09.04.1968
Neðri deild: 95. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1400 í B-deild Alþingistíðinda. (1297)

187. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1968

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er um að afla heimildar fyrir ríkisstj. til lántöku vegna framkvæmdaáætlunar ríkisins fyrir árið 1968. Áður en ég vík að því að skýra frv. og lántökuheimildirnar, vildi ég aðeins fara örfáum orðum um málið í heild og hvaða viðfangsefni hér hefur verið við að glíma. Ég skal í því sambandi geta þess, að núna í næstu viku mun ég flytja Alþ. yfirlitsskýrslu um framkvæmdaáætlunina og yfirlit um þróun efnahagsmála á s.l. ári og framkvæmd þeirrar áætlunar, sem gilti fyrir það ár.

Þegar fjárlög voru til afgreiðslu hér fyrir áramótin varð mönnum það ljóst í sambandi við undirbúning þeirra, að vegna ástands í efnahagsmálum og peningamálum væru horfur á því, að mjög þröngt yrði á lánamarkaði á árinu 1968. Það var því þá þegar gerð bráðabirgðaframkvæmdaáætlun fyrir ýmsar helztu ríkisframkvæmdir, til þess að gera sér grein fyrir því, hvaða viðfangsefni væri hér við að fást, hvaða framkvæmdir það væru fyrst og fremst, sem óumflýjanlegt væri að afla fjár til. Með hliðsjón af þessum erfiðu horfum um fjáröflun var farið inn á þá braut, sem hv. Alþ. var þá gerð grein fyrir, að teknar voru inn í fjárlög allverulegar fjárhæðir til ýmissa framkvæmda, sem áður höfðu verið fjármagnaðar innan framkvæmdaáætlunarinnar, og var þannig ætlunin að létta verulega á um lánsfjáröflun á hinum almenna lánsfjármarkaði í landinu. Síðan gerðist það, sem hv. þdm. er kunnugt, að eftir áramótin varð að grípa til nýrra aðgerða til aðstoðar sjávarútveginum, sem leiddu af sér mjög veruleg ný útgjöld fyrir ríkissjóð, og í sambandi við lausn þess vanda kom í ljós, að það mundi vanta um 60 millj. kr. til þess að ná saman endum. Var því ekki um að ræða nema þrjá möguleika: að leggja á nýja skatta til þess að afla þessa fjár, hætta við þessar framkvæmdir eða í þriðja lagi að gera tilraun til þess að afla lánsfjár til framkvæmdanna. Enda þótt vitað væri, að aðstæður höfðu síður en svo breytzt til batnaðar á hinum almenna peninga- og lánsfjármarkaði, var þó horfið að því ráði að freista þess, og þá með nýjar aðgerðir í huga til lánsfjáröflunar, að taka þessar 62 millj. kr. út úr fjárl. og reyna að afla fjár til þeirra innan ramma framkvæmdaáætlunar ársins 1968.

Miðað við allar aðstæður í efnahags- og peningamálum var það auðvitað hið eðlilegasta að skera verulega niður framkvæmdir á árinu 1968. Það var eðlilegt, eðlileg viðbrögð að sjálfsögðu, miðað við erfiðleikana á að afla fjár. Ríkisstj. hvarf hins vegar ekki að þessu ráði. Ekki voru framkvæmdir skornar niður að neinu ráði, og raunar var um beinar aukningar að ræða í mörgum greinum á framlögum til verklegra framkvæmda í fjárl. ársins 1968 og þegar leitað var sérstakrar heimildar til þess að draga úr ríkisútgjöldum nú eftir áramótin, var einnig þeirri meginstefnu fylgt að draga ekki úr fjárfestingum eða framlögum til verklegra framkvæmda að neinu ráði. Þetta byggðist á því, að mönnum var ljóst vegna ýmiss konar samdráttar í atvinnulífi, að það væri mjög erfitt, ef grípa þyrfti til þess neyðarúrræðis nú að láta erfiðleikana í fjáröflunarmálum verða þess valdandi, að verulega þyrfti að draga úr opinberum framkvæmdum. Þetta kom jafnframt í ljós í sambandi við kjarasamningana nú eftir áramótin, að verkalýðsfélögin lögðu að sjálfsögðu á það verulega áherzlu, að reynt yrði að halda í horfinu og út frá því var gengið, að ríkisstj. mundi reyna að miða framkvæmdaáætlun sína fyrir árið 1968 við þá meginstefnu að framkvæmdir yrðu svipaðar og þær voru á s.l. ári.

