19.04.1968
Efri deild: 97. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1476 í B-deild Alþingistíðinda. (1332)

187. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1968

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég hef síður en svo á móti því að svara fsp. þeirri, sem hv. 3. þm. Norðurl. v. bar fram og jafnframt tel ég nauðsynlegt að fara aðeins örfáum orðum um það mál í heild. Það er alveg rétt, sem hann sagði, að vinnan að þessari áætlun hófst á árinu 1966, og var unnið mikið að undirbúningi áætlunarinnar þá, fyrst og fremst að safna upplýsingum varðandi atvinnumálin og ástand og horfur í þeim efnum. Á því ári og fyrri hluta árs 1967 voru samdar skýrslur um atvinnuástand í öllum helztu byggðarlögum á Norðurlandi eða á því svæði, sem áætluninni var ætlað að taka til. Og þessar skýrslur voru þá þegar sendar atvinnujöfnunarsjóði, því að samkv. gildandi l. var gert ráð fyrir því, að byggðaáætlanir séu á vegum þessa sjóðs að því leyti, að framkvæmd þeirra verði í höndum sjóðsins, hvað snertir fjáröflun og fjárhagslegan þátt málanna.

Þetta starf hefur þegar haft mikla þýðingu, vegna þess að þessar upplýsingar og skýrslur hafa verið hafðar til hliðsjónar við margvíslegar lánveitingar frá atvinnujöfnunarsjóði til þessa svæðis síðan þetta átti sér stað. Hitt er alveg rétt, sem hv. þm. sagði, að það varð því miður dráttur á þessari vinnu eða hún féll í rauninni niður að verulegu leyti alllangan tíma ársins 1967, sem var fyrst og fremst því að kenna, að sá maður, sem hafði haft forustu um þessa vinnu í Efnahagsstofnuninni, var ráðinn til annarra starfa, að vísu á Norðurlandi, og koma störf hans þar að góðu gagni, en þó ekki við það verk, sem hann hafði áður að unnið. Efnahagsstofnunin sjálf hafði þá ekki mannafla til þess að taka þetta verk að sér vegna geysilegra anna við önnur verkefni frá miðju ári 1967, sem ég veit, að öllum hv. þdm. er kunnugt.

Hins vegar var hafizt handa um það að íhuga, hvort ekki væri hægt að fá mann, sem þekkingu hefði á þessum málum, til þess að taka þau alveg að sér og þá helzt á þann hátt, að hann ynni að þessum byggðaáætlunum utan Reykjavíkur. Það tókst svo að fá ungan mann til þessa starfs, sem hefur töluvert kynnt sér þessi mál, m.a. farið til Noregs á vegum Efnahagsstofnunarinnar og annarra aðila og kynnt sér gerð byggðaáætlana. Efnahagsstofnunin réði þennan mann til starfa, og hann tók til starfa um síðustu áramót. Það eru vitanlega margvíslegar upplýsingar, sem fyrir liggja, sem munu létta hans starf, þótt ýmislegt þurfi að endurskoða. Það þarf jafnframt að tengja það starf við ýmsa aðra vinnu, sem unnin hefur verið á vegum Efnahagsstofnunarinnar varðandi almenna áætlunargerð á ýmsum sviðum, svo sem í skólamálum, sem þar hefur verið unnið að fyrir allt landið nú um nokkurt skeið.

Sömuleiðis er nú verið að vinna að heildarsamgöngumálaáætlun, sem er brýn nauðsyn að framkvæma vegna fyrirhugaðrar lántöku eða lánbeiðni vegna hraðbrauta. Í sambandi við það verður að gera heildaráætlun um nauðsynlegar samgöngubætur á landinu í heild á öllum sviðum, og þar kemur auðvitað Norðurlandið undir einnig, og er hægt að fella saman þessa starfsemi.

Ég hef skýrt frá því áður, að það verður lögð á það rík áherzla, að þessu starfi verði lokið fyrr en seinna á þessu ári. En auðvitað, eins og hv. þm. sagði, er þetta verk, sem ekki má flaustra af, og þetta er miklu yfirgripsmeira verk en Vestfjarðaáætlunin að því leyti til, að Vestfjarðaáætlunin var að vísu upphaflega samin sem rammaáætlun, einnig um atvinnuvegi, en þar vantar alla útfærslu á því sviði. Samgöngumálakaflinn var hins vegar algerlega tekinn út úr, vegna þess að það blasti við augum, að við uppbyggingu Vestfjarða voru samgöngurnar tvímælalaust fyrsta viðfangsefnið. Þess vegna var hægt að taka það út úr og leita sérstaklega lánsfjár til þess. Það var vitanlega búið að gera sér þá alveg grein fyrir því, hvaða verkum ætti að vinna að, en það var ekki búið að gera svo nákvæmlega kostnaðaráætlun við hverja einstaka framkvæmd, að þess vegna varð fjármagnsþörfin meiri en gert var ráð fyrir, eins og ég sagði í skýrslunni í gær, en það var vitað um allar framkvæmdirnar, sem þurfti að vinna að.

