08.02.1968
Efri deild: 52. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1675 í B-deild Alþingistíðinda. (1535)

36. mál, umferðarlög

Frsm. meiri hl. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Allshn. tók þetta mál til meðferðar á fundi í gær og hafði hún þá einnig fyrir framan sig till. umferðarlaganefndar, sem getið var um í fyrri umr. um þetta sama mál. Á þessum fundi voru allir nm. mættir nema hv. 12. þm. Reykv. N. var sammála um það eftir allýtarlega yfirvegun á þessari umsögn umferðarlaganefndar að taka þær till., sem hún hafði fram að færa, til greina og flytja till. um þær breyt., sem umferðarlagan. leggur kapp á, að samþykktar verði. Þær brtt. koma fram hér á þskj. 278. Breytingarnar frá því, sem meiri hl. allshn. hafði fyrst lagt til, eru aðallega í því fólgnar, að öryggisbelti, sem eru eitt höfuðatriði málsins, verði í fólksbifreiðum, sem flytja megi 8 farþega eða færri, og í vörubifreiðum, sem skráðar eru fyrir allt að 1000 kg farmi, þ. e. a. s. sendibifreiðar, og í öðru lagi, að þessar bifreiðar komi inn undir löggjöfina eftir 1. jan. 1969. Auk þess á svo ákvæðið einnig að gilda um kennslubifreiðar og bifreiðar, sem eru leigðar án ökumanns, og í síðasta lagi, að Bifreiðaeftirlit ríkisins viðurkenni öryggisbelti í þessum bifreiðum. Eins og getið hefur verið um áður í umr. um málið, er það alvitað, að öryggisbelti í bifreiðum eru tíðkuð víða um lönd og m. a. í nokkrum okkar nágranna landa, og þykir bæði eðlilegt og sjálfsagt, og skýrslur liggja fyrir um það, að þessi belti veita geysimikið öryggi á ýmsa lund. Hins vegar hefur ekki þótt rétt að fara lengra í till. en að miða við öryggisbelti fyrir bifreiðarstjóra og farþega í framsæti, með því m. a. að öryggi þeirra, er sitja í aftursætum bifreiða, er mun meira, eins og skýrslur sýna. Að öðru leyti hefur þetta mál verið það vel kynnt hv. dm., að það er ekki ástæða til þess að ræða það nánar, en allshn. leggur til að brtt. á þskj. 278 verði samþykktar eins og þær liggja þar fyrir.

Herra forseti. Ég vildi bæta því við, að jafnframt þessu eru að sjálfsögðu brtt. frá meiri hl. allshn. á þskj. 260 teknar aftur.