13.02.1968
Efri deild: 55. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í D-deild Alþingistíðinda. (2767)

116. mál, styrjöldin í Víetnam

Flm. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Styrjöld sú, sem nú og lengi að undanförnu hefur geisað í Víetnam, færist stöðugt og í vaxandi mæli í það horf, eftir því sem tímar fram líða, að vekja öllu mannkyni ugg og kvíða. Hún er því löngu komin af því stigi að vera einkamál þeirra, sem þar takast á eða með beinum og óbeinum hætti eiga aðild að vopnaviðskiptum.

Hvenær getur styrjöld af þessu tagi lokið? Hver verður sigurvegari átakanna? Frammi fyrir spurningum eins og þessum verður það stöðugt fjarlægjara, að svar geti fundizt, ef menn miða við, að bardagar hljóti að standa þar til úrslit á vígvelli eru fengin.

Í nánari hugleiðingum um svona spurningar og um styrjöldina í Víetnam yfirleitt verða auðvitað ekki allir samferða, því að mjög eru skoðanir manna um eðli og tilgang þessarar styrjaldar skiptar, að ekki sé nú talað um þá óskadrauma, sem menn ala með sér um úrslitin. En hér er hvorki staður né stund til að draga fram málstað hvors stríðsaðilans um sig eða stofna til deilna á þeim vettvangi, enda er það ekki tilgangur þessarar till., sem hér er til umr., að fá enduróm af átökunum í Víetnam hér inn í þingsalinn, heldur hitt, að Alþingi hugleiði það í fullri alvöru, hvort það vill ekki eiga hlut að því, að ósköpum þessara átaka linni, vopn verði slíðruð og gengið til samninga um deilumálin.

Greinilegt er, að þeim fer stöðugt fækkandi, sem telja, að nokkur sigur vopna, hernaðarátaka eða hryðjuverka sé mögulegur í náinni framtíð.

Þegar metinn er hernaðarmáttur styrjaldaraðilanna, annars vegar Bandaríkja Norður–Ameríku, Suður–Víetnams, Ástralíu, Nýja–Sjálands og annarra ríkja, sem með þeim eiga hermenn á orrustuvelli, og hins vegar Norður–Víetnams og skæruliða Víetcong, fæst auðvitað út úr því dæmi slíkur reginmunur, að hinir fyrrnefndu ættu að hafa unnið algeran úrslitasigur og það fyrir löngu. Alkunnugt er þó, ekki sízt úr heimsfréttum síðustu daga, að þessu er engan veginn þannig farið. Þvert á móti virðist nú frumkvæði átakanna vera hjá hinum síðar nefndu. En tæpast verður þó talið, að þeir séu í neinni nánd við lokasigur. En hversu sem hernaðaraðstaða er metin og sigurhorfur á vígvelli, segir margra ára reynsla, að hvorugur aðili er nærri sigri. Átökin geta enn haldið áfram árum saman og breiðzt út, eins og þau hafa gert á hinum síðustu árum, þótt nú séu raunar líkur mestar fyrir mun skjótari útbreiðslu þeirra og aukinni hörku í hernaðinum, og er þá skammt eftir í það, að styrjöldin í Víetnam breytist í óvægin allsherjarátök stórveldanna, heimsstyrjöld.

Það ar illt til þess að vita, að öðrum eins hörmungum og á víetnömsku þjóðinni hafa dunið á síðustu árum og áratugum skuli enn ekkert vera að linna, nema síður sé. Ef á heildina er litið, verður ekki annað sagt, en þróun heimsmála hafi verið þannig frá lokum hinnar síðari heimsstyrjaldar, að umkomulitlar og vanþróaðar þjóðir og ófrjálsar nýlendur hafi öðlazt nokkra möguleika til sjálfstæðis og framfara Í þessum efnum hefur að vísu margt mistekizt og þróunin til betra og hamingjusamara mannlífs hjá þessum þjóðum orðið hægari en vonir stóðu til. Þá hafa þó öll stórveldin átt einhvern hlut að frjálslegri og betri þróun í þessum efnum og komið fram af meiri skilningi og hjálpfýsi en áður þekktist á hinum fyrri tímabilum sögunnar.

