04.03.1968
Neðri deild: 68. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1700 í B-deild Alþingistíðinda. (1571)

61. mál, Fiskimálaráð

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður lýsti sig andvígan þessu frv. og flutti hér alllanga ræðu til rökstuðnings því, að hann væri andvígur því, og hann kom hvað eftir annað inn á það, að hann teldi, að þessum málum væri bezt skipað, ef þau væru í höndum þeirra aðila sjálfra, sem ynnu að sjávarútvegi. En ég hygg, að hv. ræðumaður hafi mjög misskilið frv., ef hann telur, að það eigi að taka þessi mál úr höndum þeirra manna, sem eru í forustu fyrir sjávarútveginn, því að tilgangur frv. er sá að samræma og sameina alla þá aðila, sem vinna að sjávarútvegi, bæði að því að afla fisksins og vinna úr fiskinum og sömuleiðis að selja fiskinn, jafnframt því að hafa samvinnu við þær helztu lánastofnanir, sem lána til sjávarútvegsins hver á sínu sviði. Ég tel, að Landssamband ísl. útvegsmanna, Félag ísl. botnvörpuskipaeigenda, Sjómannasamband Íslands, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Alþýðusamband Íslands, Félag fiskiðnfræðinga, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, sjávarafurðadeild Sambands ísl. samvinnufélaga, Sölusamband ísl. fiskframleiðenda, síldarútvegsnefnd, Félag ísl. fiskimjölsframleiðenda, Félag ísl. niðursuðuverksmiðja, Samlag skreiðarframleiðenda, að hér sé um að ræða alla þá aðila, sem vinna að öflun hráefnis eða vinnslu úr sjávarafurðum, og það eru heildarsamtök hvert á sínu sviði, sem tilnefna mann í viðkomandi fiskimálaráð. Mér finnst líka eðlilegt, að það sé til ein heildarstofnun fyrir atvinnuveg, sem er um 90–95% af þjóðarútflutningnum, en hún er ekki til í dag. Það verður að samræma störfin og samræma stefnuna hverju sinni. Og ég er hv. síðasta ræðumanni gersamlega ósammála í þeim efnum, að ég telji það ástand, sem er ríkjandi í þessum efnum, viðunandi. Ég tel, að það þurfi að skipuleggja miklu frekar tilfærslu fjármagnsins heldur en gert hefur verið. Hann kom mjög inn á uppbyggingu síldveiðiflotans, en hann kom ekki inn á það, að á sama tíma og lagt var svo mikið kapp á uppbyggingu síldveiðiflotans, gekk sá floti, sem aflar á hinum ýmsu stöðum úti á landi utan síldveiðisvæðisins, verulega saman, því að það hafði enginn áhuga á því að byggja þann flota upp. Það þarf að gera ráðstafanir um mótun heildarstefnu á þann veg að hækka lánveitingar til slíkrar uppbyggingar, þannig að hún dragist ekki svo verulega saman, að það þurfi svo aftur á örfáum árum að gera stórátak, þegar viðkomandi floti er verulega búinn að ganga úr sér. Ég nefni þetta sem dæmi um það, hvað hér hefur verið handahófskennt, ekki endilega nú á síðustu árum, heldur á síðustu áratugum, vegna þess að það hefur ekki verið skipulag á þessum málum.

