26.03.1968
Neðri deild: 82. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 727 í C-deild Alþingistíðinda. (2527)

169. mál, áfengislög

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs aðeins til þess að fara nokkrum orðum um flutning þessa máls, og geri ég það, vegna þess að ég á sæti í allshn., og hv. frsm. málsins er hér ekki viðstaddur, en var hér fyrir skömmu.

Það, sem gerðist í sambandi við flutning þessa máls, er, eftir því sem ég man bezt, þetta: Nú fyrir fáum dögum skýrði form. n. frá því, að fyrir lægi bréf frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu um þetta mál, og ég skildi það svo, að það bréf væri venjulegs eðlis, að n. væri beðin að taka málið til flutnings, og þetta held ég, að nm. hafi yfirleitt skilið svo. Ég óskaði ekki eftir að sjá þetta bréf, taldi ekki ástæðu til þess, en ég skildi þannig efni þess. Síðan kynnti formaður n. efni þessa frv., og eftir það tók n. ákvörðun um flutning frv., og ég man greinilega eftir því, að ég sagði eitthvað á þá leið, að ég vildi að sjálfsögðu að venju verða við beiðni rn. um að flytja málið. En sem slíkt er þetta frv. ekki samið af n., enda liggur það nú nokkurn veginn í augum uppi, að það er það ekki, þar sem einstakir nm. áskilja sér rétt til þess að flytja brtt. við frv. eða reyndar ekki eingöngu það, heldur hafa óbundnar hendur um afstöðu til frv., og engir sérstakir nm. eru þar tilgreindir. Ég sé raunar ekki, að þetta skipti ákaflega miklu máli. N. mun að sjálfsögðu taka málið aftur upp til meðferðar og taka afstöðu til þess, þar sem einstakir nm. hafa enn ekki þá afstöðu. En út frá þessu sjónarmiði greiddi ég atkv. með því, að frv. væri flutt af n. Ég taldi það ekki hafa verið þannig til meðferðar, að n. sjálf væri flutningsaðili að því. Hitt getur svo vel verið, að bréfið sé þannig orðað, að það sé ekki venjuleg beiðni til n. um flutning á málinu. Það getur vel verið. En þannig bar þetta mál að. Ég mun kynna mér það nánar síðar.

Ég vil svo aðeins segja það, að mér finnst það vera skylt, að n. geri gangskör að því að greiða fyrir því, að málið verði tilbúið til afgreiðslu af hennar hálfu og reyna að ná samstöðu um það, ef unnt er.