28.11.1967
Efri deild: 25. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í B-deild Alþingistíðinda. (161)

66. mál, verðlagsmál

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð út af ummælum hæstv. viðskmrh. hér í dag.

Hæstv. viðskmrh. sagði við 1. umr. þessa máls, að verðstöðvunarl. frá 1966 næðu yfir fleira en lög um verðlagsmál og þ. á m. næðu þau yfir útsvarsálagningu.

Það væri fróðlegt að vita og það býst ég við, að hæstv. félmrh. geti upplýst, hversu mörg sveitarfélög þurftu á s.l. sumri að sækja um hækkun varðandi útsvarsálagningu, þ.e.a.s. að sækja um að fá hækkaðan útsvarsstigann frá árinu áður, en eins og kunnugt er, þá var það ekki leyfilegt nema með leyfi hæstv. ríkisstj. En hver er svo ástæðan fyrir því, að sveitarfélögin þurftu að fá hækkanir? Er hún innlends eða erlends eðlis? Er það erlent verðlag, sem þar hefur komið til greina, eða er það innlent? Ég vil minna á það í þessu sambandi, að á s.l. vetri eða síðasta þingi var framlag Jöfnunarsjóðs sveitarfél. skert um ca. 20 millj. kr. samhliða því, sem lækkuð voru framlög til opinberra framkvæmda um 10%. Þessar ráðstafanir m.a. voru orsök þeirra útsvarshækkana, sem orðið hafa, og ég vil segja að séu af innlendum rótum runnar, enda þótt hæstv. viðskmrh. héldi því hins vegar fram, að engar hækkanir hefðu átt sér stað af innlendum orsökum. Verðstöðvunin, það er vitað mál, að hún var kosningabrella hæstv. ríkisstj. og þetta er þegar sannað mál með frv. til l. um efnahagsráðstafanir. Það frv. felur í sér um 750–800 millj. kr. álögur á þjóðina. Þetta er víxillinn, sem tekinn var fyrir ári síðan vegna verðstöðvunarinnar. En þetta er sá þátturinn, sem snýr að ríkisstj. Þar fyrir utan eru hækkuð útsvör, hækkanir á tryggingagjöldum til almannatrygginga og sjúkrasamlaga m. fl. Það er líka vitað mál, að þjóðin fær nú að borga brúsann ríflega, enda þótt reynt sé að telja henni trú um, að verðstöðvun hafi ríkt, sem er búið að afhjúpa með frv. því, sem ég nefndi áðan. Auk þessa alls hefur ísl. kr. verið felld gagnvart erl. gengi um 24.6%. Það talar því sínu máli um, hvernig ástandið er og hvaða ástand hefur skapazt í landinu á s.l. ári og hvers eðlis verðstöðvunin var. Verðhækkanir áttu sér stað eigi að síður, enda þótt reynt væri að blekkja þjóðina með því, að engar hækkanir hefðu átt sér stað. Því að á næsta ári og næstu árum verður þjóðin að borga þær verðhækkanir, sem áttu sér stað í tíð verðstöðvunarinnar, en þjóðin var leynd þeim hækkunum, sem voru raunverulegar og áorðnar fyrir kosningar á síðasta vori.

Ég vildi, að þetta kæmi hér fram, af því að ég tel, að þessar verðhækkanir séu innlends eðlis, enda þótt mér sé ljóst, að hæstv. ríkisstj. sé völd að þessum hækkunum, og ég tel ríkisstj. innlenda, enda þótt ýmsum finnist, að á henni sé erlendur blær.

Ég vænti því, að hæstv. félmrh. geti upplýst það, hvort sveitarfélögin almennt hafi getað látið sér nægja að nota sömu útsvarsstiga og árið áður og þannig upplýst það, hvort verðstöðvunin hefur haft sitt gildi, eins og þjóðinni var talin trú um.