28.11.1967
Neðri deild: 31. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í B-deild Alþingistíðinda. (168)

66. mál, verðlagsmál

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í hv. Ed. varð um það samkomulag milli allra þingflokka að gera þá breyt. á þessu frv., að verðlagsnefndin skyldi skipuð þannig, að 3 nm. skuli skipa samkv. tilnefningu ASÍ, 1 samkv. tilnefningu BSRB, 2 samkv. tilnefningu Vinnuveitendasambands Íslands, 1 samkv. tilnefningu Verzlunarráðs Íslands og 1 samkv. tilnefningu Sambands ísl. samvinnufélaga, en 9. nm. sé ráðuneytisstjórinn í viðskmrn. Þetta frv. er upphaflega flutt af ríkisstj. til þess að verða við ósk frá ASÍ. Ríkisstj. taldi sig með fyllstum hætti verða við þeirri ósk ASÍ, sem fram við það var borin, með því að gera ráð fyrir því, að ASÍ sjálft tilnefndi alla þá fulltrúa, sem gert var ráð fyrir, að af neytenda hálfu, ef ég mætti komast svo að orði, væru í n. Ríkisstj, varð að vísu fljótlega kunnugt um, að BSRB mundi óska þess að eiga aðild að þessu samkomulagi, en leit hins vegar þannig á, að ef ASÍ vildi, að BSRB ætti sæti í n., gæti ASÍ tilnefnt fulltrúa í samráði við BSRB eða haft hliðsjón af óskum BSRB í því sambandi. Á þessu var byggð sú afstaða ríkisstj., þegar málið var til umr. hér í gærkvöldi, að fella till., sem flutt var af hálfu stjórnarandstöðunnar um breytingu á frv. í þessa átt.

Nú hefur síðar hins vegar komið í ljós, að ASÍ óskar þess mjög eindregið að þurfa ekki að hafa þann hátt á að hafa samráð eða þurfa að ræða við BSRB um tilnefningu fulltrúa af sinni hálfu í n. og óskar þess mjög eindregið, að þessi breyting sé gerð á frv. Þess vegna hefur ríkisstj. og hennar stuðningsflokkar fyrir sitt leyti fallizt á, að sú breyting yrði gerð og mælir með því, að frv. verði afgreitt hér í hv. d. með þeim hætti, sem það kemur frá hv. Ed.