26.03.1968
Efri deild: 75. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1283 í B-deild Alþingistíðinda. (1194)

171. mál, Stofnfjársjóður fiskiskipa

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Annars vegar gerir þetta frv. ráð fyrir 124 millj. kr. greiðslu til styrktar þorskveiðiflotanum, en sú upphæð er veitt úr ríkissjóði samkv. öðru frv., sem nú er fyrir þinginu. Hins vegar fjallar frv. um notkun þessarar upphæðar, en þar er stefnt að því fyrst og fremst að auðvelda skipaeigendum greiðslu afborgana og vaxta af stofnlánum skipa sinna. Við fiskverðsákvarðanir undanfarin ár hefur þeirri stefnu verið fylgt, að sjómenn á þorskveiðiflotanum skyldu a.m.k. halda í við aðrar starfsgreinar, að því er tekjur snertir, miðað við þann afla, sem vænta má. Þessari meginstefnu var enn fylgt í vetur við ákvörðun á fiskverðinu fyrir árið 1968. Með úrskurði oddamanns í yfirdómi verðlagsráðs um verð á þorski o.fl. í jan. s.l., var ákveðin 10% hækkun, og var þá miðað við það, að sjómenn fengju hækkun á sínum tekjum, sem telja mætti eðlilega miðað við þær hækkanir, sem aðrar starfsgreinar í landi höfðu fengið á árinu.

Nú kom hins vegar upp vandamál, sem stóð annars vegar í sambandi við gengislækkunina, en hins vegar í sambandi við hlutaskipti. Fyrir áhrif gengisbreytingarinnar hlaut að verða veruleg hækkun á ýmsum veigamiklum kostnaðarliðum útgerðarinnar. Hins vegar varð það augljóst, að með þeim hlutaskiptum, sem í gildi eru, hrökk 10% fiskverðshækkun, sem tryggði sjómönnum þá afkomu, sem áður getur, hvergi nærri til þess, að veiðiskipin gætu vænzt viðunandi afkomu á þorskveiðum á þessu ári. Var þá miðað við árið 1965, sem talið var sæmilegt ár, en hins vegar gengið út frá aflamagni eins og það var 1966 og að því stefnt, að afkoman gæti orðið svipuð á árinu 1968 og verið hafði út frá þessum forsendum árið 1965.

Þegar tekið hafði verið tillit til alls þessa, var augljóst, að ekki varð hjá því komizt, ef tryggja átti þorskveiðiútgerðinni þessa afkomu, að sjá henni fyrir beinu framlagi í einni eða annarri mynd. Við fiskverðsákvörðunina var því yfir lýst af oddamanni, að ríkisstj. hefði heitið greiðslu, 124 millj. kr., úr ríkissjóði til þorskveiðiútgerðarinnar á árinu 1968, en jafnframt var ákveðið, til hvers þetta fé skyldi notað.

Efling fiskveiðasjóðs á undanförnum árum hefur gert honum kleift að standa undir hinni stórkostlegu endurnýjun og aukningu fiskiskipaflotans undanfarin ár. Áframhaldandi uppbygging og efling sjóðsins byggist á því, að afkoma útgerðarinnar sé góð, svo að hún geti greitt vexti og afborganir af lánum sínum í fiskveiðasjóðinn. Verði það ekki, er sjóðurinn í hættu og geta hans til þess að standa undir viðhaldi og endurnýjun flotans þá einnig. Einmitt þetta kom fljótt í ljós, þegar halla tók undan fæti að því er varðaði afkomu fiskiflotans. Fyrst kom þetta til með þann flota minni skipa, er stunda þorskveiðar, en síðan bættist síldveiðiflotinn við, er síldveiðiaflinn brást á árinu 1967. Þessar breytingar á afkomu fiskiskipaflotans til hins verra komu fljótlega fram í getuleysi eigenda bátanna til að standa í skilum með greiðslur vaxta og afborgana af stofnlánum skipanna í fiskveiðasjóði.

Fyrri hluta ársins 1967 var tekin sú ákvörðun að gera sérstakar ráðstafanir til þess að auðvelda eigendum hinna minni þorskveiðiskipa að standa í skilum við fiskveiðasjóð, en allmikil vanskil höfðu safnazt þar fyrir á undangengnum tímabilum. Þessar ráðstafanir þýddu hins vegar það, að í bili yrðu tekjur fiskveiðasjóðs af vöxtum og afborgunum af þessum skipalánum minni á því ári en átt hefðu að vera að réttu lagi. Enn alvarlegra var þó það áfall, sem síldveiðarnar orsökuðu síðari hluta ársins 1967, því að einmitt sá floti, sem síldveiðarnar stundar, hafði fram að þeim tíma haft mun betri aðstöðu en hin minni skip til að standa í skilum með skuldbindingar sínar við fiskveiðasjóð. Hið stórkostlega tekjutap síldveiðiflotans leiddi óhjákvæmilega af sér getuleysi þessa flota til þess að standa í skilum með greiðslur afborgana og vaxta af stofnlánum skipanna, og eftir atvikum taldi stjórn fiskveiðasjóðs þá, að ekki yrði hjá því komizt að veita þessum flota frest á greiðslum afborgana, sem enn hlaut að þýða verulegan tekjumissi fyrir sjóðinn. Hér var að sjálfsögðu um algera neyðarráðstöfun að ræða, sem mótaðist af því erfiða ástandi, sem veiðibresturinn á síldveiðunum og erfiðleikarnir yfirleitt við síldveiðar s.l. ár höfðu skapað.

