19.04.1968
Efri deild: 97. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í D-deild Alþingistíðinda. (2770)

116. mál, styrjöldin í Víetnam

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Þessari till. til þál. um styrjöldina í Víetnam var vísað til allshn., og hefur n. tekið þessa tili. fyrir á nokkrum fundum.

N. náði að lyktum samstöðu um afstöðu til þessa máls. Leggur hún fram brtt., svo sem kemur fram í nál. á þskj. 654, þar sem tekin er upp tillgr. í heild með breytingum n., þ.e.a.s. tillgr. öll er endursamin.

Það náðist, eins og ég sagði, samstaða um þetta mál í allshn., en rétt er þó að geta þess, að einn nm., hv. 7. landsk., var fjarverandi, þegar málið var afgreitt.

Fyrir tæpum þremur mánuðum, þegar þessari till var útbýtt hér á Alþ. og hún tekin til umr., var styrjöldin í Víetnam í algleymingi. Loftárásir voru gerðar á Norður–Víetnam og miklar hernaðaraðgerðir áttu sér stað á landi Suður–Víetnams. Það má því segja, að á þeim tíma hafi raunar litið verr út en nokkru sinni fyrr með að leysa þessa deilu á friðsamlegan hátt. Þvert á móti virtist eins og styrjöldin væri að færast í aukana. Síðan þessi till var flutt, hefur hins vegar orðið breyting á þróuninni í þessari styrjöld, breyting, sem horfir sem betur fer til batnaðar. Meginbreytingin er sú, að ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur takmarkað loftárásirnar á Norður–Víetnam, og það virðist einnig líklegt eða Ijóst, að stjórn Norður–Víetnams og Víetcong-hreyfingin, sem eru aðilar að styrjaldarrekstrinum, hafi dregið úr sóknaraðgerðum í Suður-Víetnam, þó að það hafi að vísu frá þessum aðilum ekki komið nein yfirlýsing um það, af hverju það sé sprottið, hvort það sé af hernaðarlegum ástæðum eða hvort þær með þessu móti vilji sýna einhvern vilja til sátta og friðar.

Allshn. taldi eðlilegt að taka tillit til þessara breyttu aðstæðna við endanlegt orðalag og inntak þessarar till, því að í upphaflegu till. var m.a. skorað á stjórn Bandaríkjanna að stöðva loftárásirnar á Norður–Víetnam, en nú, þegar þessi till. er hér til afgreiðslu, hefur ríkisstjórn Bandaríkjanna framkvæmt þetta að verulegu leyti, þó ekki að öllu leyti, eins og kunnugt er. Það sýnir reyndar bezt, hversu þessi deila er viðkvæm og vandmeðfarin, að nú, þrátt fyrir það, að nú séu horfur á því, að aðilar geti setzt að samningaborðinu til að hefja undirbúningsviðræður um vopnahlé, og reyndar hafi ríkisstjórn Norður–Víetnams tjáð sig reiðubúna til þess, eftir að stjórn Bandaríkjanna dró úr loftárásunum, virðist samt sem áður eins og þessir aðilar geti ekki komið sér saman um fundarstaðinn. Það er eins og það sé varla til nokkur staður á hnettinum, sem þessir aðilar geti báðir sætt sig við sem viðræðustað, og sýnir það auðvitað, hvað þessi deila er mjög svo viðkvæm og reyndar vandleyst. Og auðvitað verða menn að gera sér það ljóst, þótt heldur blási nú byrlegar í bili, að þá á auðvitað mjög langt í land enn, að þarna sé kominn friður á.