Hvað er eðlilegra en að allir þeir, sem vinna að þessum atvinnuvegi, bæði launþegar og atvinnurekendur, komi saman í einu ráði, skiptist á skoðunum og reyni að mynda þar sína heildarstefnu? Ég vil segja fyrir mitt leyti, að þó að ég eigi að heita fremur í hópi atvinnurekenda, þá tel ég fullkomna ástæðu til þess, að sjómenn og sjómannasamtökin hafi aðild að slíkri stofnun, en þau hafa það hvergi í dag, og það er hvergi reynt að koma þessum stofnunum saman til þess að mynda heildarstefnu, heldur er hver fyrir sig að taka sína afstöðu, og það rekur sig hvað á annars horn, vegna þess að það vantar að skýra sjónarmið allra aðila. Það eru nú starfandi í sjávarútvegi fjölmargar stofnanir, sem vinna að því að reikna út hag og afkomuhorfur, hver á sínu sviði. Efnahagsstofnunin tekur svo að sér að reikna út um hver áramót, áður en fiskverð er ákveðið. Væri ekki meira vit í því, að stofnun eins og fiskimálaráð myndaði eina hagstofnun fyrir sjávarútveginn, og leggja allar þessar reikningaskrifstofur niður? Það yrði hlutlaus hagstofnun, sem sjómannasamtökin ættu aðild að, útvegsmannasamtökin, sölusamtökin og Efnahagsstofnunin. Ætli það væri ekki léttara í vöfum í sambandi við fiskverðsákvörðun að láta slíka stofnun eina starfa árið um kring og leggja þær fjölmörgu niður sem eru að reyna að mála fjandann á vegginn, hver á sínu sviði, til þess að láta líta sem verst út frá sínum bæjardyrum séð, fiskkaupendur annars vegar, fiskseljendur hins vegar, — það eru tugir manna, sem starfa jafnvel nokkurn hluta af árinu að þessu, — mynda hér eina stofnun, sem vinnur hlutlaust úr upplýsingum, þannig að samtökin, sem hér eiga hlut að máli, geti reitt sig á slíka eina stofnun, þar sem þeir eru aðilar, en þær séu ekki hver fyrir sig að útbúa sín plögg og sínar skýrslur og rífast um það vikum og mánuðum saman?

Mér skildist á hv. ræðumanni, að honum fyndist ekki ástæða til að mynda slíka stofnun sem þessa, en hins vegar sé um allt annað að ræða í sambandi við iðnaðinn, og þá hefur hann sennilega haft í huga tiltölulega nýstofnað iðnþróunarráð, því að þar væri hráefnið alltaf fyrir hendi og miklu léttara að skipuleggja það en sjávarútveginn. Rétt er það hjá hv. ræðumanni, að við skipuleggjum aldrei til hlítar aflabrögðin eða hversu mikill afli kemur á land. En ég tel miklu meira virði að skipuleggja betur og meir sjávarútveginn heldur en iðnaðinn, án þess að ég ætli að gera á nokkurn hátt lítið úr stofnun iðnþróunarráðsins, því að hvar er meiri ástæða til að skipuleggja meira og betur en í sjávarútvegi. Ég hef séð og ég veit um mörg dæmi þess, að það hafi verið byggðar fiskverkunarstöðvar á litlum stöðum sem stórum, þar sem nóg var af fiskverkunarstöðvum fyrir, vegna þess að það var ekkert skipulag. Þegar einn sjóðurinn eða ein lánastofnunin neitaði, þá var farið í hina. Það þarf að koma hér á betra skipulagi, og það getur vel verið, að það væri kannske betur ástatt hjá mörgum af þessum atvinnufyrirtækjum, ef þau hefðu ekki risið hvert upp við hliðina á öðru og væri að drepa hvert annað á undanförnum árum. Ég hygg, að það þurfi að gera hér breytingu á, og það er ekki vanþörf á því að stofna til slíks ráðs, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir.

