19.04.1968
Efri deild: 97. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1465 í B-deild Alþingistíðinda. (1327)

187. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1968

Frsm. meiri hl. Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur haft þetta mál til meðferðar. 1 fyrstu unnu fjhn. beggja d. að því sameiginlega og mættu á sameiginlegum fundum n. Jónas Haralz, forstjóri Efnahagsmálastofnunarinnar, og Gísli Blöndal hagsýslustjóri og gáfu ýmsar nánari upplýsingar um þær framkvæmdir, sem lán þau, sem hér er sótt um að heimila, verði tekin til. En eins og nál. á þskj. 660 ber með sér, hefur fjhn. ekki náð samstöðu um þetta mál, þannig að við 4, sem að því áliti stöndum, leggjum til, að það verði samþ. óbreytt, en 3 nm., sem eru í minni hl., munu skila séráliti og flytja tvær brtt. á þskj. 679.

Ég sé nú í rauninni ekki ástæðu til þess að ræða þetta frv., þar sem það var allýtarlega rætt við 1. umr. málsins, auk þess sem framkvæmdaáætlunin, sem segja má, að þetta frv. sé liður í, var rædd í sameinuðu Alþingi í gær. En til þess að spara mér það að þurfa að taka til máls að nýju vildi ég aðeins víkja að brtt. á þskj. 679 og hvers vegna meiri hl. sér sér ekki fært að styðja þær.

1. brtt. er fólgin í því að setja það að skilyrði fyrir heimildinni til þess að gefa út ríkisskuldabréf eða spariskírteini, eins og 1. gr. kveður á um, að Seðlabanki Íslands noti ekki heimild sína til að binda hluta af sparifjáraukningu banka, sparisjóða og innlánsstofnana á árinu 1968. Það er nú raunar ekki neitt nýtt, að þegar hv. stjórnarandstæðingar sýna einhverja viðleitni til að afla fjár til margvíslegra hluta, sem þeir vilja láta framkvæma, þá verður þrautalendingin alltaf Seðlabankinn. Það virðist svo sem þeir hafi þar fundið þann sjóð, sem hæstv. félmrh., ekki að tilefnislausu, lýsti eftir í eldhúsdagsumr. á dögunum og sem væri þeirrar náttúru, að allir gætu tekið úr honum, en enginn þyrfti að láta í hann. Þarna virðist þessi sjóður vera fundinn og ber því út af fyrir sig að fagna, ef hv. stjórnarandstæðingar eru þá ánægðari með sjálfa sig en þeir hafa áður verið. En meiri hl. lítur nú þannig á, að í þessu sé ekki að finna neina lausn, hvorki á þessu vandamáli né öðrum, og getur því ekki stutt þetta.

Því er þó e.t.v. rétt að bæta við, að í sjálfu sér gæti till. um þetta, að sparifjárbindingin verði takmörkuð eða jafnvel afnumin að öllu, verið skynsamleg, ef það væri þannig hugsað, að viðskiptabankarnir skyldu þá taka að meira eða minna leyti við þeirri útlánastarfsemi, sem Seðlabankinn nú hefur með höndum, fyrst og fremst kaupum á afurðavíxlunum. Það væri ekki óeðlilegt, og ég tel rétt, að að því væri í rauninni stefnt í framtíðinni, að slíkt væri yfirtekið af viðskiptabönkunum, en væri ekki á vegum Seðlabankans, eins og það er nú. Hitt gefur auga leið, að að því leyti, sem um slíkt væri að ræða, mundi ekki myndast þarna neitt fjármagn. En því miður, — án þess að ég hafi nokkra ástæðu til þess að leggja stjórnarandstæðingum hlutina út á verri veg, — grunar mig, að það sé nú ekki þetta, sem vaki fyrir þeim, heldur eigi Seðlabankinn að halda áfram að kaupa afurðavíxlana, en sparifjárbindingin verði takmörkuð eða henni sleppt. En það mundi þá m.ö.o. í rauninni þýða það, að þessa peninga ætti að lána út tvisvar, bæði ættu viðskiptabankarnir að hafa þá til ráðstöfunar og Seðlabankinn líka, en við lítum nú þannig á, að sömu peningarnir geti ekki orðið notaðir nema einu sinni.