Þetta sjónarmið, sem látið hefur verið einnig ráða í sambandi við undirbúning framkvæmdaáætlunarinnar, hefur að sjálfsögðu skapað veruleg ný vandamál. Framkvæmdaáætlunin er að heildarupphæð, eins og fskj. með frv. bendir til, 575 millj. kr., en var 521 millj. árið 1967. Nú segir þetta að sjálfsögðu ekki nema lítinn þátt þeirrar sögu, hvað opinberar framkvæmdir séu miklar í landinu á hverju ári, vegna þess að þessi fjáröflun innan framkvæmdaáætlunarinnar, bæði til fjárfestingarlánasjóða og til ýmissa einstakra ríkisframkvæmda er ekki nema mikill minni hluti þess fjár, sem árlega er varið til opinberrar fjárfestingar eða fjármunamyndunar, bæði á vegum ríkis og sveitarfélaga. Og þegar það mál er skoðað niður í kjölinn, kemur einnig í ljós, að þar er um aukningu að ræða á árinu 1968. Ef fjármunamyndun hins opinbera er tekin samtals, varð hún á árinu 1967, miðað við verðlag þess árs, 2 milljarðar 490 millj., en verður á næsta ári, miðað við þær áætlanir, sem fyrir liggja, 2 milljarðar 770 millj., miðað við verðlag ársins 1967, en upphæðin sjálf á verðlagi ársins 1968 er 3 milljarðar 210 millj. kr. Ég mun ekki fara lengra út í þessa sálma hér, vegna þess að fyrir þessum tölum öllum mun verða gerð nánari grein í skýrslu minni til þingsins nú í næstu viku, en nefni þetta aðeins til þess að gefa heildarmynd af því, hvernig horfur eru í þessum efnum.

Fjáröflun innan framkvæmdaáætlunar ríkisstj. er tvíþætt. Annars vegar er fjáröflun til fjárfestingarlánasjóða atvinnuveganna og hins vegar fjáröflun til ýmissa opinberra framkvæmda. Fjáröflun til framkvæmdasjóðanna er nú á vegum Framkvæmdasjóðs Íslands, en er hins vegar tekin með í framkvæmdaáætlunina, vegna þess að innan hennar þarf að sjá fyrir fé til handa framkvæmdasjóðnum, sem hann svo aftur endurláni til sjóðanna.

Það er nauðsynlegt í rauninni, áður en horfið er að útgjaldamálunum, að gera sér grein fyrir þeim mörkum, sem voru á tekjuáætlunarmöguleikum, vegna þess að auðvitað er ótal margt, sem æskilegt væri að afla fjár til. Bæði hefði verið þörf á því, að sjóðirnir hefðu fengið meira fé og jafnframt áreiðanlega verið frá margra sjónarmiði þörf á því að verja meira fé til ýmiss konar opinberra framkvæmda. Þess vegna vildi ég leyfa mér að snúa mér fyrst að því að gera lítillega grein fyrir þeim peninga- eða fjáröflunarmöguleikum, sem til staðar voru og varð að miða útgjöldin við.

Í þessum efnum, eins og ég áðan sagði, er hagurinn allur miklu verri en á s.l. ári, og var það þó tilviljun að ýmsu leyti, hvernig það ár kom út. Í fyrsta lagi voru til ráðstöfunar á því ári 57 millj. kr. af greiðsluafgangi ársins 1966. Það fé er auðvitað ekki til staðar fyrir árið 1968.

Í öðru lagi var gert ráð fyrir að afla 125 millj. með sölu spariskírteina á árinu 1967. Það var ljóst, þegar leið á árið, að það var engin von til þess, að þessi spariskírteini seldust. Þau seldust að vísu öll, en það var af sérstökum ástæðum og vegna þess, að gengisbreytingin kom til og olli því, að menn keyptu þá verulegt magn af þessum spariskírteinum og má segja, að þar hafi verið hyggilegri fjárráðstöfun en margt annað, sem gert var í því sambandi á vegum borgaranna. En með þessum hætti tókst að afla þessa fjár á s.l. ári.

