16.04.1968
Neðri deild: 98. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1441 í B-deild Alþingistíðinda. (1311)

187. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1968

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hafði kvatt mér hljóðs fyrir nokkru, en skal nú játa það, að sumt af því, sem ég ætlaði mér að spyrja um, er þegar fram komið hjá hæstv. fjmrh., en þó vil ég leyfa mér að segja um þetta nokkur orð. Hér er í stjfrv. á þskj. 547 vissulega um allmikið mál að ræða.

Í 1. gr. frv. er heimild til að taka innanríkislán, ríkisskuldabréfa- eða spariskírteinalán, allt að 75 millj. Í 4. gr. er heimild til þess að gefa út ný ríkisskuldabréf eða spariskírteini. Í 5. gr. er heimild til þess að taka erlend lán allt að 275 millj. kr. Í 8. gr. er heimild til þess að taka vörukaupalán í Bandaríkjunum, 1 millj. 425 þús. dollara eða allt að því. Í 9. gr. er heimild til að taka lán allt að 10 millj. kr. til tækjakaupa í þágu flugmála og raforkumála. Í 12. gr. er heimild til að taka innlend og erlend lán allt að 90 millj. til smíði strandferðaskipa. Og í 7. gr. er heimild til að veita ríkisábyrgð fyrir láni Framkvæmdasjóðs Íslands frá Viðreisnarsjóði Evrópuráðsins allt að 500 þús. dollara. En lánsfé þessu skal samkv. gr. verja til flugvalla, hafna- og vegaframkvæmda á Vestfjörðum. Það stendur nú ekki þarna, að þessu skuli verja til mannvirkja samkv. Vestfjarðaáætlun. En það virðist koma fram í umr., að það eigi að gera, og þessi Vestfjarðaáætlun hefur enn einu sinni verið nefnd nokkrum sinnum í þessum umr.

Ég innti eftir því í fyrra við afgreiðslu svipaðs máls, hvort ekki væri hægt að fá þessa Vestfjarðaáætlun birta, og ég vil spyrjast fyrir um það aftur hjá hæstv. fjmrh., hvort hann sjái ekki möguleika til þess, að Vestfjarðaáætlunin, sem svo oft hefur verið nefnd, verði birt á Alþ., áður en þingi er slitið að þessu sinni. Ég var að spyrja að þessu í fyrra og er að spyrja að þessu aftur nú, vegna þess að nú mun vera unnið að annarri áætlun, þ.e.a.s. Norðurlandsáætlun, og mér finnst, að það væri mjög gagnlegt fyrir þá, sem vinna að Norðurlandsáætluninni eða hafa áhuga fyrir henni, að sjá það svart á hvítu, hvernig Vestfjarðaáætlunin er, hvernig þessi áætlun er, sem talið er, að gerð hafi verið fyrir Vestfirði, væntanlega á vegum hæstv. ríkisstj. Ég endurtek það, að ég vil spyrja hæstv. fjmrh., hvort ekki sé möguleiki á því, að þessi Vestfjarðaáætlun verði birt hér á Alþ., áður en þingi er slitið að þessu sinni, ekki sízt vegna séráætlana, sem gerðar kunna að verða eða eru í smíðum, og svo auðvitað vegna Vestfirðinga. Ég geri að vísu ráð fyrir því, að Vestfirðingar kunni að hafa fengið áætlunina og viti, hvernig hún lítur út. En ég hef áhuga fyrir því, að við fáum að sjá hana hér á Alþ., svo og almenningur.

Það var að vísu sagt í umr. hér í fyrra og m.a.s. af einum þáv. hv. þm. Vestf., að þessi Vestfjarðaáætlun væri eiginlega ekki til og hann hefði orð ekki ómerkari manns en forstöðumanns Efnahagsstofnunarinnar fyrir því, að áætlunin væri ekki til. En ég vil ganga út frá því, ekki sízt eftir að hafa heyrt hana nefnda oftar en einu sinni í þessum umræðum, að hún sé til. Hún hafi bara ekki verið birt.

Ég verð að taka undir það, sem ég held, að hv. 4. þm. Vestf. hafi haft orð á, að mig furðar á því, hvað álitið frá hv. fjhn. um slíkt stórmál sem þetta er veigalítið og þó sérstaklega álit meiri hl. á þskj. 595, því að það er, eins og ég hef sagt, ekki nema tvær línur, sem hljóða svo:

„Nefndin hefur athugað frv., en eigi orðið sammála um afgreiðslu þess. Mælir undirritaður meiri hl. með því, að það verði samþykkt óbreytt, en aðrir nm. munu skila séráliti.“

Það, sem frá meiri hl. kemur, er eiginlega bara þetta, að hann mælir með því, að frv. verði samþ. óbreytt. Ég vil taka undir það, að mér finnst, að þetta sé eiginlega ekki viðunandi afgreiðsla hjá meiri hl. hv. fjhn. á slíku máli, og það er ekki nema von, að hv. þm. hafi þurft að spyrja um eitt og annað, þegar svona er fjallað um mál í n.