Ég fjölyrði svo ekki meira um þetta og skal þá aðeins víkja að brtt. við 3. gr. Þeir vilja, að spariskírteinin og ríkisskuldabréfin skuli ekki undanþegin framtalsskyldu. Hins vegar virðist hugsunin vera sú, að skattfrelsi eigi að ná til þeirra. Það er nú af tveimur ástæðum, sem mér finnst, að þetta geti ekki komið til greina. Í fyrsta lagi er það auðsætt, að ef ekki yrði um þessi skattfríðindi að ræða hliðstæð þeim, sem margs konar skuldabréf önnur og sparifé almennt nýtur, þá mundi það vera útilokað, að þessi bréf seldust. Það getur í sjálfu sér verið nógu erfitt samt að selja slík bréf, því að þess ber að gæta, að þó að vaxtakjör séu að vísu hagstæð, verða þeir, sem bréfin kaupa að afsala sér möguleikunum á að ráðstafa þessum peningum um 10 ára skeið til þess að njóta slíkra hagkvæmra vaxtakjara að fullu og það eru ekki allir, sem eru reiðubúnir til þess að kaupa hagstæð vaxtakjör því verði. Maður veit t.d., að á 10 ára sparisjóðsbókunum munu ekki vera miklar innstæður, þó að af þeim séu hærri vextir en nokkru öðru sparifé. Og í öðru lagi hefur mér nú alltaf fundizt, það segi ég aðeins persónulega, að þessi hugmynd um framtalsskyldu, en ekki skattskyldu sé í rauninni vanhugsuð. Ég þekki ekki til þess í skattalöggjöf neins af okkar nágrannalöndum, að þetta sé aðskilið, þar er það ávallt þannig, að framtalsskylda og skattskylda fer saman. Í enskumælandi löndum er það yfirleitt þannig, að engir eignarskattar eru lagðir á. Þar er heldur ekki framtalsskylda eigna. Samt sem áður er talið, að erfiðara sé að koma tekjum sínum undan skatti í þessum löndum en nokkrum öðrum, og gefur það til kynna, að þar er ekki talið, að eftirlit með eignum skipti verulegu máli í því sambandi. En ástæðan til þess, að þetta fylgist að jafnaði að, er auðvitað sú, að ef það á að gera tilteknar eignir framtalsskyldar, án þess að þær séu skattskyldar, hlýtur að koma upp spurningin um það, hvaða viðurlög eiga þá að liggja við því að telja þessar eignir ekki fram. Ef það eru skattskyldar eignir eða ef það eru skattskyldar tekjur, þá er þetta tiltölulega einfalt. Menn eru þá látnir greiða sektir, sem eru ákveðnar í hlutfalli við þann skatt, sem þeim hefði borið að greiða af þessum eignum og tekjum, ef þær væru taldar fram. En ef það hefur ekki nein áhrif á skattgreiðsluna í sjálfu sér, hvort eignirnar eru taldar fram eða ekki, þá kemur auðvitað spurningin um það, hvaða viðurlögum á þá að beita. Það er ekki hægt að hafa þá viðmiðun, sem almennt er notuð í skattalögunum og það þarf a.m.k. að hugsa það mál, hvernig slíkt skuli ákveða, því að gera eitthvað að skyldu án nokkurra viðurlaga við því, að þeirri skyldu sé ekki fylgt, það finnst mér vera út í bláinn. Þetta hef ég talið, að væri meginástæða til þess. Mér er ekki kunnugt um það í skattalöggjöf nokkurs lands, að um framtalsskyldu sé að ræða, ef skattskylda er ekki fyrir hendi.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta frv., en meiri hl. leggur til, að það verði samþ. óbreytt.