Það var hins vegar alveg ljóst, enda hygg ég, að það geti varla orðið deiluefni hér á hinu háa Alþ., að auðvitað fer því víðs fjarri, að nokkur von sé til þess að selja slíkt magn spariskírteina á þessu ári. Og jafnvel þó að það væri hægt, er svo þröngt á lánamarkaði til þess að mæta fjárþörfum atvinnuveganna, að þess er enginn kostur að leggja slíka byrði á lánamarkaðinn.

Upphaflega var ætlunin að bjóða aðeins út 50 millj. í nýju spariskírteinaláni í ár, en við erfiðleikana á að koma saman framkvæmdaáætluninni, varð þó að spenna bogann nokkru hærra og fara upp í 75 millj. kr., sem er algert hámark þess, sem nokkur von er til, að hægt sé að selja, og raunar djarft spilað. Af þessu leiðir, að um er að ræða 50 millj. kr. minni möguleika til þessarar fjáröflunar en á s.l. ári. Gert er ráð fyrir að PL-480 lán fáist á þessu ári svipuð upphæð og á s.l. ári, og er reiknað með því í fjáröfluninni.

Það hefur verið föst venja undanfarin ár að semja við viðskiptabankana um það, að þeir legðu 10% af sparifjáraukningu sinni eða innlánsfjáraukningu til framkvæmdaáætlunarinnar, og hefur það fé verið látið ganga til fjárfestingarlánasjóðanna. Sparifjáraukning hefur minnkað mjög að undanförnu, minnkaði stórlega á s.l. ári og það, sem af er þessu ári, benda horfur til þess, að hún verði enn minni í ár. Það er því áreiðanlega teflt á tæpt vað með því að áætla, að þessi möguleiki geti gefið nú um 50 millj. kr., svo sem gert er ráð fyrir í þeim áætlunum sem gerðar hafa verið um þessa fjáröflun. Þegar þetta var skoðað og við höfðum þessar tölur fyrir okkur miðað við útgjaldaþörfina, var það augljóst mál, að þess var enginn kostur að ná saman endum, nema þá með stórfelldum niðurskurði verklegra framkvæmda og raunar illmögulegt, vegna þess að í mörgum greinum var ríkið bundið með samningum í sambandi við útboð verka. Það varð að standa straum af skuldum, sem varð að greiða árgjöld af, og ýmsar aðrar aðstæður voru þannig, að það var illframkvæmanlegt. Það var þá í rauninni ekki annað fyrir hendi til viðbótarfjáröflunar en að kanna möguleikana á því að taka erlend lán og það hefur verið í athugun nú að undanförnu. Seðlabankinn hefur annazt könnun þess fyrir ríkisstj. hvort möguleiki væri á að afla erlends láns.

Ég skal hins vegar játa það fúslega, að taka á erlendu láni til almennra framkvæmda í landinu er mjög varhugaverð og verður að gerast af mikilli varúð og réttlætist ekki, nema um sé að ræða sérstæðar aðstæður, sem telja verður að nú séu fyrir hendi miðað við þann samdrátt, sem í ýmsum greinum hefur orðið í atvinnulífinu. Það er það eitt, sem réttlætir slíka lántöku til almennra framkvæmda, vegna þess að við þurfum á næstunni að leita á náðir erlendra lánastofnana með verulegar lántökur. M.a. hefur verið talað um vegamálin í því sambandi, og ýmis önnur mannvirki koma þar til greina, en eftir því sem við tökum meira af erlendum lánum, því minni verða möguleikar okkar á því að taka erlend lán til viðbótar. Þetta liggur í augum uppi, og því verður að sýna fulla varúð í þessu efni. En engu að síður sér ríkisstj. ekki annað ráð til þess að koma þessari famkvæmdaáætlun saman en leita heimildar Alþ. til að taka erlend lán, er nemi að jafnvirði 275 millj. kr. Þetta er orðað í íslenzkri mynt vegna þess að það er ekki alveg vitað enn þá, í hvaða mynt lánið verður tekið, þannig að það þykir ekki rétt að setja það inn í frv. En það er miðað við, að lánsfjárhæðin sé um það bil 2 millj. sterlingspunda. Með því að nota allt þetta erlenda lánsfé, hefur tekizt, með herkjum þó, að koma saman framkvæmdaáætluninni. Ég segi með herkjum þó, vegna þess að í rauninni standa þar út af um 12 millj. kr., sem okkur hefur ekki enn þá tekizt að brúa, og það verður þó svo að vera, að það verði reynt að brúa það með bráðabirgðaláni í bili. Þetta stafar m.a. af þeim miklu útgjöldum, sem nú eru til vegamála í ár og þarf að afla innan framkvæmdaáætlunarinnar, enda þótt nú sé gert ráð fyrir nýrri fjáröflun til vegasjóðs. En þó að eitthvað þyrfti að velta vissum fjárhæðum þar á milli ára, smávegis fjárhæðum, ylti það kannske ekki á öllu, en það verður að miða við, eins og ég segi, að þessar 12 millj. verði með einhverju móti teknar sem bráðabirgðalán, ef okkur tekst ekki að spara á einhverjum öðrum sviðum, þannig að það er ljóst, að hér er teflt á yztu nöf.