Nú má enginn halda það, þó að eigi að taka upp skipulag í atvinnurekstri, að við séum að ganga til sósíalisma. Bandaríkin, það mikla land kapítalismans, hika ekki við að skipuleggja mikið í sínu atvinnulífi. Við verðum að skipuleggja. Að vera á móti skipulagningu, það heyrir til liðinni tíð, og ég skil eiginlega ekki í greindum og gegnum mönnum, sem hafa mikla reynslu í atvinnulífinu, að berjast gegn skipulagningu, að berjast gegn því að taka upp skynsamlega stefnu, að marka skynsamlega stefnu og fá sem víðtækast samstarf á hverjum tíma. Ég hygg að það, sem við þurfum fyrst og fremst að gera, Íslendingar, það sé að auka samstarfið á milli stétta. Það væri kannske minna um verkföll og minna um vinnudeilur, ef það væru samstarfsnefndir starfandi árið um kring, sem reyndu að skilja betur sjónarmið hver annarrar og fræðast á því, og það er ekki einkamál atvinnurekenda hver þeirra hagur er, það er ekki einkamál, það er mál þjóðarinnar hverju sinni. Allar þjóðir eru í æ ríkari mæli að veita þeim, sem hjá þeim vinna, frekari aðild að því að fylgjast með rekstri fyrirtækja, og ég tel það rétta og farsæla stefnu að gera það, og ég tel það rétt og skynsamlegt að mynda slíkt ráð sem þetta og veita samtökum sjómanna aðild að slíku ráði, því að þeir eiga sannarlega að vera með í þessari uppbyggingu. En það á ekki hver að vinna fyrir sig. Og það á ekki hver lánastofnun að hafna sambandi við aðrar. Þegar ein hefur sagt nei, þá þykir hinni sérstök ástæða til þess að segja já, jafnvel þó að málið sé óskynsamlegt og hafi ekki nokkra þýðingu fyrir þann, sem um það er að biðja, en hafi aftur þá þýðingu að drepa aðra, sem fyrir eru í sömu atvinnugrein. Það er þetta, sem við þurfum að laga, og það er enginn minni maður fyrir það, þó að hann viðurkenni, að það hefur ýmislegt farið forgörðum á liðnum árum, og það eru miklu stærri og meiri menn, sem viðurkenna það og vilja bæta úr því, og ég tel tvímælalaust þetta frv. og stofnun þessa fiskimálaráðs vera spor í þá átt að koma á gagnkvæmum skilningi og samvinnu milli allra þessara aðila.

Að lokum ætla ég lítillega að koma inn á það mál, sem hv. síðasti ræðumaður var þó einna jákvæðastur í, en það er í sambandi við markaðsmálin. Þar höfum við verið á eftir, þótt einstakir aðilar og samtök hafi unnið þar mjög merkt starf á liðnum árum og sérstaklega samtökin í frystiiðnaðinum. En við verðum sannarlega að taka okkur saman í andlitinu, Íslendingar, í sambandi við markaðsmálin. Það er alltaf að verða harðari og harðari samkeppni. Með tækninni vex aflinn svo gífurlega hjá mörgum öðrum þjóðum, að við erum að verða undir í baráttunni um að selja, og við þurfum sannarlega að gera stórátak í sambandi við markaðsöflun og markaðsrannsóknir, reyna að vinna að því að afla okkur viðskipta hjá fleiri þjóðum en við höfum skipt við á liðnum árum, og þar er mikið starf að vinna. Sá aðili, sem hefur lagt mest fjármagnið fram til markaðsleitar og markaðsöflunar, er tekinn með inn í þetta frv., gerður að aðila að fiskimálaráði, en það er fiskimálasjóður. Að vísu eru það ekki risaháar upphæðir, sem hann hefur lagt fram, en það er þó það langmesta, sem hefur komið til markaðsleitar og auglýsingastarfsemi fyrir íslenzkan sjávarútveg frá fiskimálasjóði, og það hlýtur að vera gagnlegt að mynda slík samtök, þar sem allir þessir aðilar eiga fulltrúa og hver fulltrúi fyrir sig getur rætt í sínum hópi og tekið afstöðu til mála. Það er trú mín og von, að þetta frv. verði samþ. og þar með verði lagður grundvöllurinn að því að taka upp betra skipulag, bæði við öflun, vinnslu og sölu sjávarafla, en verið hefur á liðnum árum. Hitt skal ég taka undir, sem hv. frsm. n. gat um, að það má finna að þessu frv., það má bæta það á margan hátt, og ég tel, að þegar það hefur sýnt sig, að þetta er komið á stofn, þá er alltaf tími til þess að bæta við frv. og gera það fyllra í sniðum.

En áður en ég lýk máli mínu, vil ég koma inn á það, að með þessu frv. er ekki verið að taka fram fyrir hendurnar á einum né öðrum. Það á ekki að vera að banna neinum að reisa fiskverkunarstöðvar, það gerir fyrst og fremst ráð fyrir því að skipuleggja það fjármagn, sem er varið til þessara hluta, þannig að það sé ekki lánað framvegis til fiskverkunarstöðva á stöðum, þar sem nóg er fyrir af þeim, því að þar er sannarlega kominn tími til að spyrna við fótum. En ef einhverjir eiga það mikla peninga, að þeir geta reist fiskverkunarstöðvar á slíkum stöðum án þess að sækja fjármagn í hina sameiginlegu sjóði þjóðarinnar, þá þeir um það.