31.10.1967
Efri deild: 10. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í C-deild Alþingistíðinda. (2214)

31. mál, byggingasamvinnufélög

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson) :

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þessar umr. frá því, sem orðið er. Eftir síðustu ræðu hv. frsm. ber ekki svo mikið á milli, að þess sé þörf. En ég vil þó ítreka það, sem ég sagði áður, að þrátt fyrir það, þó að ýmislegt sé enn ógert og því miður allt of mikið í sambandi við lausn þessa mikla vanda, sem húsnæðismálin eru, verður þó að viðurkennast, að fyrir samstillt átak ríkisvalds, verkalýðsfélaga og annarra, sem þar hafa komið að á undanförnum árum, hefur stærra átak, stærri fjárveitingar til þeirra mála og stærri átök um nýjungar í byggingarframkvæmdum aldrei áður átt sér stað í byggingarsögu þjóðarinnar. Það er staðreynd, sem verður ekki fram hjá komizt.

Það er hins vegar enn þá hryggileg staðreynd, að 600–800 umsóknir skuli ekki fá afgreiðslu nú á yfirstandandi ári. En mig minnir, að ég hafi ekki heyrt stórar hvatningar til úrlausnar þeim vanda, þegar við árum saman í húsnæðismálastjórn sátum við það borð að afgreiða 20–25% af fjárþörfinni, sem þá var uppi, og er gott að eiga nýja stuðningsmenn hjá hv. framsóknarmönnum til lausnar þessum vanda nú, þegar þeir sjálfir bera ekki ábyrgðina á framkvæmdum. Þetta er eigi að síður staðreynd, sem átti sér stað á árunum fyrir 1960, að þannig var vinnuaðstaða húsnæðismálastjórnar í þá daga. Og svo langt náðist á síðustu árum, að í hinum þremur lánveitingum var hægt að fullnægja öllum fyrirliggjandi lánsumsóknum, en síðan hefur vegna minnkandi tekna og aukinna byggingarframkvæmda aftur sigið í áttina til þess, sem áður var, og biðraðir hafa skapazt. Við skulum vona, að með sameiginlegu átaki allra þeirra, sem nú láta í ljós vilja sinn til þess að leysa þennan vanda, verði aftur hægt að minnka þessa biðröð og helzt eyða henni með öllu.

Þetta vildi ég láta nægja varðandi þær almennu umr., sem um húsnæðismál hafa hér orðið. En varðandi frv, sjálft vildi ég aðeins segja, að ég tel eðlilegt, að sú n., sem frv. fær til meðferðar, leiti álits húsnæðismálastjórnar á ákvæðum þess, þar sem húsnæðismálastjórn hefur nú með höndum allsherjar endurskoðun á opinberum afskiptum af byggingarmálum, og hefur nýverið verið eftir því óskað, að stjórnin lyki þeirri endurskoðun sem allra fyrst, og teldi ég þá eðlilegt, að ákvæði þessa frv. yrðu þar með. Ég tel það vera eðlilega framvindu málsins.