19.04.1968
Efri deild: 97. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1467 í B-deild Alþingistíðinda. (1328)

187. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1968

Frsm. minni hl. (Bjarni Guðbjörnsson):

Herra forseti. Fjhn. d. hefur rætt þetta mál nokkuð, þótt skammur tími væri til stefnu, en ekki orðið á eitt sátt um afgreiðslu málsins. Meiri hl. vill samþykkja þetta óbreytt, en minni hl. flytur tvær brtt. á sérstöku þskj., og við höfum skilað séráliti. Hér er um mjög viðamikið mál að ræða, sem kemur nokkuð seint fram, þegar annirnar eru mestar og margt þarf að afgreiða, og gefst þm. því enginn kostur á að skoða þetta til hlítar.

Þetta frv. er um að afla heimildar fyrir ríkisstj. til lántöku vegna framkvæmdaáætlunar fyrir árið 1968, en það fjallar í rauninni ekki um framkvæmdaáætlunina sem slíka. Um framkvæmdaáætlunina var rætt í gær í Sþ. og hefði hún þá gjarnan mátt koma, áður en þetta frv. var rætt í d., því að hún verður eiginlega að skoðast sem forsenda fyrir því, að menn geti gert sér grein fyrir þessum málum eins og þau eru. Sú skýrsla hefði, eins og ég sagði, átt að koma í dagsljósið fyrr, því að þetta er það viðamikið og þýðingarmikið mál. Við, sem skipum minni hl. fjhn., erum ekki andvígir því í aðalatriðum að veita ríkisstj. heimild til lántöku, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir. Slík heimild getur verið og er eðlileg í mörgum tilfellum, en ráðstöfun þess fjár, sem frv. gerir ráð fyrir, er ekkert einkamál ríkisstj. og á aldrei að vera það. Það hlýtur að vera Alþ., sem á að hafa fjárveitingavaldið hverju sinni og ráðstafa þessu fé, enda þótt hér sé um lánsfé að ræða. Og hér er raunar ekki um neinar smáupphæðir að ræða, tæpar 600 millj. kr. Hér er verið að taka lán til framkvæmda, sem fyrir nokkrum árum voru fjármagnaðar með venjulegum tekjum ríkissjóðs, svo sem skólabyggingar, sjúkrahús og ýmislegt annað. En helmingur af því lánsfé eða helmingurinn af 330 millj., 156 millj. eða hér um bil, eru áætlaðar til reiðslu á skuldum. (Fjmrh.: Ég vek athygli á því, að í 11. gr. er ráðstöfun fjárins einnig.) Jú, ég hef orðið var við það. Þessar 156 millj. eiga að ganga til greiðslu á skuldum vegna opinberra framkvæmda, sem unnar hafa verið á liðnum árum, eins og fram kemur í töflu II, sem prentuð er í þessu frv.

Í upphafi viðreisnar árið 1960 var það talið fráleitt, hve mikið hafði verið tekið af erlendum lánum og var þó þá ekki um að ræða lántökur nema í stórframkvæmdir, svo sem virkjanir, sementsverksmiðju o.fl., en nú er svo komið, að erlent lánsfé þarf til skólabygginga, sjúkrahúsa, flugvalla, hafna, jarðborana og jafnvel lögreglustöðvar. Til þess að þær opinberu framkvæmdir, sem hér eru nefndar, stöðvist ekki, verður að reyna að fá erlent lánsfé. Ég veit ekki, hvað það hefði verið nefnt í viðreisnarpésanum frá 1960, slíkt ástand sem þetta. Ég læt öðrum eftir nafngiftir í því sambandi. En það eru sjálfsagt allir sammála um, að hér verði að halda uppi eða vinna að þeim framkvæmdum, sem nefndar eru í þessu frv., því að ella mundum við eiga á hættu atvinnuleysi, sem raunar hefur gert vart við sig, og slíkt ástand verður að koma í veg fyrir með öllum tiltækum ráðum, jafnvel þó að vandinn í okkar efnahagsmálum sé slíkur orðinn sem þetta frv. ber með sér. Það verður áreiðanlega ekki komizt hjá erlendri lántöku, eins og málum er nú komið, en þá verður líka að ráðast gegn vanda þeim, sem við blasir í efnahags- og atvinnumálum okkar og koma fjárhagsmálum undirstöðuatvinnuveganna í það horf, að hægt sé að láta þá ganga eðlilega. Það er mikið talað um hagræðingu nú á dögum. Það er eins og það sé eitthvert algilt lausnarorð. En það er hvergi lán að fá til þessarar hagræðingar, sem allir tala um, alls staðar lokað. Slíkt ástand er auðvitað gersamlega óþolandi.