Þegar litið er á þessar staðreyndir, var það eðlilegt, þegar til þess kom að greiða beint framlag til styrktar þorskveiðiflotanum, að það framlag yrði þá fyrst og fremst notað til þess að auðvelda mönnum að standa í skilum með greiðslu afborgana og vaxta á þeim lánum, sem á skipunum hvíla. Þegar á það er litið, að mestur hluti þeirra stofnlána, sem á skipunum hvíla, er úr fiskveiðasjóði, var það einnig Ijóst, að slík ráðstöfun mundi færa fiskveiðasjóði nokkrar tekjur og auðvelda honum jafnframt innheimtu á vöxtum og afborgunum af skipalánum.

Frv. gerir því ráð fyrir, að sett verði upp sérstök deild við Fiskveiðasjóð Íslands og muni hún taka við fyrrgreindri greiðslu ríkissjóðs á árinu 1968, en þeim peningum, sem þannig koma, verði fyrst og fremst varið til greiðslu afborgana og vaxta af lánum úr fiskveiðasjóði. Svo sem greinilega kemur fram í frv., er meginregla þess sú, að greiðslur úr sjóðnum séu vegna stofnfjárskulda. Skipting framlags ríkissjóðs til sjóðsins á milli skipanna ákvarðast af aflaverðmæti þeirra á árinu 1968 á þorskveiðum, en þær undantekningar eru þó gerðar, að þetta nær ekki til togaranna, enda var í umr. um þetta í vetur út frá því gengið við fulltrúa útvegsmanna, og enn fremur, eins og áður segir, nær þetta aðeins til þorskveiðiflotans og því eru undanskildar síldveiðar og einnig rækjuafli og loks sá afli, sem landað er úr veiðiskipi til sölu erlendis. Hins vegar nær þetta til afla á humarveiðum, enda má segja, að þar sé einnig um blandaðar veiðar að ræða, þar sem nokkuð veiðist af bolfiski um leið og humarinn er veiddur.

Skipting sjóðsins á milli fiskiskipanna byggist á skýrslum frá Fiskifélagi Íslands um afla og aflaverðmæti fiskiskipanna á þeim veiðum, sem hér koma til með að heyra undir. Hvert það fiskiskip, sem þetta nær til, fær því sama hundraðshluta úr þessum sjóði í sinn hlut eins og aflaverðmæti þess skips nemur af heildarverðmæti allra þeirra skipa, sem þetta nær til.

Eftir að sinnt hefur verið meginhlutverki þessa sjóðs, þ.e. að greiða meginverð skipanna hjá stofnfjársjóði, gjaldfallnar afborganir og vexti og annan kostnað af lánum úr fiskveiðasjóði, sem tryggð eru með veði í skipinu, getur svo að sjálfsögðu farið, að eftirstöðvar verði á innstæðum einstakra skipa í stofnfjársjóðnum sjálfum. Í 8. og 9. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að ef slík tilfelli koma fyrir, geti eigandi skips, sem innstæðuna á í stofnfjársjóði, notað það, sem þannig verður eftir af fénu, til ýmiss konar annarra greiðslna, en þó verður heimild fiskveiðasjóðs að koma til, áður en af slíku getur orðið. Þar má t.d. nefna, að til greina koma greiðslur til annarra opinberra sjóða og einnig greiðsla kostnaðar við vélaskipti í skipinu eða endurbætur á því, en það er sameiginlegt öllum þessum greiðslum, að þær tilheyra stofnkostnaði skipsins eða þá meiri háttar framkvæmdum í sjávarútvegi.

