16.04.1968
Neðri deild: 98. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1254 í B-deild Alþingistíðinda. (1111)

139. mál, íbúðarhúsnæði í eigu ríkisins

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð vegna þess, að hæstv. fjmrh. bað mig um að draga brtt. mína til baka. Í andmælum sínum beitir hæstv. ráðh. einvörðungu formlegum röksemdum. Hann heldur því fram, að þessi brtt. falli ekki inn í frv. eins og það er. En þetta get ég ómögulega samþykkt. Í 10. gr., sem ég gerði brtt. við, segir svo: „Lög þessi taka hvorki til“ o.s.frv. — það er að segja lögin í heild. Þar er ekki um að ræða ákvæði 2. gr., heldur l. í heild, og þarna eru teknir út úr nokkrir sérstakir embættisbústaðir, ekki aðeins hér á landi, heldur einnig erlendis, þannig að ég fæ ekki betur séð en till. mín falli mjög eðlilega inn í frv. og að hún sníði raunar af því þá smíðagalla, sem ég vakti athygli á í ræðu minni hér áðan. Mér hefði þótt það miklu forvitnilegra, ef hæstv. fjmrh. hefði gert einhverja skiljanlega grein fyrir því, hvers vegna einn einasti embættismaður á Íslandi er eftirskilinn með embættisbústað í Reykjavík. Um það hefur hæstv. ráðh. ekki sagt eitt einasta orð, og mér er ómögulegt að skilja, hvers vegna taka á út úr þennan eina embættismann og tryggja honum einum embættisbústað í Reykjavík. Hitt vil ég benda hæstv. ráðh. á, að það liggur hér fiskur undir steini, sem hv. 2. þm. Norðurl. v. benti hér á áðan. Það eru uppi hugmyndir um það að fjölga biskupum á Íslandi í þrjá, og þetta Skálholtsævintýri, sem ráðizt hefur verið í, á að vera aðdragandi að því, að hægt sé að koma þeirri skipan á. Ég hafði skilið hæstv. ráðh. þannig, að hann væri ekki ýkja ginnkeyptur fyrir því að fjölga embættismönnum að óþörfu, eins og nú standa sakir, þannig að ég hefði haldið, að hæstv. ráðh. ætti að taka því fegins hendi, þegar reynt er að sporna við því, að sú þróun verði. Ég held líka, að það hefði verið afar æskilegt fyrir þann mann, sem hefur umsjón með fjármálum ríkisins nú, ef hægt hefði verið að koma því þannig fyrir, að sá bústaður, sem núna er í Skálholti og ekki þarf að byggja, verði notaður sem biskupsbústaður og að hæstv. ráðh. geti þá gengizt fyrir því að það hús, sem nýlega var keypt hér í Reykjavík handa biskupsembættinu á 4 millj. kr., og síðan þurfti að lagfæra fyrir, að ég hygg, 2-3 millj., komist aftur í verð og þeir fjármunir verði hagnýttir til einhverrar annarrar og meiri nauðsynjar.