Í 1. gr. þessa frv. er gert ráð fyrir heimild til að gefa út til sölu innanlands ríkisskuldabréf eða spariskírteini að upphæð 75 millj. Langmestur hluti þess fjár, sem spariskírteini eru keypt fyrir, kemur á einn eða annan hátt frá viðskiptabönkum eða sparisjóðum. Samkv. frv. er gert ráð fyrir, að allt að 125 millj. kr., 75 millj. í spariskírteinum og 50 millj. í endurgreiðslu spariskírteinalána, verði aflað á þennan hátt. Þessi samkeppni ríkissjóðs við bankana og sparisjóðina um sparifé er bönkunum áreiðanlega mjög erfið og getur ekki komið fram í öðru en minni útlánum til atvinnuveganna og mega þau þó varla minni vera. Ef enn á að þrengja að fyrirtækjum með minnkandi fyrirgreiðslu, getur það ekki endað nema á einn veg; að fyrirtækin starfi ekki með eðlilegum hætti og framleiðslan minnki og allur rekstur dragist saman. Afurðaverð hefur nokkuð lækkað á tveimur til þremur árum frá því, sem það var hæst, og þegar þar við bætist vaxandi dýrtíð og hækkandi rekstrarkostnaður, liggur í augum uppi, að fyrirtækin þola ekki minnkandi fyrirgreiðslu. Þess vegna höfum við flutt brtt. á þskj. 679 um, að bindingarheimild Seðlabankans verði ekki notuð á þessu ári, til þess að létta nokkuð á viðskiptabönkunum. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þetta eða vitna í ummæli, sem lúta að þessu. Þetta er öllum ljóst, þótt ekkert sé að gert. Innlendi lánamarkaðurinn getur ekki mætt þeirri lánaþörf, sem framkvæmd þeirrar áætlunar, sem hér um ræðir, krefst, og þess vegna verður að afla erlends lánsfjár. En endalaust verður ekki leitað á erlendan lánamarkað. Þess vegna verður að efla svo íslenzkt atvinnulíf, að við séum á þann hátt færir um að standa undir þeim framkvæmdum, sem óhjákvæmilegar eru til að halda í horfinu miðað við atvinnu á síðasta ári.

Hæstv. fjmrh. gat þess í ræðu, að það hefði verið nokkur tilviljun, hvernig fjárhagsafkoma síðasta árs hefði komið út í sambandi við framkvæmdaáætlunina, því að þá hefðu verið til ráðstöfunar 57 millj. af greiðsluafgangi, sem auðvitað væri ekki núna fyrir hendi, og þá hefði reynzt unnt að selja spariskírteini fyrir 125 millj. kr. Þrátt fyrir þessar tilviljanir, sem voru fyrir hendi á síðasta ári, er boginn spenntur svo hátt nú sem raun ber vitni um í þessu frv. Og ég tel enga möguleika á, að hægt sé að ná þessum upphæðum, sem hér er gert ráð fyrir, nema vandræði hljótist af og það bitni á atvinnufyrirtækjunum, sem þó sízt skyldi.

Í sambandi við spariskírteinin höfum við í minni hl. flutt aðra brtt. við 3. gr. þessa frv. þess efnis, að niður falli orðin „framtalsskyldu og“. Við teljum ekki eðlilegt að undanþiggja spariskírteinin framtalsskyldu. Það er að okkar dómi miklu eðlilegra, að skylt sé að telja þau fram og framtalsskyldan sé liður í raunhæfu skattaeftirliti. Það kann vel að vera, eins og síðasti hv. ræðumaður minntist á, að þess finnist ekki dæmi í skattalögum nágrannalandanna, en eigi að síður er þetta skoðun okkar og við teljum þetta vera lið í raunhæfu skattaeftirliti, að eignir séu yfirleitt taldar fram, þó að þær séu undanþegnar skattlagningu, og það gæti verið réttlætanlegt á ýmsan hátt að undanþiggja þær skattlagningu. En framtalsskyldan teljum við, að eigi að vera fyrir hendi.