Í upphafi brtt. allshn. segir, að d. álykti að lýsa yfir þeirri skoðun sinni, að deiluefni styrjaldaraðila í Víetnam verði einungis leyst með friðsamlegum hætti. Er þarna reyndar um að ræða aðeins orðalagsbreytingu frá hinni upphaflegu till. Í öðru lagi segir í till. n., að stór hætta sé á því, að styrjöld þessi geti, hvenær sem er, breiðzt út og orðið upphaf nýrrar heimsstyrjaldar, auk þess sem áframhaldandi styrjaldarrekstur eykur sífellt á langvarandi hörmungar víetnömsku þjóðarinnar. Þetta er óbreytt frá því, sem var í upphaflegu till. Þá segir enn fremur í till n., að með þeirri takmörkun loftárása á Norður–Víetnam, sem ríkisstjórn Bandaríkjanna hafi nýlega ákveðið, og þeim jákvæðu viðbrögðum, sem stjórnin í Hanoi hefur sýnt af þessu tilefni, hafi nú skapazt hagstætt tækifæri til undirbúnings sáttagerðar í deilunni. Má einskis láta ófreistað til að nota þetta tækifæri sem bezt, svo að vopnahléi og viðræðum um friðarsamninga verði komið á. Enn fremur segir í till.: „Telur deildin, að þessu verði nú helzt fram komið með því: 1) Að ríkisstjórn Bandaríkjanna stöðvi allar loftásásir á Norður-Víetnam, en jafnframt dragi stjórn Norður-Víetnams og Víetcong-hreyfingin úr sóknaraðgerðum af sinni hálfu og láti þannig í ljós ótvíræðan vilja til að ganga til samninga“ Í þessum 1. tölulið í till. n. er í raun og veru meginefnið úr 1. og 3. tölulið upphaflegu till. dregið saman í eitt. Felst náttúrlega í því ósk um fulla stöðvun loftárása. Það má segja, að hún sé að inntaki nokkuð önnur en í upphafi, þar sem þegar hafi verið dregið verulega úr þeim, en þarna er sú hugsun á bak við þetta, að jafnframt því sem Bandaríkin stöðvi allar loftárásir, sýni stjórnin í Norður–Víetnam og Víetcong-hreyfingin vilja til friðarsamninga með að draga úr sóknar aðgerðum af sinni hálfu, og mætti þá vel hugsa sér, ef þessir aðilar, sem allir vona einlæglega, geta nú setzt að sáttaborðinu innan skamms tíma, þá geti þetta einmitt orðið fyrsta samkomulagsatriðið, sem þar yrði fjallað um.

Í öðru lagi segir í 2. tölulið þessarar till. frá n., að auk ríkisstjórnar Bandaríkjanna og ríkisstjórnar Norður–Víetnams verði ríkisstjórnin í Saigon og Víetcong-hreyfingin aðilar að samningagerðinni. Ýmsar kenningar hafa verið á lofti um það, hverjir séu aðilar að þessar í styrjöld og þessari deilu. Hugsanlega mætti telja þar alla, sem eiga þarna hermenn á vígvellinum, en það eru margar þjóðir. En ég held, að það fari ekki á milli mála, að meginaðilar að þessari styrjöld séu stjórnin í Saigon, Víetcong-hreyfingin, stjórnin í Norður-Víetnam og svo Bandaríkin, sem eru langöflugasti hernaðaraðilinn þarna af utanaðkomandi ríkjum. Í þessari till. er lagt til, að þessir fjórir aðilar verði aðilar að því samkomulagi, sem þarna er vonazt eftir að geti komizt á.

Í þriðja lagi er svo í þessari brtt. n. lagt til, að öflugu sáttastarfi í deilunni verði haldið uppi á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Þetta er í raun og veru nýtt, þetta var ekki í hinni upphaflegu till. En það er ljóslega megintilgangur Sameinuðu þjóðanna að reyna að viðhalda og koma á friði í heiminum, þar sem styrjaldir eiga sér stað. Sameinuðu þjóðirnar ættu að öðru jöfnu að verða öflugasti aðilinn til þess, þó að þær hafi, því miður, reynzt vanmegnugar í þessari deilu og reyndar fleirum. En það er þó t.d. ljóst, að aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur mjög lagt sig fram um að koma á sáttum eða samningaviðræðum í þessari deilu og hefur einskis látið ófreistað í því efni. Einmitt á vettvangi Sameinuðu þjóðanna ættu allar þjóðir að geta komið sjónarmiðum sínum fram, þeim sjónarmiðum, sem eiga að stuðla að því, að sættir takist í þessari deilu. Og vitanlega er það ljóst, að þessi hörmulega styrjöld kemur öllum þjóðum heimsins við, einnig íslenzku þjóðinni, og þó að okkar hlutur verði sjálfsagt ákaflega smár í að geta leyst þessa deilu, er þó sjálfsagt, að frá íslenzku þjóðinni heyrist, hvað hún vill, og hún komi einnig sínum sjónarmiðum á framfæri á alþjóðavettvangi og leggi sitt léttvæga lóð á vogarskálina.