Það segir hér í 11. gr. frv., að lánsfé því, sem aflast samkv. þessu frv., að vissum fjármunum þó undanskildum, samtals 330.2 millj. kr., skuli varið eins og þar segir í 12 liðum, að ég ætla. En um þetta liggja ekki fyrir sundurliðaðar upplýsingar frá n., og ég ætlaði einmitt að spyrja um þetta nánar, hvernig ætti að verja þessu fé. Sumar af þeim upplýsingum, sem mér leikur hugur á að fá, eru þegar komnar fram. En eitt atriði vil ég þó staðnæmast við. Það stendur hér, að til vega skuli fara af þessum 330.2 millj. 82.6 millj. Í grg., þar sem fjallað er um 11. gr., segir: „Nánari grg. um skiptingu lánsfjár og. einstakar framkvæmdir verður gefin í sambandi við framkvæmda- og fjáröflunaráætlun ríkisstj. árið 1968.“ Á bls. 4 er skýrsla, sem heitir Framkvæmda og fjáröflunaráætlun 1968, og þar stendur að því er varðar vegina: „Vegir 82.6 millj.“, þ.e.a.s. alveg ósundurliðuð tala eins og í 11. gr. sjálfri, þannig að ég er engu fróðari, þó að ég sjái þessa framkvæmda og fjáröflunaráætlun, sem þarna er prentuð sem fskj. En mér skilst, að það sé ætlunin að gera nánari grein fyrir þessu síðar. En er það þá ekki ráð að fresta lokaafgreiðslu þessa frv., þangað til sú grg. er komin fram?

Eins og ég sagði, ætlaði ég að spyrja sérstaklega um vegina, hvernig ætti að skipta þessum 82.6 millj., en hæstv. ráðh. hefur þegar gert nokkra grein fyrir því. Þó virðist mér eins og grg. hans muni varla vera alveg tæmandi. En ef svo kynni að vera, vildi ég mega leyfa mér að spyrjast fyrir um það hjá honum eða hæstv. samgmrh., — hann mætti nú líklega frekar svara því, — hvort eða hvernig eigi að sjá fyrir láni samkv. hinni endurskoðuðu vegáætlun fyrir árin 1967-68, III. kafla II. 7. og 8. tölul. Það er ekki enn þá búið, svo að ég hafi orðið var við, að sjá fyrir þeim fjármunum, sem þarf til að fullnægja þessum tölul. En það var gert ráð fyrir, að þessi lán yrðu tekin á árunum 1967 og 1968. Ég hef ekki orðið var við, að neitt af þessum lánum hafi verið tekið á árinu 1967. En ef gert er ráð fyrir, að taka ætti lánið í heild á árinu 1968, þarf að gera ráðstafanir til þess, með því að ekki verður séð, að gert hafi verið ráð fyrir fjármunum í þessu skyni í bráðabirgðaákvæði hinna nýju laga um breyt. á vegal. Ég vonast nú eftir að fá upplýsingar um þetta og eins um Vestfjarðaáætlunina, hvort þess megi ekki vænta, að hún verði birt, áður en þessu þingi er lokið.

En að lokum vil ég segja: Það liggja mörg mál óafgreidd fyrir þessu þingi, sum voru borin fram á öndverðu þingi, önnur hafa verið borin fram síðar. Sum hafa naumast fengið afgreiðslu í n., önnur hafa verið afgr. úr n., en ekki í þinginu. Nú er talað um, að þingi verði slitið bráðlega, eftir nokkra daga, á laugardag hef ég heyrt. Og nú vil ég spyrja: Hvað er það, sem gerir það nauðsynlegt að flýta þinginu svo mjög, hraða þinginu svo mjög, þegar þannig stendur á, að fjöldi mála er óafgreiddur, og sérstaklega ef þannig stendur á, eins og þm. hafa kvartað yfir á þessum fundi, að varla er tími til að afgreiða vandasöm mál frá sjálfri hæstv. ríkisstj.? Hvaða nauðsyn ber til að ljúka þinginu nú í þessari viku? Ekki er að því teljandi sparnaður fyrir ríkissjóð, eins og nú er háttað lögum. Það hefur verið algengt undanfarin ár, að þinghald hefur staðið fram yfir mánaðamót apríl—maí, mjög algengt. Og ég hygg, að þm. og þingflokkarnir hafi núna undanfarna daga jafnvel verið að ræða mál, sem ekki eru komin fram á þessu þingi, en þyrftu að koma fram og fá einhverja afgreiðslu. Hverju sætir það, að svo mjög liggur á að ljúka þinginu nú fyrr en venjulegt er? Ég veit, að hæstv. ríkisstj. hefur samkv. stjskr. möguleika til þess að afgreiða sjálf mál, afgreiða sjálf lög, eftir að þingi er slitið. En þó er ekki ætlazt til þess, að slík heimild sé notuð, nema mikla nauðsyn beri til. Og ég á erfitt með að trúa því, að sá háttur verði á hafður, að hæstv. ríkisstj. haldi bara löggjöfinni áfram, eftir að Alþ. er lokið. Ég á erfitt með að trúa því. En er það þá ekki a.m.k. athugunarefni fyrir hæstv. ríkisstj., hvort hún á að halda svo fast við þessa fyrirtekt sína að ljúka þinginu núna á laugardaginn eða gefa því gaum, að það er fyrst og fremst skylda þm. að afgreiða mál þau, sem fyrir eru lögð, og það er ekki eðlilegt, þegar um stórmál er að ræða, að ríkisstj. hindri þm. í að gera þessa skyldu sína.

Ég gerði í fyrra, eftir að þingi var lokið, skrá yfir meðferð málanna hér á hinu háa Alþ. og ég las þessa skrá upp á nokkrum fundum, þar sem ég var staddur í fyrrasumar. Það var athyglisverð skrá um það, hvernig Alþ. undir forustu þeirra, sem nú hafa hér forustu, fer að því að ljúka verki. Slíka skrá hef ég eigi gert nú. En grunur minn er sá, að verkalokin að þessu sinni, ef þingið stendur ekki lengur en fram að næstu helgi, verði ekki álitlegri en í fyrra.