16.04.1968
Neðri deild: 98. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1251 í B-deild Alþingistíðinda. (1109)

139. mál, íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það var aðeins til þess að koma í veg fyrir misskilning. Hv. 5. þm. Austf. vitnaði til 9. gr. frv. máli sínu til stuðnings og taldi, að það væri hætt við, að það yrði útfært víðar en ég gerði grein fyrir í mínu máli, hvar embættisbústaðir yrðu seldir, vegna þess að þar væri talað um, að íbúðarhúsnæði skyldi selt á svæðum, þar sem eðlilegur markaður hefði skapazt. Vitanlega ber að skilja 9. gr. með hliðsjón af 2. gr., vegna þess að 9. gr. er aðeins ákvæði um það, hvernig eigi að fara með bústaði, sem ber að selja. Í fyrsta lagi, að þeir skuli seldir og í öðru lagi, með hvaða hætti þeir skulu seldir, en 2. gr. er náttúrlega meginstefna frv., alveg eins og hv. 1. þm. Norðurl. e. réttilega komst að orði, og vonast ég til, að það þurfi því ekki að valda neinum misskilningi.

Ég vil ekki fara að blanda mér í þetta Skálholtsmál að öðru leyti en því, að ég kann ekki við það, að það sé verið að forklúðra málið, ef svo má segja. Menn geta haft sínar skoðanir um, að biskup eigi að sitja í Skálholti, og það væri ekkert athugavert við það, þó hv. þm. flyttu um það frv. eða þáltill. eða tækju það mál upp með einhverjum hætti, að biskup ætti að vera í Skálholti, en ég held, að það liggi alveg í augum uppi, að það að fara að samþykkja hér inn í þetta frv., 10. gr. þess, undanþáguákvæði, eins og gert er ráð fyrir í brtt., það er algjörlega andstætt allri eðlilegri uppbyggingu frv. og það fæst ekki út úr því nein heil hugsun, ef svo má segja, vegna þess að í fyrsta lagi er enginn bústaður í Skálholti og frv. ákveður ekki um það, að hann skuli byggður. A.m.k. vona ég, að það sé ekki hugsunin, því ekki þætti mér gaman að sitja uppi með bæði biskupsbústað í Skálholti og í Reykjavík, því að biskupsbústaðurinn í Reykjavík yrði þó ekki samkv. frv. seldur, fyrr en núv. biskup viki þaðan, og ekki langar mig til, og ég býst ekki heldur við, að það sé hugsun flm., að yrði farið að byggja núna annan bústað í Skálholti. Það hefur hins vegar komið fram hugmynd um það á kirkjuþingi, held ég sé, að það gæti verið gott, að það væru til fleiri bústaðir fyrir biskup, að hann gæti verið í Skálholti eða í Reykjavík eftir atvikum. Það býst ég ekki við, að vaki fyrir flm., en af þeirri ástæðu vildi ég nú sannast sagna helzt fara fram á það, að hann taki till. aftur vegna þess, að verði reist hús í Skálholti, þá taka l. ekki til þess. Það er alveg ljóst samkv. 2. gr., þannig að það þarf ekki að taka það fram. Ástæðan til upptalningarinnar í 10. gr. er beinlínis sú, að ef sú upptalning væri ekki til staðar, þá ætti að selja þá bústaði, sem þar um ræðir. Það er alveg ljóst mál, bæði um embættissetur forseta Íslands og biskupsbústað í Reykjavík, að það yrði að selja þá samkv. almennum reglum frv. Um bústaði sendiherra Íslands erlendis mundi væntanlega gilda það sama, alla vega eru þeir í þéttbýli og varla mundi verða talið, að hinn annmarkinn væri þar á, að menn fengjust ekki til að gegna stöðunum, þannig að af þeim sökum er nauðsynlegt að hafa þetta ákvæði í 10. gr.