25.11.1967
Neðri deild: 26. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í C-deild Alþingistíðinda. (2175)

59. mál, vegalög

Flm. (Valtýr Guðjónsson):

Herra forseti. Ég skal nú ekki eyða löngum tíma í þetta, sem ég segi núna, ekki beint ástæða til þess, hvorki af síðustu ræðu né ræðu hæstv. samgmrh. En ég verð að viðurkenna það, að það er óguðlegt af mér, það er ekki fallega gert af mér, ef ég hef gert hv. 1. þm. Reykn. (AJ) vondan. Mér fannst hann vondur, þegar hann var að tala. Það fannst mér alger óþarfi. Það er skiljanlegt, að hann heldur, að málið sé eitthvað ekki hagstætt fyrir sig pólitískt. Það kann að vera, að það sé svo. En ég hef nú ekki beint gert mér grein fyrir því. Sannleikurinn er sá, að það er og var nokkurn veginn sama, hvar í flokki menn stóðu, þeir eru ákaflega mikið á móti þessari uppátekt, að taka skattinn af vegfarendum, og það er alveg eins enn þá og það var. Seinast í gær hitti ég einn ágætan sjálfstæðismann í Keflavík, og hann sagði náttúrlega við mig: Þú verður að gera svo vel að afnema skattinn. Ég sagðist skyldu gera það, ef ég gæti. Það var sjálfstæðismaður. Ég veit ekki, hvað ég get.

Um atriði í ræðu hv. 1. þm. Reykn. held ég, að ég þurfi ekki neinum orðum að eyða.

Hæstv. samgmrh. tók málinu ljúflega, eins og honum sæmdi og ber líka skylda til, þegar hann er í þessari mikilvægu stöðu, og ræddi það á ýmsan hátt og flutti rök, sem hann hefur beitt áður og þeir aðrir um það, að það væri ekkert við þetta að athuga, að taka vegaskatt af Keflavíkurvegi, og það hefur maður margheyrt. En móti því var ég að mæla þarna áðan, svo að það stendur náttúrlega orð á móti orði. En ég vil einmitt minnast þeirrar stundar, þegar þetta geysimikilvæga mannvirki var tekið til notkunar. Þá rann mér til rifja, að ekki skyldi vera nein athöfn við það. Mér er ekki kunnugt um það, að neinar till. hafi verið uppi um það að halda kaffiboð, hvorki inni á tollsvæðinu eða utan þess. Ég hef a.m.k. ekki verið á fundi, þar sem það kom til atkv. En svo mikið er vist, að það varð ekkert úr því, að það væri nein athöfn, heldur kom hæstv. samgmrh. fyrstur að hliðinu í lögregluvernd. Hátíðleikinn var ekki meiri en það, og það var reglulega grátlegt. Og ég tel, að það hafi verið bara af hreinu hugsunarleysi að fara að nota þessa heimild í þessu sambandi, þó að vegurinn yrði lagður á Suðurnes, sem nauðsynlega þurfti að koma, bæði vegna Suðurnesjamanna og líka ríkisins sjálfs. Allir hefðu verið mjög ánægðir með að láta skattheimtuna bíða og a.m.k. að gera fólkinu það meira ljóst heldur en um var að ræða, því að sannleikurinn er sá, að það var fjöldi manna þarna suður frá, sem aldrei trúði því, að þessari skattheimtu yrði beitt, allra sízt strax, um leið og vegurinn var opnaður.

Ég ítrekaði það í minni ræðu áðan, að framkvæmdin var mjög mikilvæg og ómetanleg sem slík fyrir okkur, og það er auðvitað hreinn misskilningur eða útúrsnúningur af ásettu ráði að lesa það út úr því, sem ég sagði, að ég hefði kallað þetta óþurftarverk. Ég kalla það óþurftarverk að taka þennan skatt af fólki, sem fer um veginn. Við vitum það nefnilega, að það er víða lagt fé í samgöngubætur á Íslandi. Ég vil hins vegar ekki fara neitt út í það eða ala á neinni öfund út af því. Það er, eins og ég sagði í minni ræðu, mjög gott og nauðsynlegt að geta varið sem mestu fé í samgöngubætur hvar sem er á landinu. Hérna erum við svo heppnir að vísu að fá fyrsta veginn, sem er fullgerður. Það koma margir á eftir. Og staðreyndin er sú, að fé, sem fæst út úr þessari skattlagningu, er svo lítið, að það gerir aldrei neitt strik í reikninginn í sambandi við það, að það sé hægt að gera meira en ella í vegamálum. Það er svo lítið. Það verkar fyrst og fremst til þess að gera menn óánægða með ágætt verk.

Hæstv. samgmrh. sagði, að menn væru nú orðnir yfirleitt ánægðir með að borga skattinn. En það er nú ekki tilfellið. Við vitum það, sem umgöngumst menn á þessu sviði, sem hafa með atvinnurekstur að gera, að þeir eru mjög óánægðir með skattinn út af fyrir sig, þó að þeir séu hins vegar ánægðir með mannvirkið.

Um það, að það hafi dregið úr tilkostnaði á farartækjum, viðhaldi þeirra og þar fram eftir götunum, það held ég að hljóti nú að vera að hafi gerzt, alveg eins og verður annars staðar, hvar sem er um landið, að það fari betur með bílana, þar sem vegirnir eru orðnir sæmilegir, og að þessu er unnið, eins og ég segi, víðar en þarna á þessu svæði. En þrátt fyrir það, að þetta sé nú svona, að menn græði kannske stórfé á því að aka Keflavíkurveg, þá hafa fargjöld ekki lækkað neitt. Mér er kunnugt um það, að sérleyfishafar Keflavíkur borga nokkuð mikinn skatt, eins og eðlilegt er, því að þeir fara svo margar ferðir á dag. Skatturinn var 1968 um 350 þús. kr. Hann er það hár auðvitað af því, að ferðirnar eru margar. En í sambandi við einmitt það, þegar maður sér þessa tölu í reikningum þess fyrirtækis, þarf maður að gæta líka að hinu, hvað viðhaldskostnaðurinn á þessum bifreiðum, sem þarna aka, hefur lækkað. Staðreyndin er sú, að hann hefur ekki lækkað þrátt fyrir þetta. Ég er hins vegar ekki að halda því fram, að bifreiðaeigendur hafi ekki grætt á þessu.

Ég skal svo ekki orðlengja þetta öllu meira, tók fram í minni fyrri ræðu það, sem ég taldi mig þurfa að taka fram, og ég held því enn fram, að menn hafi ekki trúað því almennilega fyrst, að skatturinn yrði á lagður. Ég vil ekki eyða tíma í að fara út í þann þátt málsins, sem spannst af breyttri áætlun um efnið í veginn, það er svo langt mál. Það var aðeins drepið á það af hv. 1. þm. Reykn. áðan og væri náttúrlega fróðlegt, en það kæri ég mig ekkert um að rekja núna, en það þótti okkur á sínum tíma dálítið skrýtið, þegar það kom allt í einu á dagskrá að hætta við að steypa veginn, en malbika hann heldur. En ég fagna því að öðru leyti, að hæstv. samgmrh. vill gangast fyrir því, að það sé gengið úr skugga um vilja Alþingis um, hvort þessi skattur skuli afnuminn eða ekki.