06.03.1968
Sameinað þing: 43. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í D-deild Alþingistíðinda. (2592)

78. mál, utanríkisráðuneyti Íslands

Jón Skaftason:

Herra forseti. Ég ætlaði í sambandi við þessar umr. að beina einni fsp. til hæstv. viðskmrh., en hann er nú ekki staddur í þingsalnum þessa stundina, en ég veit, að hann er hér viðlátinn í húsinu, og vildi ég því fara þess á leit við hæstv. forseta, að hann gerði ráðstafanir til þess að fá hæstv. ráðh. til þess að sitja hér í d. meðan ég ber fsp. upp.

Já, ég var aðeins búinn að víkja að því, að ég hefði áhuga fyrir að bera upp örstutta fsp. til hæstv. viðskmrh., sem ég vona, að hann sjái sér fært að svara núna. En fsp. þessi er út af því, að á Alþ. þann 23. febr. 1966 var samþ. þáltill., sem ég var 1. flm. að, svo hljóðandi með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta athuga í samráði við fulltrúa atvinnuveganna, á hvern hátt megi efla markaðsrannsóknir og markaðsleit í þágu útflutningsatvinnuvega þjóðarinnar, og verði niðurstöður þessara athugana lagðar fyrir næsta reglulegt Alþ.“

Þar sem nokkuð dróst, að svar eða skýrsla væri gefin á hv. Alþ. um þessa samþykktu þál., bar ég fsp. fram til hæstv. ráðh. þann 13. apríl 1987 þess efnis, hvernig athugun þeirri, sem þáltill. gerir ráð fyrir, að framkvæmd verði, miðaði, og þá sagði hæstv. ráðh. m.a. í svari sínu:

„Í framhaldi af samþykkt Alþ. á þeirri till., sem hv. fyrirspyrjandi las í orðum sínum hér áðan, tók viðskmrn. að sér að semja skýrslu um þetta mál. Er því verki lokið, en ætlunin var að senda skýrsluna til samtaka útflytjenda áður en málið yrði lagt fyrir hið háa Alþ. Ég skal hins vegar með ánægju verða við tilmælum hv. þm. um að skýra frá aðalefni þeirrar skýrslu, sem þegar hefur verið samin. En ég mun nú á næstunni ræða hana við samtök útflytjenda“

Síðan hæstv. ráðh. gaf þetta svar, er liðið fast að því heilt ár, og mér vitandi hefur engin skýrsla verið birt um niðurstöður þessarar rannsóknar og þeirra umr., sem væntanlega hafa farið fram á milli viðskmrn. annars vegar og samtaka útflytjenda hins vegar, og finnst mér því tímabært undir þessum dagskrárlið, sem hér fer nú fram, að ítreka enn á ný þá fsp., sem ég bar fram fyrir tæpu ári síðan, og vænti ég þess, að úr þessu geti varla orðið langur dráttur á því, að hæstv. ráðh. leggi fyrir hv. Alþ. þá skýrslu, sem hann vék að í svari sínu og ég las upp hér áðan.

Markaðsmálin eru ákaflega mikið stórmál fyrir okkur Íslendinga, og ég minnist þess, að í einu dagblaðanna var um það skrifað fyrir nokkrum dögum, að utanríkisþjónustan og sendiráð Íslands erlendis gætu mjög lítið liðsinnt þeim, sem áhuga hefðu á þessum málefnum. Mig minnir, að í einni grein, sem birtist í Morgunblaðinu, hefði verið á það bent, að sendiráðin erlendis teldu sig ekki þurfa að svara fsp. um markaðsmálefni nema þau fengju skýlaus fyrirmæli um það frá utanrrn. í Reykjavík hverju sinni. Ef þetta er rétt, er þetta að sjálfsögðu algerlega óhæft frambúðarástand, því að eins og allir vita, er eitt af aðalverkefnum sendiráða allra menningarþjóða víða um heim, að sinna viðskiptamálefnum að mjög verulegu leyti, og í sendiráðunum og í rn. sjálfu eru yfirleitt starfandi menn, sem hafa sérþekkingu á viðskipta og markaðsmálum, og ég tel, að utanríkisþjónustuna þurfi að endurskipuleggja ekki sízt með tilliti til þess að bæta úr þessum stórkostlega galla, sem er á starfsemi hennar að þessu leyti.