Ég skal svo ekki fara mikið út í einstaka liði í sambandi við þetta frv. Það hefur verið rætt allmikið, og tíminn er hér naumur, og ef maður ætti að gera það gaumgæfilega, kostar það allmikinn samanburð, a.m.k. fyrir þá, sem ekki eru því betur inni í þessum málum. En ég vil endurtaka það, að ég tel það óeðlilegt, að ríkisstj. breyti fyrri ákvörðunum, hvort sem það er nú til hækkunar á fjárframlögum eða ekki, án samráðs við Alþ. eða að framkvæmdir séu færðar á milli ára. Auðvitað vilja þm. fá að fjalla um slíkar ráðstafanir og ræða þær, án þess að stöðugur eftirrekstur sé á málam.

Ég held, að hæstv. fjmrh. hafi minnzt á það, mér heyrðist það a.m.k. um leið og ég gekk um Nd., að það hefði verið rætt um það, að vegarlagning á Gemlufallsheiði, sem hingað til hefur verið gert ráð fyrir að framkvæma á árinu 1968, verði færð fram á árið 1969. Ég tel miður farið, ef þetta reynist svo. Að vísu er þarna um lánsheimild að ræða, sem gerði ráð fyrir því, að þessi framkvæmd yrði unnin á árinu 1968, en eigi að síður teldi ég það mjög miður farið, ef þessi framkvæmd yrði færð aftur til ársins 1969. Sömuleiðis mun hafa verið minnzt á framkvæmd við hafnargerð í Bolungarvík, en þar skortir fjárframlag til þeirra framkvæmda, sem nauðsynlega þarf að vinna á þessu ári vegna aðsteðjandi vanda. Það hefur að vísu verið rætt um tilfærslu á milli Ísafjarðarhafnar og Bolungarvíkurhafnar, en um hana hefur þó væntanlega ekkert verið ákveðið enn þá, enda á umræðustigi meðal heimamanna.

Í skýrslu, sem hæstv. fjmrh. flutti í Sþ. í gær um framkvæmdaáætlunina 1968, virtist mér koma fram nokkur samdráttur þegar í heild væri litið á þá áætlun. Það var gert ráð fyrir minni fjármuna

myndun í helztu greinum atvinnulífsins, en hins vegar kæmi þar á móti fjármunamyndun í sambandi við Búrfellsvirkjun og Straumsvíkurframkvæmdirnar. Þetta gæti þýtt tilfærslu á vinnuafli frá undirstöðuatvinnuvegum okkar, sem við ekki megum við að missa, og teldi ég mjög miður farið, ef svo yrði búið að undirstöðuatvinnuvegunum, að þeir gætu ekki keppt við þær framkvæmdir, sem þarna eiga sér stað. Annars er ekki gott að átta sig á þessu eða bera áætlunina sjálfa saman við heimildarfrv. hérna, til þess vinnst ekki tími, en áætlunin er, eins og ég sagði áðan, nauðsynleg grg. í þessu sambandi, ef maður á að gera sér málið fyllilega ljóst.

Ég skal svo ekki tefja þessar umr. mikið úr þessu, en vænti þess, að þær tvær brtt., sem minni hl. flytur, séu þess efnis, að d. geti samþykkt þær, enda þótt frsm. meiri hl. fyndi þeim nú ýmislegt til foráttu. Það er svo margoft búið að tala um bindiskylduna og annað slíkt, að ég held, að ég sleppi þeirri tölu að þessu sinni. En það liggur í augum uppi, að ef viðskiptabankarnir, eins og hann minntist á, gætu ekki lengur endurselt afurðalánin í Seðlabankanum, yrði nú held ég fyrst vá fyrir dyrum hjá viðskiptabönkunum, og þessi till. okkar byggist náttúrlega fyrst og fremst á því, að þarna er verið að benda á tilraun, ja, í þessum mikla sjóði, sem hann hafði nú mörg orð um, tilraun til þess að létta á viðskiptabönkunum, en fjármagnið hlyti svo að renna til undirstöðuatvinnuveganna, því að þar er það, sem skórinn kreppir mest að. Og raunar hafa bankarnir lánað langt umfram getu til þess að halda atvinnuvegunum gangandi. — Ég skal svo ekki orðlengja þetta meira.