Ég ætla ekki að fara lengra út í þessa sálma, en aðeins lítillega að gera grein fyrir því, hvað hér er beðið um. Það er í fyrsta lagi gert ráð fyrir að gefa út 75 millj. kr. spariskírteinabréf og sömuleiðis að endurnýja þau spariskírteinalán, sem átti að innleysa á þessu ári. Þá er leitað heimildar til þess að mega taka hið erlenda lán, sem ég gat um áðan, og heimildar til þess að endurlána það, en gert er ráð fyrir því, eins og séð verður í þeirri töflu, sem frv. fylgir, að hluti af þessu láni gangi til fjárfestingarlánasjóðanna. Öðruvísi er ekki hægt að afla fjár til þeirra, og þetta léttir að sjálfsögðu á bankakerfinu að þurfa þá ekki að leggja fram það fé, sem þarf til hinnar opinberu fjárfestingar eða framkvæmda ríkissjóðs.

Þá er gert ráð fyrir því að leita heimildar til þess að taka 500 þús. dollara að láni hjá Viðreisnarsjóði Evrópuráðsins, en það er framhald af framkvæmdaáætlunarfé Vestfjarða og verður notað til framkvæmda á Vestfjörðum, þannig að af þessu fé mundu fara 16 millj. kr. í vegi, 9.8 millj. í hafnir og 1.2 millj. til flugsamgangna. Þá er og óskað eftir heimild til þess að fjmrh. megi taka PL—480 lán að upphæð 1 millj. 425 þús. dollara. Þá er leitað heimildar til þess, að taka megi tækjakaupalán erlendis í þágu flugmála og raforkumála, þ.e. í samræmi við það, sem gert hefur verið tvö síðustu árin, og loks er leitað heimildar til þess að mega taka 90 millj. kr. lán eða allt að þeirri upphæð til byggingar hinna tveggja strandferðaskipa, sem nú eru í smíðum fyrir Skipaútgerð ríkisins. Það er gert ráð fyrir því, að fjár verði aflað með sérstökum hætti til þeirra framkvæmda og fyrst og fremst með því að taka vörukaupa- og exportlán erlendis, þannig að þær framkvæmdir leggjast ekki með þunga á aðra liði framkvæmdaáætlunarinnar.

Loks er í III. kafla frv. leitað heimildar til þess að ráðstafa þessu fé til framkvæmda, í fyrsta lagi að mega lána af erlenda láninu Framkvæmdasjóði Íslands 113 millj. kr. og í öðru lagi að mega ráðstafa öðru fé innan framkvæmdaáætlunarinnar til þeirra sérstöku framkvæmda, sem taldar eru í 11. gr. frv.