Það er augljóst, að ráðstöfun á þessu fé samkv. 8. og 9. gr. getur skipt allmiklu máli fyrir innstæðueigendur, þar sem þar er um margvíslega möguleika að ræða, sem geta haft áhrif á rekstur þeirra. Það er því eðlilegt að gera ráð fyrir því, að fulltrúar samtaka útvegsmanna geti átt kost á því að láta í té umsögn, áður en kemur til ákvarðana um ráðstöfun á innstæðum samkv. fyrrnefndum greinum. Þá verður að gera ráð fyrir því tilviki, að innstæða sé í stofnfjársjóði eftir að allar gjaldfallnar greiðslur vegna stofnlána skipsins hafa verið greiddar og það enn fremur, að ekki sé fyrirsjáanlegt eða líklegt, að viðkomandi aðili muni ráðast í neinar þær framkvæmdir, sem gert er ráð fyrir að verja megi fé til. Gæti þá svo farið, að fé yrði fast í stofnfjársjóði og lægi þar ónotað, þar sem enginn grundvöllur væri til að ráðstafa því til þeirra þarfa, sem frv. annars gerir ráð fyrir. Það verður því að teljast eðlilegt, að undir slíkum kringumstæðum sé heimild til þess að greiða skipseiganda innstæðu skipsins hjá stofnfjársjóði, eins og gert er ráð fyrir í 10. gr. frv.

Þar sem innstæður í stofnfjársjóði eru ætlaðar til greiðslu tiltekinna gjalda vegna skipsins, eins og fyrst og fremst er ákveðið í 7. gr. frv. og einnig í 8. og 9. gr., verður ekki hjá því komizt að tryggja, að ekki megi leggja löghald á þessar innstæður eða taka þær fjárnámi eða lögtaki og enn fremur að óheimilt sé að veðsetja eða ávísa á innstæður, og þannig eru ákvæði 11. gr. til komin. Það er augljóst, að innstæða getur aðeins myndazt í stofnfjársjóði í sambandi við aflaverðmæti skipsins og því er það eðlilegt, að innstæða fylgi skipinu undir öllum kringumstæðum. Vegna þess er einnig nauðsynlegt að tryggja það, að nafni skips, umdæmisbókstöfum og umdæmisnúmeri verði ekki breytt, nema fiskveiðasjóður hafi gefið til þess leyfi sitt, en ákvarðanir um þessi atriði eru í 12. og 13. gr. frv.

Gert er ráð fyrir því, að lög þessi taki þegar gildi, en til þess að allur afli ársins verði reiknaður með í aflaverðmæti þessa flota, sem frv. tekur til, var nauðsynlegt að hafa um það ákvæði, eins og er í 15. gr. frv., að ákvæði þessi um aflaverðmæti nái til tímabilsins frá ársbyrjun 1968, því að skipting sjóðsins hlýtur að miðast við aflaverðmæti alls ársins 1968.

Þegar kunnugt varð um þetta framlag ríkissjóðs í sambandi við fiskverðsákvörðunina 15. jan. s.l. má gera ráð fyrir því, að þau tilvik hafi verið, að fiskiskip hafi verið leigð til lengri eða skemmri tíma á árinu 1968. Með því að mönnum var fyrir þann tíma ekki kunnugt um, að þetta framlag kæmi, hefur ekki verið hægt að gera ráð fyrir því í þeim leigusamningum, sem til urðu fyrir þennan tíma. Þar sem innstæða í stofnfjársjóði er bundin við skip, en myndast hins vegar af aflaverðmætinu, er óhjákvæmilegt að gera ráð fyrir því, að leigutaki skips fái notið þeirra tekna, sem af aflaverðmæti skipsins leiðir, þar sem í leigusamningi hefur verið gert ráð fyrir því, eðli málsins samkv., að skipseigandi greiddi af stofnlánum skipsins. Bráðabirgðaákvæðið gerir því ráð fyrir þessum möguleika, að heimilt sé að draga það fé frá leigufjárhæðinni, sem aflaverðmæti á leigutímanum veitir rétt til úr stofnfjársjóði fiskiskipa. Í leigusamningum, sem gerðir hafa verið eftir að kunnugt varð um þetta framlag, verður að gera ráð fyrir, að tillit sé tekið til framlagsins, sem frv. gerir ráð fyrir.

Hitt bráðabirgðaákvæðið er staðfesting á samkomulagi, sem gert var í verðlagsráði sjávarútvegsins í sambandi við verðlagningu á síld til bræðslu á tímabilinu jan.-febr. 1968. Samkv. Þessu ákvæði eiga eigendur fiskiskipa, sem stunduðu síldveiðar á tímabilinu 1. jan.-29. febr., rétt til þátttöku í stofnfjársjóði, og er þetta eina undantekningin í frv. frá þeirri reglu, að síldveiðiskip skuli ekki tekin með. Til að standa undir kostnaði af þessari þátttöku greiðist stofnfjársjóði 1 millj. kr. af stofnframlagi til verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins, samkv. ákvæðum í lögum um ráðstafanir á gengishagnaði af útfluttum sjávarafurðum, sem samþ. voru í des. s.l. Um skiptingu þessarar fjárhæðar milli fiskiskipanna, sem þátt tóku í síldveiðum á þessu tímabili, og um ráðstöfun innstæðna fer að sjálfsögðu eftir sömu reglum og almennt eru í frv.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa um frv. fleiri orð á þessu stigi málsins, nema frekara tilefni gefist til, en legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.