09.04.1968
Neðri deild: 95. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1425 í B-deild Alþingistíðinda. (1303)

187. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1968

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Hæstv. ráðh. hefði alveg getað sparað sér þann útúrsnúning, sem hann var með í lok sinnar ræðu, því að hann var honum ekki til sóma á nokkurn hátt. Það sómir sér ekki vel fyrir fjmrh. að ræða um þýðingarmikil efnahagsmál eins og hann gerði í lok sinnar ræðu. Það er með öllu ósæmandi að tala eins og krakki og látast ekki skilja, að það er álitamál, hvað seðlabankakerfið á að leggja mikið inn í bankakerfi landsins. Það er engin föst formúla til fyrir slíku, og það er álitamál, hvað það eigi að vera mikið. Það er atriði, sem verður að meta hverju sinni, og það er ekki annað en útúrsnúningur að halda því fram, að ég hafi sagt, að það skipti engu máli, hvað mikið væri gefið út af seðlum. Ég sagði, að það væri álitamál, hvað Seðlabankinn ætti að leggja mikið inn í lánakerfið. Vitanlega þýðir ekkert að bjóða hv. þm. upp á þann barnaskap í málflutningi, að það sé hægt að segja á einhverri tiltekinni stundu, að það séu ekki peningar til í Seðlabankanum. Og það af þeirri einföldu ástæðu, að það er látlaust álitamál, hversu mikið peningamagn skuli setja í umferð fyrir tilstuðlan Seðlabankans.

Hæstv. fjmrh. reyndi ekki að ræða það með neinum rökum, sem var aðalatriðið í því, sem ég hélt fram, að Seðlabankinn lagði inn í rekstrarlánakerfið nálega 920 millj. nettó 1959, en núna leggur hann minna en ekki neitt inn í rekstrarlánakerfi viðskiptabankanna. Minna en ekki neitt. Þar að auki hefur viðskiptahönkunum verið gert að leggja í fjárfestingarlán til viðbótar. Hvar er það lögmál skráð, að þetta skuli vera svona, en ekki öðruvísi?

Þetta er aðeins stefna, sem hæstv. ríkisstj. hefur tekið, og hún er fólgin í því að reyna að halda jafnvægi í þjóðarbúskapnum, reyna að vega á móti áhrifum síldaruppgripanna í þjóðarbúskapnum með því að draga saman það fjármagn, sem rekstrarlánabankarnir hafa til meðferðar. Þessa aðferð væri kannske hægt að nota án þess að stórtjón hlytist af, í landi, þar sem mikið væri um einkafjármagn í fyrirtækjunum, og þar, sem fyrirtæki væru lítið háð rekstrarlánastarfsemi bankanna.

En í okkar landi, þar sem fyrirtækin eru mjög mikið háð lánsfé í sínum rekstri, meira háð því en víðast hvar annars staðar, og þar sem einkafjármagn er of lítið, til þess að það geti komið inn í atvinnureksturinn í staðinn fyrir það, sem út úr honum er dregið með þessu móti, hlaut þetta að hafa í för með sér stórhættulegar afleiðingar fyrir atvinnulífið, eins og glöggt hefur komið fram. Það verður ekkert fyrirtæki rekið á útúrsnúningum hæstv. fjmrh., þeir eru léttir í vasa og einnig hnýfilyrði hans. Það lifir enginn á þeim. Þetta er miklu meira alvörumál en svo, að það sé sæmandi fyrir ráðh. að neita því að ræða þetta með rökum en kasta þess í stað fram ósæmilegum dylgjum, algjörlega ósæmilegum dylgjum og barnalegum, nánast eins og götustrákar gera. En þannig leyfði hæstv. ráðh. sér að ræða þessi mál áðan í lok sinnar ræðu. En það tel ég götustrákamál að hafa það eitt að segja um þau rök, sem ég lagði hér fram, byggð á óvéfengjanlegri skýrslu um þróunina í þessum málum, að ég hefði haft það eitt til þessara mála að leggja, að það væri ekkert atriði, hvað út væri gefið af seðlum. Svo var það búið. Þetta var afgreiðsla ráðh. á þessu vandamáli.