Í töflu II á bls. 5 með frv. er að finna sundurliðun á því fé, sem fer til einstakra þeirra framkvæmdaliða, sem nefndir eru í 11. gr., vegna þess að þar er vitanlega um að ræða margvíslega aðra fjáröflun til þessara framkvæmda en sem felast í framkvæmdaáætluninni sjálfri. Þar er um viðbótarfjáröflun að ræða. Og jafnframt er að finna þar skýringar með einstökum liðum á því, hvernig þessa fjár er aflað, og sé ég því ekki ástæðu til, nema sérstakt tilefni gefist til, að fara að þreyta hv. d. með því að rekja það í einstökum atriðum. Þessi tafla ætti að skýra sig sjálf að þessu leyti. En það sem er hæsta nýja upphæðin í þessari fjáröflun, er til Búrfellsvirkjunar, 75 millj. kr. Ríkissjóður á samkv. samningi að leggja fram 100 millj. kr. til Búrfellsvirkjunar og verður að hafa lokið því á þessu ári. Greiddar hafa verið 25 millj. kr. af þessu framlagi á s.l. ári, en 75 millj. kr. þurfa því að greiðast í ár.

Um raforkumálin er það að segja aðeins í örfáum orðum, að hér er um að ræða hina venjulegu fjárfestingarþörf Rafmagnsveitna ríkisins. Það er fyrirtæki, sem er mjög illa statt fjárhagslega, hefur enga varasjóði til þess að leggja fram til framkvæmda og hefur því þurft að afla lánsfjár til allra framkvæmda á vegum þess fyrirtækis eða stofnunar. Annar liðurinn, sem þar er um að ræða, er raforkumál og sérstakar framkvæmdir. Þar er með talin hugmynd, sem uppi hefur verið um það að gera tilraun að gufuvirkjun í Námaskarði, sem er talin mjög nauðsynleg, áður en lengra er farið í rafvæðingarmálunum, og það ætti að vera hægt að koma þeirri gufuvirkjun upp mjög skjótlega, án þess að hún kosti mikið fé. Gufuveita í Reykjahlíð er í sambandi við kísilgúrverksmiðjuna við Mývatn. Ríkið er skuldbundið til þess samkv. samningi að leggja verksmiðjunni til gufu og það greiðist að sjálfsögðu á sínum tíma, þannig að þetta er ekki baggi á ríkissjóði.

Jarðborun á Reykjanesi er hugsuð til þess að kanna möguleika í sambandi við sjóefnaverksmiðju, og er það hin brýnasta nauðsyn, að þetta verði kannað til hlítar. Þetta eru athuganir á jarðhita á Reykjanesi, sem þarf að gera til þess að fullvissa sig um það, hvort þarna er nægileg orka til þess að reisa slíka verksmiðju á þessum stað.

Sérstök fjáröflun er 40 millj. til landshafnanna, sem er aðallega til tveggja landshafna; í Njarðvíkum og Þorlákshöfn, og þar hafa verið gerðir verksamningar, þannig að það verður að sjá fyrir þessu fé.

Vegirnir koma þarna einnig inn, 82.6 millj., sem er flokkað undir vegi almennt og síðan Hafnarfjarðarvegur í Kópavogi með 10.9 millj. Um þá vegaframkvæmd var gerð áætlun á s.l. ári. Það er ekki gert ráð fyrir, að hún verði baggi út af fyrir sig, en það þarf að afla í bili allverulegs lánsfjár til þess að hægt sé að vinna að þessum framkvæmdum, þar eð tekjur, sem eiga að standa undir þessu, koma smám saman til, og það var gerður um það samningur í fyrra, að hafizt yrði handa um þetta í ár og ekki neinn möguleiki til þess að fresta því lengur.

Aðrar vegaframkvæmdir eru þarna mjög verulegar, eins og hv. þdm. sjá, og það er utan þeirra framkvæmda, sem getið er um í sambandi við fjáröflun til vegamála í þeim till., sem nú liggja fyrir Alþ. um það efni, þannig að heildarfjárvöntunin til vegamála á árinu 1968 var raunverulega um 200 millj. kr. Langstærsti liðurinn, sem hér er um að ræða, er lánsfjáröflun vegna Reykjanesbrautar. Það er til að greiða afborganir og vexti af þeirri miklu framkvæmd umfram það, sem tekjur hrökkva til af þeim vegi og fjárveitingar, sem á öðrum sviðum eru til þess að mæta þessari þörf. Og það mun á næstu árum verða að taka upp verulegar fjárveitingar til þess að standa straum af kostnaði við þessa vegagerð, því að það tekur alllangan tíma að greiða það á þann hátt, sem áætlað hafði verið, fyrst og fremst með vegagjaldinu.