Norðurlandsáætlunin er aftur að því leyti vandameiri, en ég efast stórlega um það, að menn séu reiðubúnir til þess í dag að slá því föstu, hvað þar eigi að vera númer eitt, þannig að það eigi að sitja í fyrirrúmi. A.m.k. eru það naumast samgöngurnar, því að þar hafa orðið stórfelldar umbætur í þeim efnum einmitt núna á síðustu árum, þannig að ég hygg, að menn vildu a.m.k. á Norðurlandinu íhuga það, hvort þeir teldu, að lánsfjáröflun ætti fyrst að koma til þessara þarfa.

Þá vil ég einnig leiðrétta þann misskilning, sem kom ítrekað fram í sambandi við umr. um þetta mál hér í vetur, þar sem því var haldið fram, að ég hefði sagt, að það væri ekki ætlunin, að áætlunin fjallaði um atvinnumálin, heldur yrði fyrst og fremst lögð áherzla á skólamál, hafnarmál og annað þess konar. Ég átti við það, ef ég á að endurtaka það einu sinni enn, að það er ekki ætlunin í þessari áætlun, að þar verði ákveðið, að tiltekin framkvæmd skuli gerð á vissum stað og að ríkið muni hafa forgöngu um að koma þessu upp. Það verður athugað um atvinnuástand á hverjum einstökum stað — athugað, hvaða líkur eru um fólksfjölgun á viðkomandi stað og reynt að gera sér grein fyrir því og koma með ábendingar um það, hvað væru líklegustu framkvæmdirnar, sem gætu skapað trausta atvinnu á þessum stöðum, framkvæmdir, sem væru þess eðlis, að þær hefðu þjóðhagslega þýðingu. En áætlunin mun ekki ganga út frá því, að út í þessar framkvæmdir verði ráðizt af opinberri hálfu, heldur verður þessi áætlunargerð til leiðbeiningar um það, fyrst og fremst fyrir atvinnujöfnunarsjóð og aðra, sem með það hafa að gera og fyrir þá, sem kynnu að vilja ráðast í framkvæmdir á staðnum, að þessar framkvæmdir væru taldar þarfastar og þess vegna mundu þeir, sem vildu beita sér fyrir þeim, fremur öðrum fá aðstöðu til lánsfjáröflunar og annarrar fyrirgreiðslu í sambandi við þessar framkvæmdir. En það er sameiginleg skoðun allra í atvinnujöfnunarsjóði, að til þess að uppbygging sé heppileg á hinum einstöku stöðum, sé það grundvallaratriði, að heimamenn hafi sjálfir forustu um atvinnumálin og um uppbygginguna. Hitt var aftur eðlilegt, að ég talaði um, að ríkið hefði forgöngu um hafnarmálin og skólamálin, vegna þess að það eru framkvæmdir, sem ríkið sjálft á lögum skv. að verulegu leyti að standa undir, og af því leiðir eftir eðli málsins, að það verður þess verk að sjá um fjárveitingu til þeirra.

Eftir þennan inngang er enn ekki komið að fsp. sjálfri um það, hvort gert sé ráð fyrir fjáröflun til Norðurlandsáætlunar í framkvæmdaáætlun þessa árs og það er ekki. Það stafar hins vegar ekki af því, að ekkert hafi verið aðhafzt í þeim efnum. Það hefur þegar verið farið á stúfana með beiðni um það til Viðreisnarsjóðs Evrópuráðsins, sem hefur lánað til Vestfjarðaáætlunar, hvort ekki mundi einnig auðið að fá fyrirgreiðslu þar í sambandi við byggðaáætlun á Norðurlandi, og hefur verið talað um 100 millj. kr. í þessu sambandi, án þess að við vitum nú, hver þörfin í rauninni er, vegna þess að við höfum ekki áætlunina fyrir okkur. Á þessu stigi er ekki hægt að ganga út frá neinni ákveðinni lántökuheimild af þeirri einföldu ástæðu, að við erum ekki með ákveðna áætlun og við erum ekki með ákveðnar hugmyndir um það, í hvaða skyni þetta fé á að takast. Það er ekki formlega hægt að biðja um þetta lán, þó að við höfum hafið umþreifingar á því, fyrr en við getum lagt fram ákveðið plan um það, í hvað við ætlum að taka lánið, hvort það á að vera í samgöngubætur, hvort það á að vera í einhverjar ákveðnar atvinnuframkvæmdir eða til hverra þarfa það á að vera. En það hefur sem sagt verið hafizt handa um það, til þess að það liggi fyrir, því að þessi sjóður hefur einnig mjög takmörkuð fjárráð miðað við allar þær umsóknir, sem til hans koma, að okkar umsókn hefur þar verið bókuð. Við höfum þegar tjáð sjóðnum, að við munum jafnskjótt og við höfum fyrir okkur endanlega niðurstöðu um þessa áætlun, gera sjóðnum grein fyrir því í einstökum atriðum, hvað það væri helzt, sem við legðum áherzlu á að afla fjárins til, þannig að ég tel, að allt hafi verið gert í þessu máli, sem auðið er að gera á þessu stigi til þess að tryggja það, að féð verði til ráðstöfunar, þegar áætlunargerðin er komin það langt, að við getum áttað okkur á því, hvað það er, sem við teljum brýnast á Norðurlandi, að aflað verði fjár til.