08.04.1968
Neðri deild: 94. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1776 í B-deild Alþingistíðinda. (1652)

110. mál, búnaðarmálasjóður

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég hef lítið verið hrifinn af þessum skatti. Það er þannig, að það er verið að reyta af þessum atvinnuvegi ýmist 1/2 eða 1%. Þeir eru orðnir nokkuð margir þessir skattar. Því er alltaf haldið fram, að það sé þörf á þessu til eins eða annars, en það þarf að greiða þetta, og við vitum það, að atvinnuvegirnir eru að sligast. Ég var í landbn., þegar þetta var samþ. síðast og átti meðal annarra þátt í því, að þetta var lögfest aðeins í 2 ár. Nú er farið fram á, að það sé frá 1968–1971, að báðum árum meðtöldum. Það er því gengið lengra heldur en var, þegar farið var fram á það til fjögurra ára, því að þetta er enn þá 1968, 1969, 1970 og 1971. Brtt. liggur frammi um að stytta þetta niður í tvö ár. Sá aðili, sem flytur hana, er hér ekki viðstaddur og talar ekki einu sinni fyrir henni. Mér skilst, að það sé ekki meiri hl. n. á bak við þá till., þannig að það séu allar líkur til, að þetta verði framlengt í 4 ár.

Það er ósköp notalegt fyrir menn, er þeir byggja hús eða gera einhverjar framkvæmdir að geta bara skattlagt atvinnuvegina. Það er ósköp þægilegt að fá peninga á þann hátt. Það er kannske erfiðara að greiða þá, og ég held, að ástæður bænda séu þannig nú, að við þurfum að gæta að því, hvað við erum að gera. Ég kom ásamt hæstv. 2. þm. Reykn. með frv. um það að afnema söluskattinn á kjötvörur. Fjhn. er ekki farin að skila neinu áliti um það enn þá. Það sjá allir menn, hvað það er fáránlegt að vera að láta fólkið borga af kjötvörum 7% söluskatt, öllum kjötvörum, og þurfa svo að greiða kjötið niður. Þetta er aðeins til þess, að það selst minna af kjötinu. Það þarf að flytja meira út af því, fyrir utan það, sem týnist í allri þessari umferð. Ég hef satt að segja aldrei verið mjög óvinsamlegur út í framlagið til Búnaðarbankans. Það hefur verið þörf fyrir það, en mér finnst það mjög takandi til athugunar, hvort ekki ætti að reyna að lækka það t. d. um helming. Við vitum, að það vantar töluvert mikið á, að bændur fái það, sem þeim er ætlað nú í ár fyrir afurðirnar, líklega 60–100 millj., einhvers staðar á því bilinu, og það er sannarlega takandi til athugunar, hvað hægt er að gera til þess að greiða fyrir því, að þetta verði sem minnst.