Þá er þarna einnig um að ræða framkvæmd í sambandi við byggingaráætlun ríkisstj., 3.6 millj. kr., við Breiðholtsveginn, sem þurfti að leggja fé til, og til Kísilvegarins við Mývatn, sem á að ljúka á þessu ári niður á Húsavíkurveginn, eru 11.6 millj. kr., sem einnig er gert ráð fyrir, að verði aflað með þessum hætti, en það hefur verið samið um það verk, og það verður að greiðast á tveimur árum. Hluti af þeim kostnaði eða 15 millj. kr. er nú í fjárl. Og loks eru 3 millj. kr. til Austurlandsvegar. Þar að auki eru svo 20 millj. umfram þessar framkvæmdir, sem ég hef nefnt, annars vegar 10 millj. vegna Landsvirkjunarvegar, sem Landsvirkjun hefur lagt út, en ríkið á að endurgreiða, og 10 millj. kr. er algert lágmark að greiða af láni vegna Keflavíkurvegar, sem tekið var erlendis og er lausaskuldalán, og verður að gera um það einhvern samning og ekki hugsanlegt, að það verði hægt að sleppa betur með það en að borga af því 10 millj. Þetta lán mun nú vera 85 millj. kr.

Flugmálin þurfa engrar skýringar við. Þarna er um að ræða verulega lækkun frá því, sem varð á s.l. ári, en það er gert ráð fyrir, að nokkur hluti komi einnig í gegnum tækjakaup. Svo ber þess einnig að gæta, bæði með vegamálin, flugmálin og hafnarmálin, að Vestfjarðaáætlunin er ekki tekin þarna með, heldur er hún alveg sér á blaði.

Næstu tveir liðir, skólar og sjúkrahús, eru þær upphæðir, sem voru teknar út úr fjárl. og ætlunin er að fjármagna innan framkvæmdaáætlunarinnar.

Lögreglustöð í Reykjavík hefur verið í byggingu alllengi. Upphaflega var gert samkomulag um það við bankana að afla fjár til þeirrar byggingar. Þar hefur orðið sú reyndin á, eins og í flestum öðrum tilfellum um opinberar framkvæmdir, sem staðið hafa árum saman, að framkvæmdin hefur orðið mun dýrari en gert var ráð fyrir, þannig að það þarf að afla verulegs viðbótarfjár, og er gert ráð fyrir að afla 7 millj. til þeirra framkvæmda innan áætlunarinnar í ár.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að orðlengja frekar um þetta á þessu stigi. Það eru auðvitað ótal mörg atriði, sem ég þykist vita, að hv. þm. vilji gjarnan fá upplýsingar um. Eins og ég áðan sagði, mun í einstökum atriðum verða gerð grein fyrir þessu í grg. minni um framkvæmdaáætlunina fyrir 1967 og heildaryfirlitið fyrir árið í ár, sem flutt verður þinginu að venju, áður en þinghaldi lýkur, en ef ég ætti að öðru leyti að fara að skýra þetta í einstökum atriðum, væri það allt of langt mál, og hygg ég, að þá væri æskilegra, ef einhverjir hv. þm. hafa fsp. fram að bera um þetta efni, að þeir geri það áður en ég fer að flytja lengra mál um þetta, og ég mun þá leitast við að svara því, eftir því sem ég hef aðstöðu til og upplýsingar um hér, en að öðru leyti verður að sjálfsögðu hægt að gefa hv. n., sem fær þetta til meðferðar, allar þær upplýsingar, sem hún óskar að fá.

Ég leyfi mér svo að leggja til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn., og ég verð því miður að fara þess á leit við hv. n., að hún reyni að hraða svo störfum sínum, að hægt verði að taka frv. helzt hér aftur til meðferðar á þriðjudag að loknu páskahléi, því að frv. þarf að sjálfsögðu að afgreiðast, áður en þingi lýkur. Og ég tel þó auðið að fara fram á þetta, vegna þess að hingað til hefur það ekki verið neitt deilumál út af fyrir sig að veita ríkisstj. heimild til að taka þessi lán, sem eru svipað því, sem hér um ræðir, að undanskildu erlenda láninu, þó að menn kunni að hafa haft eitthvað skiptar skoðanir um það, að hvaða verkefnum ætti svo að vinna, en það er nokkuð annað mál.