Harmleikurinn í Víetnam er enn átakanlegri fyrir það, að hann stingur svo skelfilega í stúf við hina almennu þróun.

Þegar fornar nýlendur stórveldanna og annarra nýlenduvelda voru sem óðast að hljóta sjálfstæði með friðsamlegum hætti hinn síðasta aldarfjórðung, háðu Víetnamar stríð við Frakka sér til sjálfstæðis, og þeir sigruðu í þeirri styrjöld. Sjálfstæðisins hafa þeir þó ekki notið vegna truflana frá utanaðkomandi öflum, sem í vaxandi mæli hafa komið við sögu í landi þeirra, unz nú er svo komið, sem allir vita: Landið er allsherjar vígvöllur, og þjóðin þjáist og brennur upp í styrjaldarlogum, en í öllum umheimi hennar finnst vart sá maður, sem telur hennar hlutskipti maklegt.

Herra forseti. Við flm. þessarar till. teljum, að styrjöldin í Víetnam sé alþjóðlegt vandamál, sem engri þjóð sé lengur óviðkomandi. Hún er að okkar mati smánarblettur á menningu heimsins og ógnun við allt mannkyn.

Okkur er það að sjálfsögðu fullljóst, að það er ekki á valdi okkar Íslendinga að gefa styrjaldaraðilum fyrirskipanir. Með því móti erum við þess ekki umkomnir að þagga niður í byssum eða sprengjuvörpum. Við getum ekki heldur á þann hátt stöðvað sprengjukast úr vígdrekum loftsins eða kæft bálin, sem hernaðarátökin kveikja. En við getum látið rödd Íslands heyrast á alþjóðavettvangi. Við getum lýst yfir óskum okkar um, að þeim ósköpum, sem hér eru á ferð, þeim linni. Við getum tekið undir við fjölmarga friðelskandi aðila, sem þegar hafa kvatt sér hljóðs og sagt, að hér sé þegar meira en nóg að gert. Við getum bent á þær leiðir, sem okkur finnast líklegastar til friðar, eins og nú er komið málum, og það er þetta, sem við viljum, að þessi hv. þd. geri. Við erum þeirrar skoðunar, að slíkar óskir og áskoranir megi sín nokkurs, þegar þær koma saman og falla í líkan farveg frá mörgum aðilum, og því meir sem þær eru einbeittari óskir um frið, — frið, sem þyrmi langhrjáðri og frumsstæðri þjóð frá frekari tortímingu en orðið er, — frið, sem bægir yfirvofandi heimsstyrjaldarhættu frá öllum þjóðum, — frið án tillits til þess, hvern má ásaka fyrir það, sem orðið er.

Í till. okkar er bent á hverjar leiðir við teljum líklegastar til árangurs, en efnislega eru þær þessar:

1. Að Bandaríkin stöðvi loftárásir sínar á Norður–Víetnam.

2. Að þjóðfrelsishreyfingin í Suður–Víetnam verði viðurkenndur aðili við gerð friðarsamninga.

3. Að stjórn Norður–Víetnams og Víetcong sýni ótvíræðan vilja til að setjast að samningsgerð, um leið og sprengjuregninu linnir.

Ef hv. Ed. Alþ fellst á að gera þessa till. að sinni, mundi ríkisstj. falið að koma ályktuninni á framfæri á alþjóðavettvangi sem áskoðun Íslendinga til stríðsaðila

Að lokum, herra forseti, legg ég til, að á einhverju stigi þessarar einu umr., sem d. hefur ákveðið um till., verði umr frestað og till. vísað til allshn., en þess vildi ég mega vænta, að n. láti afgreiðslu hennar ekki dragast um langan tíma.