16.04.1968
Neðri deild: 98. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1445 í B-deild Alþingistíðinda. (1313)

187. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1968

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það er nú ekki til þess að lengja þessar umr., að ég stend hér upp, heldur aðeins út af því, að hv. síðasti ræðumaður sagði, að upplýsingar mínar hér áðan leiddu í ljós, að það væru rangar upplýsingar í töflu, sem fylgdi frv. Þetta er ekki rétt, vegna þess að inni í þessari töflu eru tæpar 6 millj. kr. úr vegáætlun, sem er þarna talið með heildarupphæðinni, 22 millj. eða nálægt því. Þar af eru um 16 millj., sem fást af hinu erlenda lánsfé. Hitt er framlög, sem ætlazt er til að komi í gegnum vegáætlun og eru um 6 millj. kr.

Hér hefur verið spurt um Vestfjarðaáætlun. Það var gerð grein fyrir henni í upphafi, hvernig hún hefði verið byggð upp, þessi samgönguáætlun Vestfjarða, og fyrrv. fjmrh. gerði grein fyrir henni hér á Alþ., og ég tel hana vel geta komið til athugunar nú, — það hafa margar breytingar orðið á henni, m.a. hefur farið meira fé í hana en gert var ráð fyrir, — og því kann að vera innan tíðar tímabært að gera grein fyrir áætluninni aftur, eins og hún stendur, og framkvæmd hennar.

Ég hygg hins vegar, að Vestfirðingum hafi verið það höfuðatriði málsins, að það hefur sézt á hverju ári, að þeir hafa fengið hér verulegar fjárupphæðir til framkvæmda í vegum, höfnum og flugvöllum. Þetta var samgönguáætlun Vestfjarða, og hefur alltaf verið frá því skýrt, að hún væn samgönguáætlun, og af því leiðir, að það er að sjálfsögðu ekki veitt fé innan hennar til raforkumála. Þau eru annars eðlis. Það merkir hins vegar ekki, að það eigi ekkert fé að fara til rafvæðingar á Vestfjörðum. (Gripið fram í.) Ekki af Vestfjarðaáætlunarfé, það er rétt. (Gripið fram í.) Já, af Vestfjarðaáætlunarfé, er það ekki? (Gripið fram í.) Já, það á ekki að fara á Vestfjarðaáætlun og hefur aldrei farið til rafvæðingar á Vestfjörðum. Það hélt ég að hv. þm. væri mætavel kunnugt um.

Út af mörgu því, sem hv. 1. þm. Norðurl. e. gat um, þá eru auðvitað ótalmargar heimildir í vegáætlunum um lántökur, miklu fleiri en þær, sem hann nefndi, sem engin tök hafa reynzt enn á að afla fjár til, og það er vissulega mikil þörf á því að vinna að þeim verkum. Framkvæmdaáætlun fyrir vegina eða ný vegáætlun verður samin í haust og það kemur þá á daginn, hve miklu fé verður auðið að verja til þessara ýmsu vega í sambandi við hana. En það er rétt, að innan framkvæmdaáætlunarinnar nú er ekki gert ráð fyrir nema þeim vegum, sem ég gat um, og sú upptalning, sem ég hafði hér áðan, var tæmandi og fól í sér alla þá heildarupphæð, sem framkvæmdaáætlunin gerir ráð fyrir.