Það má vel vera, að það sé full þörf fyrir Bændahöllina að fá þetta. Áreiðanlega er þetta ósköp þægilegt fyrir þá, sem hafa með þessi mál að gera. En ef menn fá peninga með svona hægu móti, reyna þeir ekkert aðrar leiðir. Það hefði í sjálfu sér ekki mátt minna vera heldur en ríkisstj. hefði hlutazt til um það, að þeir fengju lán, innanlandslán, í Bændahöllina. Ef það hefði fengizt, væru engir erfiðleikar. Það eru endurteknar gengislækkanir, sem hafa farið verst með þetta fyrirtæki. Fleiri millj. kr. tap nú á þessu ári fyrir utan fyrri gengislækkanir, sem hafa valdið því tugmilljóna tjóni. Satt að segja hefur þetta verið nauðsynjamál fyrir þjóðina. Þetta er eina hótelið, sem gerir það mögulegt að taka á móti erlendum gestum sómasamlega. Og það hefði ekki mátt minna vera, þegar bændastéttin og fulltrúar þeirra höfðu forgang um þetta mál, en greitt væri fyrir því, að þeir fengju lán innanlands, þannig að þeir þyrftu ekki sífellt að vera að fara fram á þessar álögur á bændastéttina. Það er nú meira en þetta, sem rennur til Bændahallarinnar. Það er 1/4%, sem fer í gegnum Stéttarsambandið. Megnið af því fé fer til Bændahallarinnar, þannig að við höfum borgað þetta frá 3/4 og upp í 1% af öllum söluvörum bændanna, þannig að þetta er orðin drjúg upphæð, sem þeir hafa borgað. Eftir þessu bréfi, sem við fengum, sem raunar er undirskrifað af einum búnaðarþingsfulltrúanum, en við vitum, að það var meiri ágreiningur innan búnaðarþings, það voru fleiri, sem voru tregir að vera með þessu gjaldi eða jafnvel greiddu atkv. á móti því, þá eru þetta um 70 millj., sem bændur eru búnir að leggja fram, þó að við reiknum ekki þessa vexti, og þetta hefði sannarlega átt að nægja, ef vel hefði verið á öllu haldið. En það eru þessar endurteknu gengislækkanir, sem ég er búinn að minnast á, og svo ófullnægjandi fyrirgreiðsla af hálfu ríkisvaldsins, sem gat útvegað þessi lán innanlands, ef eitthvað hefði verið gert til þess.

Nú er búið að útbýta nýju frv. í dag um fjárfestingarframkvæmdir ríkisins. Það á enn þá að bjóða út lán. Það á enn þá að taka peninga úr bönkum, sem eru þegar svo peningalausir, að þeir geta engan veginn fullnægt þeim þörfum, sem atvinnuvegirnir hafa fyrir lánsfé. Hvað á þetta að ganga lengi, að safna skuldum í góðærum og hvenær á að borga það? Í hallærunum? Það þarf sannarlega að draga úr þessari óþarfa eyðslu, og ég held satt að segja, að þó að við hættum að borga þetta gjald, þá verði gerðar einhverjar ráðstafanir um fyrirgreiðslu á lánum, þannig að það verði leyst úr þessu máli. En ef við borgum og borgum, er allt útlit fyrir, að þetta ætli að verða eilífðarskattur. Það hefur alltaf verið sagt, að þetta væri í síðasta skipti. Það koma alltaf nýjar og nýjar kröfur, 4 ár nú.

Það er náttúrlega sjálfssök okkar forráðamanna, að það var ráðizt í þetta að ófyrirsynju og má segja, að við megum sakast við þá um það, en ekki ríkisvaldið. En ég held endilega, að það hefði verið hægt að greiða betur fyrir lánsútvegun, þannig að þessir erfiðleikar, sem voru af þessum endurteknu gengislækkunum, hefðu ekki komið eins illa við, og í öðru lagi nær það náttúrlega engri átt með svona stóra byggingu og varanlega og vel gerða, að viðkomandi ríkisstj. hlutist ekki til um að greiða fyrir með lánsútvegun, þannig að þetta verði ekki til stórbyrði fyrir þá stétt, sem hefur staðið að þessu, og satt að segja eru bændur búnir að borga alveg nóg, að borga um 70 millj. beint og óbeint. Húsið ætti sannarlega að geta greitt það, sem eftir er af byggingunni, ef skynsamlega væri á öllu haldið af öllum aðilum, bæði þeim, sem hafa ráð yfir peningamálum þjóðarinnar, og eins þeim, sem veita þessum málum forstöðu. Þess vegna get ég ekki verið með þessum skatti nú. Ekki það, að ég vilji gera þessari stofnun neinn ógreiða, en ég held, að það sé ómögulegt að vera með svona eilífðarsköttum, og það er sannarlega ástæða til nú fyrir bændastéttina að fara að athuga, hvað hægt er að komast hjá að greiða, bæði í þeirra einkarekstri og eins í þeirra félagsmálum, því að þeir þurfa áreiðanlega á öllu sínu að halda.