menn að öðru leyti vildu á hana fallast, að lögin næðu ekki til biskupsbústaðar í Reykjavík. Um það að takmarka forsetaembættisbústaðinn við forsetasetrið á Bessastöðum, þá var það aftur á móti eðlilegt, vegna þess að Bessastaðir eru á þéttbýlissvæðinu og það mundi ekki hafa náð til þeirra, nema það væri sérstaklega tekið fram. Af þessum sökum er hér um annars eðlis mál að ræða, sem ég efa ekki, að hv. þm. áttar sig fullkomlega á, þegar hann íhugar það mál betur.